Flæðisker

Ég er kominn til Keflavíkur. Hlustaði á Punkt, punkt, komma, strik á leiðinni – en hún er mjög stutt og kláraðist í Búðardal svo ég greip næst í það sem hendi var næst . Eðlilega. Það var næst . Og maður nennir ekki að vera stopp úti í vegakanti mjög lengi. Það sem er næst á streymisþjónustunum er einfaldlega það sem algóritminn ýtir næst manni og algóritminn hjá Storytel er með eigin framleiðslu á heilanum og benti mér á „hljóðbókina“ Skerið eftir Ragnar Egilsson og Áslaugu Torfadóttur. Storytel Original (upprunaleg frásögn). Í Skerinu er „farið með hljóðbókarformið á næsta stig og engu til sparað“ einsog segir í kynningu og hefur verið mér umhugsunarefni. Kannski er einfaldast að ég láti innihald sögunnar og gæði bara liggja milli hluta hérna (sérstaklega vegna þess að ég á enn síðasta þáttinn eftir) til þess að ræða formið í friði. Næsta stigs hljóðbókarformið er nefnilega furðulega líkt því sem var kallað „útvarpsleikrit“ hérna upp úr 1982. Eiginlega bara alveg eins. Það vantar bara að sögupersónurnar kalli hver aðra „lagsmaður“ og einhver sé „lautinant“ og konur séu ávarpaðar „fröken“. (Í Skerinu er það hundur sem er ávarpaður „fröken“). Sem er alltílagi, fínt form, þótt ég sakni lagsmannanna. Ég er svolítið hugsi yfir því hvað það er sem geri þetta að bók? Nú eru leikrit stundum gefin út á bók en þau verða bók við þann gjörning – fram að því eru þau handrit og performans. Hljóðbók er bók sem er lesin upp. Skerið er leikrit sem er lesið upp. Hjá hljóðbókastreymisþjónustu. Gerir það Skerið að bók? Ef það væri lesið upp á Rás 1 – myndi það gera það að leikriti? Hljóðbókarútgáfan af Frankensleiki – sem kemur fljótlega út hjá Forlaginu og einhvern tíma síðar hjá Storytel (kannski fyrir næstu jól?) – endar á laginu um Frankensleiki. Er þá lagið bók? Nú eru margar vinsælustu barnabækurnar tónlistarbækur með tökkum – maður ýtir á takka og fær lag. Eru lögin í þeim bókum ekki í einhverjum skilningi orðnar bókmenntir? Annað sem ég er hugsi yfir er þessi þörf til þess að kynna alla skapaða hluti sem nýjasta nýtt – hvers vegna kynnti Storytel Skerið ekki bara sem „ekta gamaldags útvarpsleikrit“? Er það ósöluvænlegt að kalla þetta leikrit? Og hvað finnst manni um það ef þetta er framtíð hljóðbókarformsins – myndi ég vilja að hljóðbókarútgáfan af mínum bókum væri leikgerð? Eða snýst þessi framtíð bara um áhrifshljóð? Vandamálið er kannski að sem útvarpsleikrit er Skerið að formi til gamaldags en sem hljóðbók er það formnýjung. Sem lag væri það framúrstefna og sem myndlistarverk væri það hreinlega bylting. * * * PS. Frankensleikir fékk annars annan glimrandi dóm í Mogganum í dag. Ekki lesið hann en honum fylgdu að sögn fjórar stjörnur.