Stundum velti ég því fyrir mér hvort ég ætti ekki að reyna að hafa færri orð um hlutina. Orð eru dýr og það allt saman og svo eru þau líka tímafrek. En þegar ég er byrjaður að tjá mig er oft stutt í að röflmótorinn fari á fullt. Það væri enn tímafrekara að byrja að editera þetta allt saman í leit að einhverjum aðalatriðum. Oft er ég líka svo nýbúinn að lesa/horfa að ég veit ekki almennilega hver kjarni þess sem mér finnst er – þetta er meira ferðalagið en áfangastaðurinn. *** Við börnin kláruðum Kysstu stjörnurnar eftir danska höfundinn Bjarne Reuter. Ég veit ekki hvort það er tilviljun en mér finnst svo mikið af dönskum barnabókmenntum enda í einhverri svolítið heimóttarlegri fantasíu um miðausturlönd. Í búðinni hans Mústafa er eitt dæmi, Hodja og töfrateppið annað og í Kysstu stjörnurnar eru börnin í grunnskólanum að setja upp ævintýri úr Þúsundogeinni nótt – svartmáluð í framan, að sjálfsögðu. Bókin er frá 1984 – ég kom fram í blackface sjálfur ekki mikið seinna þegar árgangurinn gerði sérsýningu um Tansaníu á árshátíðinni. Ég myndi ekki segja að þetta geri bækurnar slæmar – þetta eru allt góðar bækur, það er að vísu langt síðan að ég las Hodja en ég hélt mikið upp á hana sem barn. Heimur barna er líka heimur furðu og fordóma – börn eru kannski ekki með fyrirframgefnar hugmyndir um það sem er framandi, því svo margt er þeim framandi, en þau eru rosalega fljótt að draga alls kyns ályktanir og fella hrikalega sleggjudóma. Þess vegna hafa fullorðnir svona miklar áhyggjur af því hvað þau lesa og horfa á. Sýnin á konur er líka mjög „dönsk“ í Kysstu stjörnurnar – svo ég viðri svolitla fordóma um danska menningu. Þær eru annað hvort skyldar manni eða rómantísk viðföng – og alveg sama hvort þær eru grunnskólastelpur, guðdómlega stelpan á kassanum í búðinni, eða skuggalega bardaman sem segist vera kærastan manns og gefur manni svona kveikjara með mynd af konu á sundbol sem afklæðist þegar maður snýr honum á hvolf. Allt er þetta í sjálfu sér líka mjög í takt við sögutíma bókarinnar. Buster – aðalsöguhetja bókarinnar – er mjög skemmtilegur annars. Uppátækjasamur og með ríkt ímyndunarafl og skemmtilegustu senurnar eru þegar hann er bara að delera eitthvað. *** Dark Places er skáldsaga eftir Gillian Flynn, sem er frægust fyrir Gone Girl. Ég held ég hafi lesið Gone Girl en ég er ekki alveg viss og þegar ég lagði Dark Places frá mér – og meðan ég var að lesa hana – fannst mér hún ofsalega spennandi og skemmtileg. Ég gæti samt best trúað að ef þið spyrðuð mig eftir nokkra mánuði hvort ég hefði lesið hana væri ég ekki alveg viss. Hún fjallar um white trash konu sem varð fyrir því sem barn að fjölskyldan hennar var öll myrt. Hún hefur alltaf haldið að bróðir hennar hafi gert það og hann er í fangelsi fyrir það – en svo kemur í ljós að því trúir eiginlega enginn lengur og hún fer eitthvað að grafast fyrir um þetta allt saman. Þú trúir því aldrei hvað gerist næst. *** Persuasion eftir Jane Austen. Fyrir nokkrum árum las ég Sense and sensibility og lýsti því þannig að það væri einsog að detta í slúðurtunnu – og bætti við að þetta hefði verið mikill yndislestur . Ég get því miður ekki sagt það sama um Persuasion. Ég hafði stundum húmor fyrir henni en yfirleitt ekki og ég var næstum búinn að leggja hana frá mér ókláraða – ef þetta væri ekki Jane Austen og þar með einhvers konar skyldulestur þá hefði ég hugsanlega hent henni fram af svölunum í verstu gremjuköstunum. Þetta fólk gerir ekkert nema hafa áhyggjur af því hver getur gifst hverjum og hver sé dyggðugur. Það er líka einsog það sé enginn til í heiminum nema þetta aðalsfólk, enginn annar harmur en að giftast kannski ekki nógu vel. Bíómyndin Clueless var byggð á Emmu og þótti mörgum vel til fundið að færa hana í bandarískan menntaskóla hinna ofurríku því dramað væri eiginlega ekki fullorðinsdrama í dag. Mér liggur við að segja að þetta fólk hafi ekki nægan tilfinningaþroska til að vera í menntaskóla. Ég man eftir svona stemningu þegar ég var tíu ára og allir voru að hvísla hver í annan hverjir væri skotnir og svo framvegis. Þegar veröldin snerist í nokkur misseri ekki um annað en að finna sanna ást. Auðvitað er bókin vel skrifuð og það besta við hana eru setningarnar og sum samtölin – hún er góð bút fyrir bút en sem heild er þetta bara eitthvað efri-millistéttarvæl. *** Kvikmyndaklúbbur barnanna horfði á Paranorman. Hún fjallar um strák sem heitir Norman og sér drauga og öllum finnst hann skrítinn. Yfir bænum hans hefur hvílt bölvun í mörg hundruð ár eða allt frá því bæjarbúar brenndu þar norn. Nornin hvílir á meðan einhver les fyrir hana kvöldsögu einu sinni á ári en annars vaknar hún og reynir að hefna sín. Auðvitað deyr kvöldsögulesarinn og eftirlætur Norman að taka þetta að sér en það klúðrast út af nokkrum eineltisseggjum. Á endanum kemur svo í ljós að nornin var bara góð lítil stelpa sem sá drauga einsog Norman og var brennd af því fólk skilur aldrei það sem rýfur ramma hugmynda þeirra um veruleikann. Fín. Ekkert meira eða minna. Stop-motionið er oft skemmtilegt og fallegt – aðeins öðruvísi lúkk á henni en mörgum af þessum barnamyndum. *** Kvikmyndaklúbbur fullorðna fólksins horfði á Persona eftir Ingmar Bergman. Að hluta til fannst mér hún frábær og að hluta til fannst mér hún vera samansuða af ódýru existensíalísku bulli og kynferðisfantasíum. Hún fjallar um leikkonu sem verður fyrir áfalli og hættir að tala. Hún fær hjúkrunarkonu til að hugsa um sig. Sú er að jafnaði feimin og inn í sig en opnar sig við leikkonuna og talar viðstöðulítið um lífið og tilveruna. Fyrir rest er farið að gefa sterklega í skyn – mjög sterklega, án þess að það sé fullyrt – að konurnar séu ein og sú sama og kannski sé hjúkrunarkonan bara innri mónólógur hinnar eða hún klofin persónuleiki. Myndmálið, kvikmyndatakan, klippingarnar, leikurinn, lýsingin, senógrafían – allt er þetta í einu orði sagt geggjað. Ógeðslega flott. Handritið er aldrei leiðinlegt, aldrei óáhugavert, en ég er heldur ekki viss um að það sé neitt æðislega mikið vit í því. Heimspekin virkaði stundum dálítið svona Coelho-ísk á mig – existensíalismi sem maður gæti sett á ísskápasegla. Mér fannst samband kvennanna best þegar það fer að minna á svona kulturman-samband sem maður getur ímyndað sér að Bergman hafi sjálfur átt í við alls konar konur – og ég þykist hafa lesið eitthvað um, án þess að ég muni það svo glöggt. Þannig verður hjúkrunarkonan æðislega sár leikkonunni þegar hún uppgötvar að leikkonan hefur skrifað lækninum sínum um hana og orgíu sem hún hafði farið í á strönd með ókunnugum mönnum og vinkonu sinni – meðan unnustinn beið grunlaus heima – sem og fóstureyðinguna sem hún fór í í kjölfarið. Þegar hjúkrunarkonan les leikkonunni pistilinn segir hún að hún hafi alltaf haldið að listin væri sprottin af einhverju fallegu og að listamenn væru göfugar verur, gæddar meiri meðlíðan en annað fólk, en að leikkonan hafi nú sýnt henni að svo sé ekki – listamenn séu grimmir og ljótir og beri enga virðingu fyrir mörkum annarra. Þetta má auðvitað heimfæra á höfundinn sem notar ástkonu sína (eða ástmann) sem efnivið í listaverk. Listamaðurinn hefur ekki bara meðlíðan honum ber líka skylda til að miðla mennskunni sem hann upplifir. Og í því felst brot hans – hann er ekki heill gagnvart heiminum nema hann svíki heiminn. Hvað sem göllunum líður eru bíómyndir af þessu tagi vogaðar og sem slíkar miklu skemmtilegri og áhugaverðari en næstum allt annað sem maður sér. *** Gítarleikari vikunnar spilar á banjó. Hann spilar reyndar líka á gítar en hér spilar hann á banjó.