Kæru lesendur, við erum stödd í hraðlest númer 537 til Kaupmannahafnar. Við ætlum ekki þangað. Við ætlum að fara úr á miðri leið. Og láta sækja okkur á lestarstöðina í Norrköping. Ég las Millibilsmann Hermanns Stefánssonar í flugvélinni. Tók með mér í jólafríið bækurnar sem ég var viss um að myndu höfða til mín frá höfundum sem ég treysti fram af bjargi – með jólakonfektið í annarri, skáldverkið í hinni og bókamerkið á milli tannanna einsog veiðihníf. Hermann brást ekki væntingum mínum – það er rokna gangur á honum síðustu árin og Millibilsmaðurinn er alvöru bók, með hans bestu, í flokki með Bjargræði og Algleymi. Jannes og Tindri eru í senn brjóstumkennanlegir og fagrir – Jannes í stöðugri baráttu við intellektið á meðan Tindri fylgir hjartanu af einlægni, sem maður getur ekki annað en trúað að sé fölskvalaus. Að minnsta kosti á köflum. Ég kom út úr bókinni í senn trúaðri og vantrúaðri, fyllri af furðu og raunsærri á veruleikann, jarðbundinn á ferð með himinskautum. Og smáflissandi kátur. Svo kemur líka skáldið Arnrún frá Felli, sem ég fékk dellu fyrir fyrr í ár , við sögu í bókinni í ansi kræsilegri kjaftasögu. Að vísu undir dulnefni. Ég veit ekki hvað ég á að vera að kjafta kjaftasögunni í fólk sem á eftir að lesa bókina en við sögu koma séra Haraldur Níelsson, tryggðasvik, hinsegin ástir og trúlofunarsvaðilför til New York. Og dularfull kona að nafni „fröken Jónasen kaupmaður“ sem mig langar mikið að vita hver var í raun. Næst á dagskrá er Tól Kristínar Eiríks. Ég byrjaði á henni á Sala Thai á Stockholm Central – sem er viðeigandi af því bókin hefst „nálægt miðborg Stokkhólms“. Svo er Svefngríman hans Örvars. Og Dáin heimsveldi eftir Steinar. Tugthús Hauks Más er líka í þessum flokki – bækur eftir höfunda sem ég treysti og tel til vina – en hana er ég búinn að lesa í tvígang. Auk hinna traustu er ég með eina bók eftir David Lodge, Changing Places, sem franskur vinur minn í Helsinki sendi mér rétt áður en ég fór, og sagði að ég yrði að lesa. Og tvær bókasafnsbækur – Brimhóla eftir Guðna Elísson og Sælureit agans eftir Fleur Jaggy. En þessar þrjár síðastnefndu eru utan hins fíltrausta jólaprógrams. David Lodge hef ég ekki lesið í hundrað ár og man varla hvað mér fannst um – Jaggy hef ég aldrei lesið og ég var mjög mishrifinn af fyrstu bók Guðna, Ljósgildrunni . Ég er þó bjartsýnni á Brimhóla . Bæði er hún styttri – stærsti galli Ljósgildrunnar var að hún stóð ekki undir eigin þunga, sumir hlutar voru mjög góðir, en aðrir hálfgert bull, og heildin hékk illa saman; og svo hefur Guðni sjálfur farið sér hægar í grobbnum yfirlýsingum um eigin snilligáfu í tengslum við kynningu bókarinnar. Og því fylgir henni minni bísmak .