Menning! Menning!

Ég var lasinn hálfa vikuna og las mikið. Undarlegt að þetta séu ótengd orð annars, las og lasinn, las (daginn út og) inn. Horfði líka svolítið á Curb og tónlistarnördayoutube. Kláraði Clark – um sænska gangsterinn Clark Olofsson, með Bill Skarsgård í aðalhlutverki. Ætli hann sé ekki bara betri leikari en pabbi sinn? Hann er allavega betri en Alex vinur minn (við borðuðum einu sinni kvöldmat saman á Tjöruhúsinu, reyndar af því hann er vinur Andra Snæs, sem er vinur minn – en ég er samt betri í sænsku en Andri, svo eiginlega er Alex meiri vinur minn). En Alex er sætari. Og Clark sem sagt mjög áhugavert stöff líka og mestmegnis satt sýnist mér. Áhugaverður punktur í endann þegar (TRIGGER NEI ÉG MEINA SPOILER ALERT) ævisagnaritarinn hættir við að gefa út bókina af því hún vill ekki taka þátt í kúltúrnum sem upphefur fantasíufígúruna Clark Olofsson – henni finnst að hann eigi skilið að vera ómerkilegur. Þar heyrir maður efasemdir kvikmyndagerðarmannsins á lokametrunum. En nú er það orðið of seint. Nú dreymir okkur óknyttastrákana um að verða Clark þegar við verðum stórir. Ég las Hvað er Drottinn að drolla? eftir Auði Haralds – hún var bráðskemmtileg. Sennilega eru að verða liðin 20 ár síðan hún var skrifuð en það kemur ekki mikið að sök af því hún á að gerast á fjórtándu öld, svona að mestu. Ef ég hef ekki misskilið eitthvað var hún skrifuð fyrir Strik.is vefinn og líklega hef ég átt hana á kindlinum ólesna um hríð – fyrir rúmum áratug gróf einhver hana upp og setti á mobi-formatt og sendi mér (um svipað leyti og ég var að garfa mikið í þeim málum – skrifaði Ást er þjófnaður og krakkaði Konuna við þúsund gráður og lenti í fréttunum og svona). En svo keypti ég hana í stórmarkaðskilju hér á dögunum og sporðrenndi í flensunni. Auður Haralds er sennilega fyndnasti höfundur sem Ísland hefur átt, heilmikill stílisti með áhugaverða sýn á lífið og tilveruna. Svo las ég Engill, Pípuhattur og jarðarber eftir Sjón. Hana las ég í menntaskóla og keypti svo síðar á einhverjum bókamarkaði og átti í plastinu. Ég hafði pínu áhyggjur af því að hún hefði elst illa – ég var mikill aðdáandi hennar og ljóðanna hans Sjóns þegar ég var í menntaskóla en fannst ljóðin ekki jafn frábær þegar ég endurlas þau fyrir nokkrum árum (nýja ljóðabókin hans er hins vegar hans besta). Og þótt ég hafi ekki lesið EPJ með jafn miklum andköfum og ég gerði 17 ára þá er þessi ákafa en afslappaða, raunsæja-súrrealíska ástarsaga ennþá frábær. Sem betur fer. Allt sem við misstum í eldinum eftir Mariönu Enriquez í þýðingu Jóns Halls Stefánssonar er argentínsk smásagnasafn – nýjasta bókin í þýðingaflokki Angústúru. Þetta eru eins konar hrollvekjur með raunsæisyfirbragði – kannski álíka blöndu og í EPJ eftir Sjón. Þar fannst mér fara fram nánast normkor saga í súrrealískri linsu (eða öfugt). Hér er argentínskur hrottaskapur og eymdartilvera – glæpir og fátækt, fíkn og spilling, sem er nánast allsráðandi í latín-amerískum frásögnum síðustu árin, bíó, sjónvarpi og bókum, einsog töfraraunsæið var fyrir 30-40 árum – sett í gegnum Lovecraftískan filter. Eða öfugt. Mjög gott. Hummelhonung eftir Torgny Lindgren er svolítið einsog sænska Hrútar. Hún fjallar um tvo bræður sem búa nálægt hver öðrum úti í rassgati í Norrlandi og hefst á því að annar þeirra sækir rithöfund, sem hann hefur samþykkt að hýsa, eftir að rithöfundurinn klárar upplestur. Rithöfundurinn er kona og hún verður fyrst veðurteppt hjá gestgjafa sínum en endar svo bara á að fresta brottför sinni meðan hún fylgist með bræðrunum. Einsog í Hrútum hatast þeir og hafa ekki talast við svo árum skiptir – liggja raunar báðir fyrir dauðanum, annar með krabbamein en hinn hjartveikur, en lifa fyrir það eitt að sjá hinn deyja fyrst. Það hefur lengi verið á dagskrá hjá mér að lesa meiri Torgny Lindgren – Nadja heldur mikið upp á hann. Ég las Nöðruna á klöppinni fyrir löngu en var ekkert upprifinn, las svo Norrlands Akvavit fyrr í ár og fannst hún frábær – tók þá Pölsan og nú Hummelhonung og nú held ég að Torgny sé bara uppáhalds sænski rithöfundurinn minn, kannski ásamt Bodil Malmsten. Þau eru líka með svipaðan húmor, einhvern furðulegan og fínlegan tón sem fær mig til að flissa mikið. Fagri heimur, hvar ert þú? er skáldsaga eftir Sally Rooney, vonarstjörnu hins írska bókmenntaheims. Ég hélt heillengi að bækurnar hennar væru einhverjar svona „sumarbækur“ – svona skyndibitaléttmeti á borð við bakaríisbækurnar og það allt saman. Sennilega af því hönnunin er svipuð, léttir skemmtilegir litir. Þessi bók fjallar um tvær stúlkur, fyrst og fremst, og strákana sem þær eru skotnar í (sú umgjörð gerir víst ekkert til að dempa léttmetistilfinninguna). En margt fleira! Önnur stúlkan er ungur moldríkur metsölurithöfundur sem er að jafna sig eftir taugaáfall (eða annan álíka geðsjúkdóm – hún er fremur nýlega komin út af hæli). Hin er skítblankur ritstjóri ljóðatímarits. Kærasti rithöfundarins er lagerstarfsmaður – ekta verkamaður! – og kærasti hinnar er pólitískur ráðgjafi og hugsjónamaður. Á borðinu eru fegurðin, umhverfið, heilindin, andleg heilsa, vináttan (eiginlega frekar en rómantíska ástin), kynlíf (mikið og grafískt) og svo framvegis – og hún fer svolítið brútal í þetta allt. Það er svolítið mikið verið að neimdroppa og vísa í heimsbókmenntirnar – Keats, tékk, Audre Lorde, tékk, James Baldwin, tékk, Shakespeare, tékk, titillinn er fenginn úr ljóði eftir Schiller – en svo furðu lítið gefið fyrir samtímabókmenntirnar. Lýsing á ljóðaupplestri er eiginlega meira vonlaus en kómísk – höfundarnir allir hræðilegir og enginn mættur. Metsöluhöfundurinn dauðvorkennir verkamanninum sínum að mæta á bókmenntaviðburð hjá sér, því hann les auðvitað ekki og hefur skiljanlega ekkert gaman af bókum, og segist sjálf aldrei mæta á bókmenntaviðburði nema tilneydd. Þetta er frekar glatað viðhorf, bæði til verkamanna og bókmennta. En góð bók samt og ég ætla að lesa hinar bækurnar hennar. Þegar ég var í menntaskóla plægði ég í gegnum skylduheimsbókmenntirnar, ekki síst til þess að mér þætti ég sjálfur mega hafa vit á hlutunum. Ein af þeim var The Great Gatsby sem ég gleymdi svo strax aftur, svona í meginatriðum að minnsta kosti, en endurlas aftur núna. Mér fannst ekkert ægilega til hennar koma þá en nú náði hún mér, eða ég henni – við mættumst einhvers staðar. The Great Gatsby er einhvern veginn hrottalegri en mig minnti. Minni glamúr og meira bara almennt siðleysi – það eru allir, nema kannski Nick, óttalegir drullusokkar – og samt voða mannlegir drullusokkar. Gatsby er mónómanískur en líka rómantíker sem vill vel, Daisy er sjálfselskur narsissisti en líka bara kona að reyna að bjarga sér innanum karla sem vilja eiga hana – jæja, maðurinn hennar er bara nasisti og kvenhatari af eldgamla skólanum og á sér engar sérstakar málsbætur. Svo horfði ég á bíómyndina sem Baz Luhrmann gerði fyrir rúmum áratug. Þar eru mannlegu drullusokkarnir orðnir að erkitýpískum fávitum. Gatsby er sósíópati. Nick er hálfgert barn. Daisy er hreint og saklaust fórnarlamb (hún t.d. hættir ekki við Gatsby af því hann efnaðist á vafasaman hátt, einsog í bókinni, heldur vegna þess að hann reynist vera skapofsamaður – sem er miklu sympatískara). Mér fannst sú túlkun ekki góð þótt myndin væri að mörgu öðru leyti kannski glæsileg. Nick miklu bláeygari en í bókinni, hann fellur fyrir glamúrnum og er raunar við sögulok orðinn hrottalegur alki og búinn að fá taugaáfall. Í bókinni er hann fremur heilsteyptur og fílar aldrei sérstaklega íburðinn hjá nágrönnum sínum – og þótt hann verði drukkinn tvisvar kemur fram að það séu eiginlega einu skiptin sem hann hafi fundið á sér í lífinu. Myndina skortir líka hinn íhugula rólega stíl sem einkennir bókina og skapar kontrast eða spennu við íburðarmikla ástríðu ríka fólksins – rödd Nicks er of barnaleg, Toby McGuire veldur ekki hlutverkinu. Þá fannst mér æpandi munur á þeim texta sem var skrifaður af handritshöfundunum og þeim texta sem var augljóslega tekinn beint úr bókinni – auk þess sem búið var að gera mikið af textanum úr bókinni naífan. Byrjunarorðin eru besta dæmið. Svona eru þau í bókinni: In my younger and more vulnerable years my father gave me some advice that I’ve been turning over in my mind ever since.

“Whenever you feel like criticizing any one,” he told me, “just remember that all the people in this world haven’t had the advantages that you’ve had.”

He didn’t say any more, but we’ve always been unusually communicative in a reserved way, and I understood that he meant a great deal more than that. In consequence, I’m inclined to reserve all judgments, a habit that has opened up many curious natures to me and also made me the victim of not a few veteran bores. Sem verður svona í bíómyndinni: In my younger and more vulnerable years my father gave me some advice: Always try to see the best in people, he would say. As a conquence I’m inclined to reserve all judgments. But even I have a limit. Mig grunar að handritshöfundarnir hafi haldið að hér væru þeir að kjarna einhvern sannleik úr margorðri bók – en eiginlega eru þeir bara að taka merkilega hugmynd og gera hana heimskulega. Sem á í sjálfu sér ágætlega við Nick kvikmyndarinnar, hann er voða vitlaus. Í gærkvöldi fór ég svo í bíó og sá Where the Crawdads Sing , sem er gerð eftir metsölubók Deliu Owens – en hana hef ég ekki lesið. Myndin fjallar um unga konu sem elst upp ein í mýri nokkurri í Norður Karólínu. Hún lifir af því að tína krækling og selja í kaupfélaginu. Hún á í tveimur ástarævintýrum – fyrst við einn góðan strák, sem er ljós yfirlitum og glaðlegur og gerir allt til að virða hana, neitar að sofa hjá henni eftir langt tilhugalíf því það geti verið svo miklu kostnaðarsamara fyrir hana en hann, og svo öðru við vondan strák sem er dökkur yfirlitum og hlustar aldrei á hana og reynir að ríða henni eftir korter á fyrsta stefnumóti. Þegar sagan hefst er sá síðarnefndi dauður og búið að handtaka stúlkuna fyrir morðið. Höfundurinn, Delia Owens, er að mér skilst dýrafræðingur og ef ég hef ekki misskilið eitthvað gengur bókin mjög mikið út á alls kyns samanburð á hegðun manna og hegðun dýra – lykilsetningin þar, sem kemur fram í myndinni, er þá að í raun eigi náttúran sér engar myrkar hliðar heldur hagi sér jafnan lógískt. Það finnst mér ögrandi hugmynd, þótt hún sé kannski ekki glæný. Ég get ímyndað mér að slíkt samhengi geri heilmikið fyrir söguna en það hefur að miklu leyti verið fjarlægt og því skipt út fyrir sæg af ótrúlega fallegum leikurum sem eiga það meira og minna sameiginlegt að virðast aldrei hafa verið mikið úti í náttúrunni. Sérstaklega virðist aðalleikkonan Daisy Edgar Jones – ef ég má leyfa mér slíka útlitsfordóma – aldrei hafa þurft að hafa brjálæðislega mikið fyrir því að draga fram lífið. Þá er margt illa útskýrt í myndinni – maður áttar sig t.d. ekki almennilega á því hvers vegna hún er skilin eftir (pabbinn er ofbeldismaður og það flýja hann allir – en þau eru samt að skilja eftir sex ára barn – og svo fer hann líka og það er óútskýrt). Ég skildi ekki hvers vegna manneskja sem lifir ein á náttúrunni á þessum stað í Bandaríkjunum virðist ekki eiga byssu – eða neitt vopn sem er stærra en hnífurinn sem hún notar til að losa kræklinginn. Eða hvernig stendur á því að aðalkaupfélagið á svæðinu er í eigu svartra millistéttarhjóna (sagan gerist á sjötta og sjöunda áratugnum). Eða hvers vegna góði kærastinn skildi hana eftir og kom ekki til baka og hvers vegna hann ályktaði bara að hún myndi aldrei vilja koma með sér. Eða hvað vakti fyrir vonda kærastanum. Eða hvernig ólæs stúlka verður alltíeinu metsölurithöfundur hálfgerðra fræðirita um náttúruna á tveimur árum. Maður fyllir alveg í götin með einhverju giski en það er ekki alveg nógu gott. Svo er hrúgað upp melódrama og klisjum í hverri einustu senu – það er alltaf verið að leggja áherslu á að þó stúlkan hafi ekki farið í skóla og raunar lítið umgengist fólk yfir höfuð viti hún rosa margt um náttúruna, allt frá latneskum heitum dýra yfir í það hvers vegna himinninn er blár (vondi kærastinn spyr hana og hún heldur stuttan fyrirlestur um ljósbrot). Í einni senunni, þegar stúlkan og góði kærastinn eru að bonda, fer hann að tala um sína æsku – hvernig hann hafi misst móður sína og systur í bílslysi og ég dæsti svolítið, þarf að vera tráma á bakvið hverja einustu setningu, hugsaði ég, og svo þegar hann bætti við að þær hafi verið á leiðinni í næsta bæ til að kaupa reiðhjól handa honum, sem átti afmæli, og þannig væri þetta eiginlega honum að kenna, fór ég nú bara að hlæja. Lái mér hver sem vill. En einsog ég segi. Mér finnst ekkert ósennilegt – og vona eiginlega innilega – að það hafi verið margt í bókinni sem gaf þessari vellu samhengi. Og margt í myndinni var ágætt – það voru fallegar tökur og fallegu leikararnir stóðu sig flestir ágætlega. En sagan og samtölin og tempóið voru bara einsog upp úr rauðu ástarseríunni. Þegar ég las Sally Rooney bókina í vikunni fór ég eitthvað að gúgla henni og rakst á tilvitnun í Will Self – sem er frábær rithöfundur en ægilegur fýlukall – þar sem hann er að tala um aðra skáldsögu Sallyar, Normal People : What’s now regarded as serious literature would, 10 or 20 years ago, have been regarded as young-adult fiction. I read a few pages of the Sally Rooney book. It may say things that millennials want to hear reflected back at them, but it’s very simple stuff with no literary ambition that I can see.” Þetta fannst mér – hafandi bara lesið Fagri heimur, hvar ert þú? og ekki Normal People – óverðskuldað. Og alls ekki ólíkt Self að henda fram hæpnum alhæfingum í viðtali, án þess að kynna sér málin meira en að lesa „a few pages“. Hins vegar hélt hann áfram og sagði líka eitt og annað sem ég tengdi meira við, svona almennt: I don’t mean to be overly critical, but in terms of literary history, it does seem a bit of a regression. If you consider that Nabokov’s Lolita was on the New York Times bestseller list for nine months, it’s a different order of literature. Eftir að hafa séð Where the Crawdads Sing – og fullur efasemda um gæði bókarinnar – hugsaði ég svolítið um þetta og nefndi meira að segja þetta viðtal við Nödju á leiðinni heim úr bíóinu. Hvort það gæti verið að alls konar vella sitji á metsölulistunum og verði svo að stóru hollywood-bíómyndunum og hvort það sé ekki öðruvísi en þegar Lolita var metsölubók og hollywood-bíómynd? Hvort við séum móttækilegri fyrir vellu og hvort við gerum minni kröfur um að vera neitt ögrað? Svo kom ég heim og gúglaði aðeins bókinni og sýndist nú almennt álit manna að hún væri í það minnsta skárri en bíómyndin – þótt hún kæmi kannski ekki til álita í kanónuna – en komst að sama tíma að því að aðalleikkonan í Where the Crawdads Sing , áðurnefnd Daisy Edgar Jones, lék líka aðal í Normal People bíómyndinni. Sem ég þarf nú eiginlega að fara að lesa og sjá. Ég hugsa hins vegar að ég láti Where the Crawdads Sing bara vera. Fyndið reyndar líka að hugsa til þess að Sally Rooney sé í nýju bókinni – einsog ég nefndi hér að ofan – að snobba fyrir heimsbókmenntunum og dissa samtímabókmenntirnar. Soldið einsog Will Self. Snemma beygist krókurinn og það allt saman.