Í gærkvöldi kenndi ég dóttur minni orðið „spaðmolla“ og í dag komst ég svo að því að það er ekki til í orðabók – frekar en reyndar trukkanaglinn bróðir þess, „kjötsvimi“. Einsog dyggir lesendur muna var ég eitthvað að efast um íslenskuhæfileika mína í gær en sá efi er nú alveg horfinn, enda orðaforði minn augljóslega orðinn stærri en orðaforði sjálfrar orðabókarinnar. Í sveitasetri tengdafjölskyldu minnar í Rejmyre eru allir húsgestir illa haldnir af spaðmollu. Hér mætast margar missamræmanlegar jólahefðir ólíkra fjölskyldna og þjóða á hinu alskandinavíska „julbord“. Ég kom með tvö kiló af hangikjöti, sauð tvö kíló af kartöflum og hrærði uppstúf úr hálfu smjörstykki með þessu. Þá var af íslensku líka 30 laufabrauð, slatti af flatkökum, nóg af jólaöli í appelsíni og sænsku julmust (apotekarnas) auk Jóla-Skarfs, Jóla-Dranga og Hátíðarpúka. Þetta eru allt bjórar frá Dokkunni á Ísafirði, þar sem Valur bróðir minn og Hákon æskuvinur hans véla með humla og bygg. Svo voru þrjár tegundir af finnsku lanttulaatikko , sænsk jólaskinka, svínaskammrif, fjórar tegundir af síld, þrjár tegundir af prinskorv (smápylsum – svína-, kalkúna- og grænmetis-), tvær tegundir af kjötbollum (með og án kjöts), ofnbakaður lax, rauðkál, Janssons frestelse , rauðbeðusalat, soðnar kartöflur, grafinn lax með hofmeistarasósu og heimalagað hrökkbrauð. Í forrétt var vel útilátinn rækjukokteill – ég át tvo, af því yngsti matargesturinn fúlsaði við sínum – og í eftirrétt ostakaka. En þegar að honum kom var spaðmollan orðin svo rík með jólabörnunum að kakan var aldrei einu sinni borin fram og er enn ósnert. Ég fékk tvær bækur. Fyrst má nefna Båten eftir víetnamska höfundinn Nam Le. Ég byrja alltaf á kíkja aftan á víetnamskar bækur til kanna hvar höfundarnir ólust upp – því ef frá eru talin fáein ljóðskáld og Duong Thu Huong er það er nær aldrei Víetnam. Nam Le er alinn upp í Ástralíu og bókina fékk ég sem sagt í sænskri þýðingu. Bátafólksbókmenntir eru nánast sérbókmenntagrein og vandmeðfarin – enda samband þessara expata við fósturjörð sína og þjóðmenningu flókið. Sennilega var það Duong Thu Huong sem sagði það í einhverju viðtali – og var að tala um sjónarhorn vesturlandabúa á Víetnam frekar en þetta – að heimurinn ætti til að gleyma því að Víetnam væri land en ekki styrjöld. Og þá ber að hafa í huga að hún barðist í þessari styrjöld og neyddist svo síðar til þess að flýja land vegna skoðana sinna – og ekki vegna þess að hún sé „hægrisinnaðri“ en valdstjórnin í Hanoi. En í expatabókmenntunum vill líka bregða við að Víetnam byrji og endi í þessari styrjöld og fátt annað en það og beinar afleiðingar þess komist að. Auðvitað snertir stríðið flest svið mannlífsins, enn í dag, en það er líka mikið klæmst á þessu. Annars sakna ég Víetnam alltaf mjög mikið. Við bjuggum þarna veturlangt fyrir sjö árum og það átti mjög vel við mig. Hin bókin sem ég fékk var Aðgát og örlyndi eftir Jane Austen í þýðingu góðvinkonu minnar og bandamanns Silju Aðalsteinsdóttur. Hana fékk ég frá Forlaginu – en hina frá Nödju. Ég hef lesið hana á ensku, einsog megnið af Austen, og skrifaði meira að segja pistil í Klassekampen einu sinni um þann skandal að hún – og Orlando – skyldu ekki vera til á íslensku. Síðan hafa þær báðar komið út. Ég fékk líka trefil og gjafakort í Sky Lagoon og tónlistarkviss og Mule Variations á vínyl og eitt og annað fleira. Þær gjafir sem ég gaf sem hittu best í mark voru kraftmikið ennisljós sem ég gaf Nödju – til þess að skíða með í skammdeginu – og bréfsefni sem ég keypti í Gömlu bókabúðinni á Flateyri; bakpoki sem Aram fékk og bolir og buxur sem Aino fékk. Og gjafakort í Flyover Iceland, sem hún hefur farið í einu sinni áður og fannst æði – ég fæ að fara með henni í þetta skiptið.