Spurningarnar glumdu í höfði Fjólu. Hvað í ósköpunum gátu þau verið að meina? Ekki til? Hver hafði þá gefið henni í skóinn? Hver myndi gefa henni í skóinn framvegis? Hvað hafði orðið af þeim? Hver haltraði eftir trégólfum ef ekki Stekkjarstaur? Hver skellti hurðum ef ekki Hurðaskellir? Hver sleikti úr öskum ef ekki Askasleikir? Jólin nálgast og Fjóla hlakkar til. Stekkjarstaur kemur til byggða eftir tvo daga. En þá færa foreldrar hennar þær fáránlegu fréttir að jólasveinarnir séu ekki til. Fjóla sér strax að það gengur ekki upp og hefst handa við að bjarga málunum. Þá kemur óvænt að góðum notum að stóri bróðir hennar hefur stjórnlausan áhuga á varúlfum, fjörulöllum og öðrum ófrenjum – og veit allt sem hægt er að vita um skrímsli Frankensteins. Frankensleikir er sprenghlægileg jólasaga eftir verðlaunahöfund sem kemur sífellt á óvart. Sagan er ríkulega myndlýst af Elíasi Rúna.