Það snjóaði ekki beinlínis í Rejmyre í nótt en það frysti og nú er allt hvítt en ekki beinlínis snævi þakið. Það er jólalegt, passlega kalt og fallegt lognveður. Ég rölti í búðina eftir nokkrum sítrónum og heilsaði fólki á gangi. Rejmyre er frekar strjálbýll 900 manna bær við hliðarveg úti í rassgati milli Norrköping og Finspång. Hér er matvöruverslun, gamaldags glerverksmiðja og pizzeria og eiginlega ekki margt annað. Á sumrin er þungarokkshátíð hérna, Skogsröjet, og margir íbúanna búa hér hennar vegna – þungarokksfjölskyldufólk milli þrítugs og fimmtugs. Það kemur strætó nokkrum sinnum á dag sex daga í viku. Ef maður ætlar í burtu á sunnudegi þarf maður að ganga 17 kílómetra leið til Vistinge sem er við hraðbrautina milli Norrköping og Finspång. Það hef ég einu sinni gert – og til baka í kolniðamyrkri – og það er meiri áreynsla en maður gæti ímyndað sér að óreyndu. Svíar heilsa manni með „hej hej!“ – þetta er glaðleg kveðja, létt og hátóna, og einhvern veginn undarlegt að heilsa svona fólki sem maður þekkir ekki neitt. Það er næstum einsog kveðjunni eigi að fylgja samræða – að maður spyrji hvernig börnin hafi það og hvað fólk ætli að hafa í jólamatinn, skiptist á gjöfum og knúsist svo að skilnaði. Að vísu er undantekning að manni sé heilsað. Flestir ganga bara framhjá manni og horfa niður fyrir sig – manni finnst næstum einsog þeir séu að passa sig að lenda ekki í þessu hræðilega „hej hej!“ Að því leyti er Svíþjóð pólaríserað samfélag. Á Íslandi – eða í það minnsta á Ísafirði – heilsast fólk með því að segja „góðan daginn“. Og flestir heilsast – ég myndi segja svona 70%, en færri á fjölförnum götum eða verslunum. Þeim mun fleiri sem eru á ferli, því ólíklegra er að það sé heilsað. Sumir segja ekki „góðan daginn“ heldur „góðan dag“. Og ef maður þekkir viðkomandi, t.d. ef það er gamall vinnufélagi eða þannig, þá hendir maður í eitt „blessaður“ eða jafnvel „nei hæ“ – sem er skyldast „hej hej“. En það notar maður alls ekki á ókunnuga. Af og til kinkar maður bara kolli. Og stundum lítur maður niður fyrir sig og forðast allar kveðjur. „Góðan daginn“ er þung kveðja, það er í henni ákveðin alvara og festa, og hún er léttúðarlaus þótt í henni sé væntumþykja. Með henni gerir maður sér ekki upp vinskap heldur gengst við samfélagi – við erum saman í samfélagi, við þessir gangandi vegfarendur á lífsins götum, þótt við þekkjumst ekki. Á milli okkar liggja sterkir þræðir og við óskum hvert öðru hins besta. „Góðan dag“ segja svo þeir sem eru betur upp aldir. Þeir sem eru af borgaralegum heimilum. Það er réttara, er mér sagt, en ég segi samt alltaf „góðan daginn“ og man svo að maður á eiginlega að segja „góðan dag“ og svo hugsa ég stundum: ætli fólk haldi að ég, skáldið, kunni ekki að tala? Þvínæst hugsa ég um miðann sem Sigurður Pálsson skrifaði til foreldra minna fyrir hönd afa míns í brúðkaupsferð þeirra – hann var þá fararstjóri og miðinn fylgdi kampavínsflösku. „Þetta er frá faðir Herdísar“. Ef stórskáldin þurfa ekki að beygja rétt þá hlýt ég að mega segja „góðan daginn“ án þess að vekja með fólki hrylling. Annars er þetta jólakveðja. Sænsk-íslensk. Ég vona sem sagt að þið, kæru lesendur nær og fjær, hafið það öll gott og fáið mikið af dóti í jólagjöf og mikið gott að borða og ekkert samviskubit yfir hedónismanum, eða lítið af dóti og mat og lítið af samviskubiti fyrir þá sem ráða ekkert við sig. Eða hvaðeina sem kemur ykkur til. Ég óska ykkur auk þess átakalausra jóla, lausra við nöldur og skandala og óþægilegrar spennu, og það gefi sér allir frí á fyrstu, annarri og þriðju vaktinni og hafi það umfram allt annað næs. Gleðileg jól!