Augun eru púströr sálarinnar

Ég las fjórar bækur í vikunni. Fór á enga tónleika, sá enga bíómynd, fór ekkert í leikhús, setti ekki á neina sérstaka plötu. Vann eina kappátskeppni – reyndar í boðáti með frænda mínum. Kláraði Peaky Blinders seríuna, sem var bara svona la-la, og er vonandi hætt – þetta er komið gott. Ég lýg því reyndar að ég hafi ekki séð neina bíómynd því ég horfði á Grease í gær, en hana hafði ég auðvitað margséð. Smásagnasafnið Óskilamunir eftir Evu Rún Snorradóttur er í sérstakri tóntegund sem ég tengdi meira við einhvern myndlistarmannahljóm en hinseginhljóm, þótt hann sé auðvitað þarna líka og liggi beinar við, og svo blandast þeir auðvitað í bestu kviðunum. Svona Sigurður Guðmundsson hittir Kristínu Ómars orka, sem er samt algerlega Evu. Sögusviðið er líka hinseginveruleikinn og myndlistarveruleikinn. Ég veit ekki hvort bókin varð betri eftir því sem á leið eða hvort ég var bara þreyttur að lesa fyrstu 40-50 síðurnar eða hvort ég þurfti að læra að lesa hana en hún allavega náði mér ekki alveg fyrst en náði mér samt á endanum. [Í þessari málsgrein er ekki beinlínis höskuldur – en næstum því]. Sápufuglinn eftir Maríu Elísabetu er safn þriggja sagna – tvær stuttar og ein löng. Ég sá einhvern skrifa að sú langa væri langbest og það stendur heima. Gerist einmitt í hinseginveruleikanum líka og minnti mig að mörgu leyti á Ali Smith, ekki síst í því hvernig hún endar eiginlega án þess að enda – hættir bara – sem er að mörgu leyti frískandi en líka auðvitað svik. Það er eiginlega stillt upp fyrir plott og lausn á plotti og svo lýkur sögunni bara án þess að maður neitt slíkt fix. Mér finnst það ganga upp hérna, en það truflar mig samt oft, t.d. í hinni (annars) frábæru There But For The eftir Ali Smith. Ef ég fæ það á tilfinninguna að höfundurinn hafi ekki þorað eða nennt eða getað neglt henni í mark er þetta auðvitað óþolandi. En að sama skapi eru snyrtilegir endar auðvitað popúlískur viðbjóður. Það var Snæbjörn Kaktus sem sagði þetta um sögurnar, hann er byrjaður aftur að blogga . Eða halda dagbók. Svo las ég tvær fyrstu bækur Eiríks heitins Guðmundssonar –  39 þrep til glötunar og Undir himninum . Þetta eru systurbækur. Sú fyrri samanstendur að miklu leyti af pistlum Eiríks sem höfðu áður verið fluttir í útvarp en fær bréfaskáldsöguramma – hann er að senda einhverri konu þessa skáldlegu og samfélagsgagnrýnu þanka sína. Í seinni bókinni hefur (hálf)skáldaði ramminn tekið yfir – höfundurinn, E., er ofsóttur af konum út um allan bæ sem halda að 39 þrep til glötunar hafi verið bréf til sín en fer svo sem líka um víðan völl: E. heldur við giftar konur, missir póstkort út um glugga, byrjar að þýða bók en skáldskapurinn tekur af honum öll völd og guð veit ekki hvað. Þegar ég las þessar bækur fyrst var Eiríkur tíu árum eldri en ég en þegar ég les þær núna er hann nærri tíu árum yngri en ég og eðli málsins samkvæmt staldra ég við æskulætin. Það er harmarómantík í Eiríki þarna en hún er blönduð svo miklum lífsþrótti. Hann læst steypa sér í glötun en sprettur svo alltaf upp aftur einsog kassatrúður. Það er erfitt til þess að hugsa – og undarlegt, eiginlega – að glötunin skuli svo bara hafa gleypt hann. Ég velti svolítið fyrir mér, við lestur vikunnar, hvað það þýði að skrifa svona intensífar fyrstu persónu bækur – sem þurfa reyndar ekki að vera í málfræðilegri fyrstu persónu, ég á við að sjónarhornið liggi mjög sterkt hjá aðalsöguhetjunni, og hún fari ekki vítt og breitt heldur haldi sig við til þess að gera lokað sögusvið, þar sem sömu lögmál gilda og hún heldur persónuleika sínum, verður hvorki önnur né fellur inn í einhverja heild. (Þetta eru áreiðanlega einfaldanir í hverju gefnu tilviki en tilhneigingin er þarna, held ég). Þetta eru ekki sögupersónur sem ferðast um heiminn og lýsa ólíkum afkimum, bækurnar ekki píkareskur , og þetta eru heldur ekki sögupersónur sem eru notaðar til þess að lýsa einhverjum mjög litríkum vini (svona On the Road dæmi). Þær geta auðvitað gert eitthvað þvílíkt í-og-með en meginfókusinn er á lýsingarkrafti og innra lífi aðalsöguhetjunnar – Eiríkur nefnir Bréf til Láru (og tekur fram að hann, eða E., hafi aldrei verið hrifinn af þeirri bók, þótt hún hafi verið honum innblástur) og það er áreiðanlega eitthvað þórbergskt þarna, kannski sérstaklega hjá Eiríki og Evu, þar sem söguhetjan minnir meira á höfundinn en ég held að sé raunin hjá Maríu í Sápufuglinum . Það er líka áhugavert hvernig rannsókn á egói, eða hvað maður á að kalla þetta, er alltaf líka rannsókn á skáldskapnum eða listinni – einsog að þegar maður þræði útjaðar persónuleikans standi maður alltaf líka á útjaðri skáldskaparins, línunni sem skilur að sjálfið og listina/lygina.