Hin útvöldu

Annie Ernaux er ekki minn tasse de thé . Að minnsta kosti ekki þessi eina bók sem hefur komið út á íslensku. Mér sýnist reyndar á lýsingum að aðrar bækur hennar – t.d. Skömmin og Árin – séu mun áhugaverðari en Staðurinn . Það er eitthvað við þessar bækur um stéttaflutninga – höfunda sem alast upp í verkamannastétt en færast upp í menntamannastétt og skrifa um það – sem slær mig alltaf sem svolítið patróníserandi. Einsog fólki sé svo mikið í mun að sýna fram á að nú sé það í „réttri“ stétt – þau hafi fengið að blómstra og verða sín raunverulegu sjálf, fulfill their potential, einsog það heitir hjá amerískum markþjálfum – en foreldrar þeirra og forfeður hafi verið hálfgerðir aumingjar. Þetta eru oft í og með sögur um útvalda – svona fólk sem fæðist í koti en kemur í ljós að er með blátt blóð og neyðist þar með til að fara út í heim að vinna stórvirki og vorkenna öllum sem það „skildi eftir“. Ég hrökk upp í nótt rétt fyrir 02.00 við að einhver bankaði á útidyrnar. Hvers vegna er það svona óþægilegt að einhver banki um miðja nótt? Ég fór ekki til dyra. Lá bara í rúminu og hlustaði eftir hljóðum en heyrði engin. Fannst einsog þetta hlyti að vera innbrotsþjófur eða ofbeldismaður. Sennilega les maður of mikið af fréttum – eðli málsins samkvæmt fjalla þær aldrei um neitt gott. Í Svíþjóð eru allir morðingjar í gengi en á Íslandi eru allir kynferðisofbeldismenn. Annars staðar eru ýmist stríð eða náttúruhamfarir. Eftir 5-10 mínútur fór ég á kreik. Það var veðurblíða og engin hljóð, sem er sjaldgæft, yfirleitt brakar í húsinu undan minnsta vindi. Líklega hefur mig dreymt bankið en ég man þá ekkert í hvaða samhengi það var. Ég gat samt ekki sofnað aftur. Teygði mig í bók og las seinni hlutann af annarri stuttri skáldsögu –  Ránið á Húnboga Höskuldssyni, alþingismanni , eftir Ófeig Drengsson. Ég hafði aldrei heyrt af henni – kom út 2016. Hún byrjar á svona fororði um að öll líkindi við raunverulegar persónur sé tilviljun og svo heita aðalsöguhetjurnar allar eitthvað í ætt við „Valli í Járnkörlunum“ (sem var í hljómsveitinni Járnkarlarnir) og „Björn Grétar Jakobsson, blaðamaður“ og þær þekkjast allar af barnum „Bjórstofunni“. Að vísu er plottið nógu ósennilegt. Hópur vina er á leiðinni til Suðureyrar til að veiða sel og silung. Einn þeirra er með flugvallarmálið á heilanum. Og þegar þeir rekast á framsóknarþingmann og flugvallarvin, sem ráfar fullur út úr ráðherrabústaðnum, ræna þeir honum og keyra með hann vestur í því augnamiði að fá hann til að senda út fréttatilkynningu um að hann hafi skipt um skoðun – flugvöllurinn verði að fara. Ég þekki reyndar mann – eða þekkti, hann er látinn – sem flutti vestur eftir að hafa dottið í það í Reykjavík og rankað við sér á Suðureyri, án þess að vita neitt hvar hann var í veröldinni. Svo þetta er ekki alveg fordæmalaust. Sá var að vísu ekki þingmaður. En hann var ekki heldur neinn lassaróni. Ófeigur Drengsson er annars eitthvert höfundarnafn – viðkomandi finnst hvergi nema sem nafn utan á þessari bók og einni annarri. Þegar ég var búinn með bókina tók ég svefntöflu og var fljótt sofnaður aftur.

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *