Stofnun Eiríks Norðdahl

Síðasta kvöldið heima á þessu ári. Í fyrramálið verður vegurinn suður loksins ruddur alla leið og þá keyri ég til höfuðborgarinnar, versla örlítið, held svo áfram til Keflavíkur og sef þar aðra nótt og flýg til Stokkhólms morguninn eftir, tek lest til Norrköping, rútu til Vistinge og aðra rútu til Rejmyre, þar sem jólahátíðinni verður fagnað. Af því tilefni horfði ég í kvöld á hina klassísku Planes, Trains & Automobiles með Steve Martin og John Candy í aðalhlutverki. Það var hjartastyrkjandi. Við snúum svo aftur til landsins 2. janúar og förum sennilega heim degi síðar. Í fréttum má nefna að Frankensleikir fékk afar lofsamlegan dóm á Bókmenntavefnum Þar skrifar Kristín Lilja meðal annars eitt og annað um það fyrir hvaða markhóp bókin er – sem ég er alveg sammála, þetta er mjög skrítin bók þannig, en í sjálfu sér myndi ég segja að margar fullorðinsbókanna minna séu líka í einhverjum rifum á milli markhópa – segi sérstaka hluti sem séu ekki endilega alltaf fyrir alla. Hans Blær er ágætis dæmi um bók sem gat komið illa við ólíka aðila af mjög ólíkum ástæðum – en átti sér síðan nokkra drauma lesendur. Ég er alveg sáttur við að skrifa ekki fyrir alla – vil heldur skrifa sterkt fyrir fáa en bærilega fyrir fjöldann. (Samt vil ég auðvitað líka að allir elski mig!) Í öðrum fréttum þá hefur Hermann Stefánsson jólaskreytt lagið um Frankensleiki með bjöllum og orgeli og píanói og bakröddum og alls konar dásemdum. Þessa útgáfu má heyra á soundcloudinu mínu . Í þriðju fréttum þá lenti ég í viðtali um kúltúrbörn í Lestinni á Rás 1 í dag. Eiginlega í afleysingum fyrir Berglindi Ósk. Þetta er mikið afleysingahaust hjá mér – eini upplesturinn minn var afleysing fyrir Bergsvein Birgisson, hljómsveitin Gosi (sem ég er í) leysti af eitthvað covidveikt ball-band á árshátíð Ísafjarðarbæjar, svo leysti ég af bassakennarann hennar Ainoar í undirleik á tónlistarskólatónleikunum hennar og nú er ég farinn að svara fyrir bloggpósta annars fólks í útvarpinu. Í afleysingum. Við Auður Jónsdóttir tókumst á – og þetta var nú blóðheitara en ég hafði reiknað með. Sem er alltílagi, eiginlega bara ágætt – það er alltof mikið um átakakvíða í þessu samfélagi. Ég átta mig annars ekki alveg á því hver afstaða Auju er. Í aðra röndina virtist hún taka undir þetta almennt og finnast mjög mikilvægt að umræðan ætti sér stað, en í hina röndina átti þetta aldrei við í neinu tilteknu dæmi og alls ekki þegar það varðaði hana sjálfa, og taldi sig að mér heyrðist hafa hlotið meira bágt af tengslum sínum við afa sinn en eitthvað annað. Mér fannst svo mjög langsótt að ætla að Berglind Ósk væri eiginlega bara alveg jafn vel tengd og Auður – af því hún hefði verið í ritlist og Steinar Bragi væri kærastinn hennar. Það er reyndar mikilvægt að halda því til haga finnst mér að þegar maður hefur komið ár sinni fyrir borð skiptir þetta engu máli lengur – ég held ekki að það muni neinu á Steinari Braga og Auði í dag, ekki á aðstöðu þeirra, og ef það gerir það hefur það ekki með nóbelsverðlaunin að gera – en það skiptir öllu upp á atlætið sem maður fær sem byrjandi (og jafnvel áður en maður er byrjaður). Svo getur vel verið að fólk öfundist út í það atlæti og geri grín að manni, einsog Auja bendir á, og það er áreiðanlega sárt – en það breytir bara ekki neinu um atlætið sjálft. Venjulegt fólk fær ekki símtöl utan úr bæ þar sem það er beðið um handrit – jafnvel ítrekað, einsog ég veit dæmi um – og það fær almennt ekki heldur tilnefningar og verðlaun fyrir byrjendaverkin sín. Ekki einu sinni þegar þau eru mjög góð byrjendaverk. Að benda á það gerir ekki lítið úr þeim sannanlegu listrænu afrekum sem sama fólk getur hafa unnið. Annars eru svona tengsl og klíkuskapur og þessi tilfinning fyrir að tilheyra og geta bara hvað sem manni sýnist svolítið flókin – og algengt að listamenn séu einhvern veginn tengdir. Með bakland. Það þarf svolítið egó til þess að nenna þessu og einhvers staðar þarf maður að fá þetta egó. Ég hlustaði á viðtal við Jakob Frímann í morgun og hann var sko ekkert alinn upp af neinum mikils metnum ljóðskáldum. Afi hans var stjórnarformaður SÍS! Það er alvöru mafía. Ég var líka kallaður stofnun í útvarpinu. Mér líst vel á það. Stofnun Eiríks Norðdahl – til höfuðs stofnun Sigurðar Nordal, sem afi Steinars Braga fór fyrir. Ég er ekki alveg með það á hreinu hvað stofnun Sigurðar Nordal gerir reyndar. En stofnun Eiríks Norðdahl mun sérhæfa sig í menningarlegri undirróðursstarfsemi. Einu sinni á ári verður líka sendur maður út af örkinni sem kemur við á menningarsnauðum heimilum og talar við börnin og spyr hvort þau hafi nokkuð verið að skrifa og hvort þau ætli ekki bráðum að fara að senda inn handrit. Það sé vænst mikils af þeim.