Þetta var frekar intensíf vika, sérstaklega helgin. Ég fór suður í jarðarför nafnamíns, sem var afar falleg, og tók svo þátt í gjörningi og upplestri á Hamraborg Festival. Leit líka við á einni myndlistarsýningu og einni ljósmyndasýningu og einni Erró-yfirlitssýningu, hélt upp á 15 ára brúðkaupsafmæli og kíkti á 9 líf. 9 líf er sérstaklega áhugaverð – það er nefnilega svo skrítið að hún er eiginlega ekki minna um okkur sem dáum Bubba en hún er um Bubba sjálfan. Og um sjálfsmyndirnar okkar – lífin okkar sem taka hvert við af öðru en fylgja okkur svo einsog vofur gamalla synda og gamalla sigra. Ég las tvær klassískar bókmenntir í vikunni og tvær samtímaskáldsögur. Fyrst ber að nefna Things Fall Apart eftir Chinua Achebe, sem ég hafði ekki lesið áður. Hún segir sögu hins harðsvíraða Okonkwo, sonar liðleskjunnar Unoka. Okonkwo kemur ár sinni vel fyrir borð og verður mikilmenni í sínum ættbálki, á margar konur og margar kýr og mörg börn, og sýnir aldrei neinum neina linkind. Þegar véfrétt þorpsins kveður úr um að hann verði að láta drepa stjúpson sinn (sem tilheyrir öðru þorpi og kom til hans sem hálfgerðar stríðsskaðabætur – en sem honum þykir afar vænt um) ákveður hann, í æði og þvert ofan í ráðleggingar véfréttarinnar, að drepa hann sjálfur. Í kjölfarið verður hann þunglyndur og það fer að halla undan fæti. Skömmu síðar deyr svo véfréttin og í jarðarför hennar (eða hans, sem sagt) hleypur voðaskot af byssu Okonkwo sem sonur véfréttarinnar verður fyrir og Okonkwo og fjölskylda hans eru send í sjö ára útlegð til annars þorps. Á meðan á útlegðinni stendur fara kristnir menn að gera sig gildandi á svæðinu og þegar þau snúa aftur hafs kristnir eiginlega meira og minna náð völdum í þorpinu og margir látið skíra sig – en einmitt í tengslum við þessa endurkomu Okonkwo verða miklir árekstrar milli kristinna manna og hinna. Kristnu mönnunum fylgir vel að merkja ekki bara trú á Jesú Krist heldur auk þess trú á vestrænt „réttarríki“ og það er ekki síst þar sem árekstrarnir verða – eftir að hin nýbyggða kirkja er lögð í rúst og þess krafist að hinum seku verði refsað. Sem er áhugavert fyrir seinni tíma lesanda, þegar hin kristna kirkja hefur veikst svo mjög en réttarríkið ekki. Þetta er þung bók og að mörgu leyti óþægileg vegna þess að maður skilur bæði hvernig fortíðin hlýtur að hverfa og hvað það hlýtur alltaf að vera sársaukafullt, hversu harðneskjulegir hættir eldri kynslóðanna eru, og hvernig kærleikurinn og réttarríkið verður afsökun fyrir nýlenduherranna og postula þeirra til þess að koma sinni eigin ár fyrir borð – svo þeir megi sjálfir verða valdsmenn í höfðingjanna stað. Og hvernig er eftirsjá af gömlum háttum, jafnvel þótt þeir séu harðneskjulegir. Þannig eru hinir kristnu engu minni fantar en Okonkwo sjálfur, jafnvel meiri eða stærri fantar – kerfislægari fantar – þrátt fyrir að orðin á vörum þeirra og hugmyndirnar sem þeir flytja, fyrst og fremst kærleikur og réttlæti, séu jákvæð. Hin klassíkin sem ég las var Pastoralsinfónían eftir André Gide í þýðingu Sigurlaugar Bjarnadóttur. Sú fjallar um prest sem tekur að sér blinda stúlku sem hefur alist upp hjá mállausri konu og aldrei umgengist fólk og kann þar af leiðandi ekki að tjá sig. Presturinn, sem á konu og fimm börn, einsetur sér að kenna stúlkunni að tala og lesa og vanrækir sína eigin fjölskyldu á meðan – með þeim rökum að stúlkan þurfi á honum að halda en hans börn séu öll sjálfbjarga. Stúlkan, sem hann telur fyrst fimmtán ára en ályktar síðar að sé eldri, blómstrar smám saman og þau fella hugi saman – hann af nokkurri þráhyggju og sennilega einhvers konar miðaldurskrísu, og vegna þess að honum finnst konan sín mjög greinilega óþolandi; og hún sennilega mest vegna þess að hann verður allt hennar líf, kemur eiginlega bara í staðinn fyrir mállausu konuna, og vegna þess að hann sýnir henni mikla umhyggju, sem hún hefur ekki notið áður. Presturinn áttar sig reyndar seint á eigin tilfinningum, langt á eftir eiginkonu sinni eða lesandanum – hann er blindur á sinn hátt. Það er eiginlega ekki fyrren sonur hans verður svo ástfanginn af stúlkunni og hann lætur senda soninn í burtu sem honum verður þetta almennilega ljóst. Fyrir rest (SPOILER ALERT) fer stúlkan svo í aðgerð, fær sjónina, áttar sig á því að presturinn er gamall karl og að maðurinn sem samsvarar því sem hún sá í huga sér – maðurinn sem hún elskaði – var sonurinn, sem er þá orðinn kaþólskur prestur og þannig prestar mega engum giftast. Þá er bláendirinn eftir og honum skal ég ekki spilla. Hér eru auðvitað mörg lög og mikið melódrama. Ég er heldur aldrei alveg viss hversu mikið maður eigi að setja sig í stellingar fyrir þann hugmyndaheim sem verk eru skrifuð inn í – Pastoralsinfónían var skrifuð árið 1919 og gerist undir lok nítjándu aldar. Þá var 15 ára stúlka of ung fyrir fertugan kall en það var ekki glæpur – eiginlega virkar það mest bara hallærislegt. En hann „hækkar“ hana líka í aldri strax og hann fer að þrá hana (það veit enginn hvað hún er gömul í raun). Ég hugsaði strax að það væri ástæða til að lesa þetta sem einhvers konar fyrirrennara Lólítu en þá verður líka að hafa í huga að presturinn er ekki jafn óáreiðanlegur sögumaður og Humbert Humbert, þótt sjónarhorn hans sé eðlilega afar skekkt af eigin ástríðum og þráhyggjum. Tilfinningar stúlkunnar í hans garð eru miklu sennilegri – og hverfa. Og þá er þetta fyrst og fremst saga um tilfinningar – líkamlegt samband þeirra er mjög lítið, mig minnir að þau kyssist einu sinni. En það er líka spennandi þráður þarna um kristilegan mann sem tekur röð af siðferðislega réttum skrefum sem samanlagt verða að siðferðislega röngum göngutúr. Það er rétt hjá honum að taka að sér stúlkuna, rétt hjá honum að kenna henni og sýna henni umhyggju og rétt hjá honum að elska hana og rétt hjá honum að fylgja hjartanu og rétt hjá honum að berjast fyrir ástinni og hún er ekki dóttir hans og hún er (á síns tíma vísu) fulltíða kona sem elskar hann til baka (þar til hún fær sjónina) og þá er hann einhvern veginn kominn í hræðilegar ógöngur og farinn að haga sér einsog alger besefi. Þessi þráður er þá um ábyrgð manns til þess að sjá nokkur skref fram á við og skoða samhengi gjörða sinna (og tilfinninga) frá ólíkum sjónarhornum – sem ég held að sé einmitt eitthvað sem fólk á mjög erfitt með og jafn erfitt með í dag og fyrir hundrað árum. Svo er auðvitað ekki laust við að Woody Allen komi upp í hugann líka. En það er nú efni í sérpistil. Okkar á milli eftir Sally Rooney heitir Conversations with Friends á ensku – hún er vel þýdd af Bjarna Jónssyni en þessi titill er hræðilega „RÚV-legur“, alveg á barmi þess að vera „Hættur á háskaslóð“. Það er einhver tilhneiging í íslenskum titlaþýðingum að taka hið sértæka eða undarlega og breytta því í eitthvað almennt (og reynsla mín er sú að hér sé jafnan ekki við þýðandann að sakast heldur markaðsdeild forlagsins). Hvað um það. Þetta er fyrsta bók Sally Rooney og hún er talsvert síðri en sú nýjasta, Fagri heimur, hvar ert þú? , sem ég las í síðustu viku, þótt hún sé líka að mörgu leyti svipuð. Hún fjallar um tvær vinkonur, fyrrum kærustur, Frances og Bobbi. Þær eru á neðanverðum þrítugsaldri og ljóðaslammarar sem slamma ljóð sem Frances, sögumaðurinn, semur. Frances og Bobbi kynnast ríku pari á ofanverðum fertugsaldri, karlleikara og konu sem er ljósmyndari og ritgerðasmiður. Melissa og Nick. Bobbi og Melissa laðast hver að annarri og daðra mikið og kyssast en Nick og Frances fara að halda hvort við annað af miklum móð. Og svo verður þetta bara flóknara. Eins og fólk er flest eftir Sally Rooney heitir Normal People á ensku – sem er einmitt líka miklu kraftmeiri titill. Venjulegt fólk. Hvað um það. Þetta er miklu betri bók en Okkar á milli . Hún fjallar um Maríönnu og Connell. Maríanna er af ríku fólki komin en mamma Connells vinnur við að þrífa heima hjá foreldrum Maríönnu. Maríanna er hins vegar mjög óvinsæl í menntaskóla og þegar þau Connell fara að sofa saman fer hann fram á að þau haldi því leyndu, svo fólk geri ekki grín að honum. Þegar þau hittast aftur á háskólaárunum er hún orðin vinsæl og þau byrja aftur að sofa saman – en alltaf með þennan bakgrunn. Svo hætta þau að sofa saman og byrja aftur að sofa saman og þar fram eftir götunum. Og svo verður þetta bara flóknara. Sally Rooney skrifar sig mjög mikið inn í melódrama og klisjur – ekki ósvipað og Gide, reyndar – og snýr síðan aðeins upp á þær svo sagan lifnar við – þannig er hún til dæmis augljós femínisti og vinstrimaður „með hjartað á réttum stað“ en fellur þó aldrei í þá gildru að gera konur eða verkafólk að einföldum fórnarlömbum illra afla eða ímynda sér að þær og þau séu ekki líka gerendur eða fær um allan fjárann. Þannig verður heimsmynd klisjunnar stærri – og óklisjukenndari. En þegar maður les þrjár bækur í röð frá höfundi sem skrifar hratt (þær koma út á fimm árum) verður maður líka kannski fullmeðvitaður um endurtekningar og keimlíkar senur milli bóka og það koma upp alls konar spurningar. Til dæmis virðist fólk alltaf vera að tala um „alvarlega“ hluti – fólk talar um Palestínu og Zizek og Lorde og írska pólitík – en maður sér fólk aldrei segja neitt um það. Við fáum lýsingar á tölvupóstum sem séu fullir af einræðum um þessu alvarlegu mál en þegar við sjáum vitnað í tölvupósta frá sama fólki eru þeir ljóðrænni og sjálfhverfari. Við vitum aldrei annað en að fólk talar um þessa hluti, ekki hvað það segir um þá. Þá setur hún gjarnan fátækt fólk inn í þær aðstæður að vera að hanga með ríkum og það verður alltaf furðulega lítið problematískt – það bara er og ríku borga brúsann og kannski hugsar einhver eitthvað smá um það en árekstrarnir eru í lágmarki. Svo er hún oft endurtekin í þessum bókum hugmyndin um að fólk af verkalýðsstétt hafi ekkert gaman af menningu og vilji bara horfa á fótbolta – og jafnvel sem einhvers konar „vörn“ fyrir verkalýðsstéttina, hún „þurfi“ ekkert að láta sem menningin komi sér við, þetta sé alltílagi. Sem kom mér nógu ankannalega fyrir sjónir til þess að ég sló því upp hver bakgrunnur Rooney sjálfrar væri (pabbi hennar vann fyrir írska ríkissjónvarpið og mamma hennar rak listamiðstöð – þannig er það orðað á Wikipediu, einsog það sé allt í fortíðinni). En þetta er kannski eitthvað írskt – stéttskiptingin þar er væntanlega öðruvísi en á Íslandi. Hér er auðvaldið bæði meiri plebbar og verkafólk, eða í öllu falli fólk með verkalýðsbakgrunn, alls ekkert ólíklegt til að vera á kafi í listum. Loks er ég búinn að horfa á fyrstu þættina í Sandman seríunni, eftir teiknimyndasögum Neils Gaiman, og fór á Beast í gær. Sandman byrjar vel en Beast náði einhvern veginn aldrei almennilega flugi – ég varð aldrei almennilega skelkaður. Samt er hún vel gerð og vel leikin – sennilega er tempóið í sögunni bara eitthvað off. Líklega hefði líka farið betur á því að hafa einhvern aumingjalegri en Idris Elba í þessu hlutverki.