createdTimestamp““:““2024-05-24T06:46:14.201Z““

Í allan vetur hef ég verið að segja að allt sé um það bil við hið sama. Svíum gengur alveg jafn vel að eiga við farsóttina nú og þeim gekk í ágúst í fyrra, þegar við komum. Það er mikið álag á heilbrigðiskerfinu en bólusetningarnar eru eitthvað að hjálpa til. Annars ber nú kannski mest á svívirðilega mikilli þreytu gagnvart viðfangsefninu – svona prívat og persónulega. Ekki flensunni sem slíkri heldur umræðunni um hana. Sem er ekki alltaf sérstaklega málefnaleg (a.m.k. ekki þegar ýtt er á viðkvæma punkta, einsog er samt mikilvægt). Í menningarfréttum er það annars helst að menningarritstjóri Västerbotten-Kuriren, Sara Meidell, hefur hafið á loft stríðsöxina gegn „kúk“ í barnabókum. Það er langtum skemmtilegra umfjöllunarefni. Nýlega hafa komið út bækur með titla á borð við „Allir kúka“, „Ofur-Kalli og kúkasprengingin“, „Kúkaveislan“, „Þegar Doris ætlaði að kúka“ og „Hæ, lortur“. Sara segir að þetta sé niðurlægjandi fyrir börnin, sem séu flóknari manneskjur en þetta, og ekki ætlað til annars en að vinna sér inn ódýrar vinsældir. Þá bætir hún við að kannski sé kúkurinn sem slíkur ekki stærsta vandamálið heldur að hann skuli koma í staðinn fyrir bókmenntalegt gildi – þannig séu til góðar bækur um kúk. Þar nefnir hún meðal annars bókina Moldvarpan sem vildi vita hver skeit á höfuðið á henni – sem er í sjálfu sér áhugavert dæmi. Upprunalegi titillinn er: “Um litlu moldvörpuna sem vildi vita hver hefði gert það á hausinn á henni.” Sú bók heitir á sænsku „Det var det fräckaste“ – eða „Heyrðu nú mig góði“ eða eitthvað svoleiðis. Við áttum hana á báðum málunum og það vakti athygli mína á sínum tíma, fyrir hartnær tíu árum, að titlarnir væru svona ólíkir svo ég skoðaði þýska orginalinn og bar saman við sænsku og íslensku útgáfuna. Niðurstaðan var sú að í íslensku þýðingunni hefði verið valin „grófari“ leiðin alltaf þegar tvær voru í boði – við gætum líka kallað hana „litríkari“ leiðina, það er Þórarinn Eldjárn sem þýðir með sínu margrómaða nefi – en í sænskunni hefði frekar verið dregið úr. Ef ég man rétt var nú íslenska líkari þýskunni en sú sænska. Ég tók þessu þannig að Svíar væru viðkvæmir fyrir kúkatalinu og sennilega var það rétt. Hins vegar varð þessi bók mjög vinsæl í Svíþjóð einsog annars staðar og kannski brustu flóðgáttirnar einfaldlega – og Svíar komust á hið alræmda „þermistig“ sem er lýst svo í kennsluglósum sem ég fann á quizlet: Annað stigið af þroskastigunum fimm eftir Freud. 2-4 ára. Örvunarsvæðið færist niður í þarmana. Ánægja barnsins felst nú í því að halda inni hægðum eða losa sig við þær, jafnvel rannsaka. Viðbrögð foreldra skipta miklu máli. Í samhengi bókmenntana eru menningarritstjórarnir sennilega foreldrarnir en höfundarnir og foreldrarnir börnin (börnin sem lesa bækurnar eru hugsanlega einhver Hinn, eitthvert guðlegt afl, hvers vegir eru órannsakanlegir). Ég er ekki freudisti og hef litla sálfræði lært síðan í menntaskóla en ég gæti samt best trúað að viðbrögð Söru séu röng og til þess ætluð að innræta skrifandi höfundum og lesandi foreldrum skömm og hindra þau frá því að komast upp á næsta stig, hið svonefnda völsastig, þegar „orkan færist yfir á kynfærin sjálf“. *** Ég þarf núna að drífa mig í stúdíó að taka upp hljóðbók og aftur mætir blúshluti þessa bloggs afgangi (ég minni samt á lagið sem ég söng hér á dögunum ). Ég skal taka mig á og skrifa fljótlega um einhverja heila plötu. En í millitíðinni er hér Screamin’ Jay Hawkins með Constipation Blues – hægðatregðublús. Hafi nokkur efast um þau listrænu heilindi sem fólki er unnt að sýna á þermistiginu þá ættu þær efasemdir að vera foknar út í veður og vind, strax að lokinni hlustun.

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *