Fjölskyldan er kominn til den kungliga hufvudstaden – Stokkhólms – til að fagna nýja árinu. Í Svíþjóð – einsog svo víða – heitir gamlársdagur ekki gamlársdagur heldur „nýárskvöld“. Einsog aðfangadagur heitir „jólakvöld“. Þótt ég hafi áratugareynslu af þessari málhefð venst hún illa. Þegar fólk segir við mig að eitthvað eigi að gerast „på nyårsafton“ – ellegar „on new year’s eve“ – hugsa ég alltaf um kvöldið fyrsta janúar. Og mæti degi of seint. Stokkhólmur er merkilega svæðisskipt borg. Miðborgin er í höndum aðskilnaðarstefnu hins hvíta kynstofns – þar gengur fólk um með angórutrefla og sojalatte og er einhvern veginn hvítt á hörund meira að segja þegar það er ekki hvítt á hörund. Nema auðvitað afgreiðslufólk í Pressbyrån og sumum veitingastöðum og þau sem þrífa hótelin. Úthverfin hafa svo hvert sinn blæ. Við erum með íbúð að láni í Skarpnäck. Ef þungarokksfjölskyldufólkið safnast saman í Rejmyre þá er það anarkista-fjölmenningar-fjölskyldufólkið sem endar hér – sem og í næsta hverfi, Bagarmossen. Þeir sem hafa gefist upp á mólotovkokteilum, kommúnum og opnum samböndum – en halda í litteratúrinn, mótmælin, fagurfræðina og málfundina. Ég hef einu sinni komið hér áður og var þá bara handan við hornið í Skarpnäck Kulturhus sem gestur á Anarkistiska Bokmässan – sem virðist hafa lagt upp laupana reyndar. Þangað var mér boðið eftir að hafa tekið þátt í Anarchist Book Fair í Frankfurt og sá fyrir mér gríðarlegan feril í því að flakka á milli bókamessa stjórnleysingja en svo náði þetta ekkert lengra. Ég er hugsanlega ekki nógu félagslyndur fyrir anarkistana – minnir að ég hafi verið svolítið hornreka á þessari hérna í Skarpnäck, nema rétt á meðan ég var á sviðinu. En þetta er vinalegt hverfi. Mikið af auglýsingum um jóganámskeið og málfundi á ljósastaurunum. Fjölmenningarjólatónleikar. Hinsegin föndurstund. Einhvern tíma hefði ég fundið mjög sterkt til þess að ég heyrði til á svona stað – þegar ég kom til Norrebrø í fyrsta skipti (1996 sennilega) og gekk á milli bókabúða sósíalista var ég beinlínis ölvaður. Í dag er því kannski öðruvísi farið. Í grunninn eru róttæklingar og fólk sem lifir „alternatífum lífsstíl“ mitt fólk en ég hef líka kynnst of mörgu þannig fólki sem gengur bara um með sína eigin fordóma og fylgir sínum eigin fyrirframskrifuðu forritum til þess að trúa jafn sterkt á róttækni þeirra eða alternatífa lífsstíl og ég gerði. Í einhverjum skilningi er tilfinningin kannski einsog gömul ástarsorg – það leiftrar til í hjartanu en ég verð líka leiður. Og ekki vegna þess að ég sé ekki sammála öllum málstöðunum, vel að merkja – heldur ýmist þess hversu oft hugsjónirnar rista grunnt og hvað þeim fylgir oft einhver önnur óværa. T.d. fyrirlitning – eða enn verra, meðaumkun – gagnvart einhverjum lægri millistéttarlífsstíl, „plebbunum“. Þessi hugmynd um að fyrst viðkomandi róttæklingur sé uppvaknaður séu allir aðrir sofandi maurar sem skilji ekki einu sinni eigin heimsku, hafi aldrei reynt að hugsa sjálfstætt og svo framvegis. Svo verður kappið oft nóg til þess að réttlæta alls konar afslætti á prinsippum – tilgangurinn helgar oft óljúf meðöl og óyndisleg. Skarpnäck þótti annars frekar öruggur staður samkvæmt könnun frá árinu 2018. Þá upplifðu 3% íbúa sig óörugga, sem er bæði lægra en annars staðar og hafði þá lækkað milli kannana – 2009 þótti hverfið með óöruggari hverfum í Stokkhólmi. Ein ástæðan sem var gefin upp þá var að eitthvað af þeim ungu karlmönnum sem þóttu líklegir til þess að hafa annars lent í gengjum höfðu þess í stað fengið pláss í slökkviliðinu – sem gegnir líka einhvers konar hlutverki hverfisumsjónarmanna, områdesvärdar. Slíkir fylgjast með nánast hverju sem misfarist getur farið í hverfinu – frá ónýtum ljósaperum og upp úr. Síðan hefur aftur hallað undan fæti og bara í ár hafa verið fjórar skotárásir í hverfinu, þar af tvær sem kostuðu mannslíf. Í öllu Stokkhólmsléni hafa 27 manns látist í skotárásum í ár – og byssuofbeldi í landinu öllu hefur aukist mikið á síðustu árum í kjölfar upplausnar á eiturlyfjamarkaði eftir miklar handtökur. Ofbeldið í Stokkhólmi eða öðrum stórborgum í landinu er samt ekki aðalvaldurinn að þessari aukningu, því þar hefur það lengi verið mikið, heldur hefur skotárásum í minni bæjum – svo sem Eskilstuna – farið upp úr öllu valdi. Annars virkar Svíþjóð alltaf á mann sem voða pen. Og ekki væsir um okkur hér í Skarpnäck né heldur upplifum við mikla ógn. Nadja er í miðborgarferð með vinkvári sínu, Lehmus, og við Aram og Aino ætlum að skila syni háns á námskeið upp úr tvö og halda sjálf í okkar eigin bæjarleiðangur. Hér verður mest dundað sér og dólað þar til flugeldarnir sprengja gamla árið í ræmur á nýárskvöld. Sem er sem sagt haldið á gamlárskvöld.