Nýja hindrun dagsins – sem er að verða fastur liður – er að ríkið ætlar að hætta að hleypa okkur óbólusettu ferðamönnunum í farsóttarhúsin. Rökin eru væntanlega þau að óbólusettir túristar geti sjálfum sér um kennt að vera að dandalast þetta um heiminn á meðan pestin geisar. Og eigi þar með að borga sína gistingu sjálfir. Þeim er stillt upp gegn heiðvirðum veikum Íslendingum og látið einsog einn hópurinn þjáist á kostnað hins – sem er auðvitað klassískur popúlismi. Það er engin ástæða til þess að þjónusta ekki báða hópana (önnur en sparnaður sem sagt). Ef það var einhvern tíma réttlátt að bjóða upp á þessa gistingu þá er það það enn. Mér skilst það sé laus gisting á höfuðborgarsvæðinu. Það gagnast mér lítið, sem kem í land á Austurlandi. Ég hefði heldur kosið að gista á gistiheimili eða hóteli og er löngu búinn að skrifa öllum gististöðunum á svæðinu í leit að húsnæði til að sitja af mér mínar þrjár nætur. Það er, einsog áður hefur komið fram hér á síðunni, ekkert laust – ef frá er talin ein nótt sem kostaði 30 þúsund (og hefði ekki gert mér gagn af því maður má augljóslega ekki fara á milli gististaða). En það er augljóslega ákveðnum vandkvæðum bundið að neyða mig til að kaupa gistingu sem ég er búinn að reyna að kaupa en reyndist ekki í boði. Annars var hvíldardagur hér í Rejmyre. Á morgun keyrum við til Gautaborgar þar sem ég fer í PCR-test og ég er farinn að taka öllu sem líkami minn gerir sem ótvíræðu teikni um að ég sé með covid. Ef ég slepp í gegnum það test kemst ég samt um borð í bátinn og þá til Íslands. En við vitum ekki með Nödju fyrren í Danmörku. Ef ég slepp ekki skiptir þessi sóttkví á Íslandi sennilega engu máli en ég verð þá ekki kominn heim heldur fyrren í september. Ég fór út að hlaupa og tók upp Blús mánaðarins. En ég gerði engan jóga, einsog þó stóð til. Börnin eru að spila Matador. Farangurinn er kominn út í bíl. Mér skilst að þau sem tóku við íbúðinni á Karlsgötu séu flutt inn og allt sé í lagi þar. Allt fer þetta svo einhvern veginn.