Eru þetta ólympíuleikarnir í sjálfsvorkunn? spyrja tröllin. Viljið þið ekki bara fara að grenja líka? Fair point , svara ég, alþjóðlegur glaumgosi, úr fílabeinsturni mínum í Skarpnäck. Tilgangurinn með færslu gærdagsins – fyrir utan að vera rant ósofins manns sem þótti lúalega snúið út úr orðum sínum – var að vísu ekki að kalla fram vorkunn heldur að benda á í (nauðsynlegum) smáatriðum hvað þetta getur verið langt ferðalag. Og svo það misskiljist ekki þá er þetta langt ferðalag fyrir (svo gott sem) alla. En það er ekki þar með sagt að það sé jafn langt fyrir alla. Og svo hitt misskiljist ekki heldur þá var þetta sannarlega ekki leiðinlegt og aldrei þjáning – ég hef, einsog allir, upplifað minn skerf af þjáningu en það var aldrei vegna þess að ég fengi ekki listamannalaun, útgáfu, viðurkenningu og verðlaun. Stundum var það meira að segja skemmtilegast þegar mótlætið var mest – að minnsta kosti í öruggri fjarlægð og í baksýnisspeglinum. Þegar rætt er um Nýhil eða Starafugl (eða Tíu þúsund tregawött eða SLIS eða Alþjóðlegu ljóðahátíðina eða margt annað sem ég hef sýslað) verður líka að taka með í reikninginn að þetta eru stofnanir sem ég – ásamt öðrum – kom á laggirnar. Ekki stofnanir sem réðu mig í vinnu – ekki prójekt sem voru fjármögnuð af öðrum, fæst þeirra voru einu sinni fjármögnuð – heldur stofnanir sem ég fann upp á og lagði til botnlausa sjálfboðavinnu og peninga. Því fylgir nokkuð menningarauðmagn – og vald – þegar því hefur verið komið á laggirnar, en það er samt ekkert trompspil í samræðu þegar maður vill láta einsog ég hafi fengið allt upp í hendurnar. Ég hef fengið ýmislegt upp í hendurnar, en ekki þetta. Leitið betur, segi ég. *** Við vöknuðum snemma og skildum börnin eftir heima á meðan við Nadja og Lehmus fórum á Moderna Museet til að sjá sýningar Hilmu af Klint og Nan Goldin – auk fastasýningarinnar auðvitað. Það var ansi magnað. Ég er á báðum áttum með það hvort það hafi verið rétt ákvörðun að skilja krakkana eftir heima. Nan Goldin hefði kannski verið full ágeng fyrir þau en margt í fastasýningunni og hjá Hilmu af Klint hefði sennilega vakið áhuga þeirra – og a.m.k. mín börn fá ekki tækifæri til að sjá svona mjög oft. Á móti kemur að það var margt fólk og biðröðin inn á Hilmusýninguna var áreiðanlega hálftími – þau fóru að sofa eftir miðnætti í gær og hefðu garanterað verið mjög þreytt. Við vorum nógu þreytt sjálf – ég sofnaði að vísu fyrstur en er enn að jafna mig eftir fyrri nótt (ég verð vel að merkja oft andvaka og það hangir ekki bara saman við þetta kúltúrbarnarugl). Í staðinn sváfu þau til hádegis og léku tölvuleiki. *** Í fyrrakvöld – fáeinum tímum eftir að ég bloggaði um ofbeldið í Skarpnäck – var líka framin skotárás á Gubbängen, sem er hér skammt frá, og svo sjö mínútum síðar sprengd sprengja í Farsta, sem er aðeins lengra undan (samt bara svona kortersgangur, held ég). Það er ekki laust við að manni bregði meira við flugeldasprengingarnar (sem heyrast af og til) en maður er vanur. Ekki veit ég hvernig þetta verður annað kvöld. Þetta var önnur skotárásin í Gubbängen þennan dag. Fyrr um daginn hafði verið skotið á svalir í sama fjölbýlishúsi þar sem býr þekktur glæpamaður. Um kvöldið var svo skotið á hurð í húsinu – 25 skotum – en gerandinn hafði farið íbúðavillt og skaut öllum sínum skotum á hurðina hjá áttræðum einstæðum karli. Lögreglan gefur ekkert upp um hvort skotárásirnar tengist (sem þær gera auðvitað) né hvort þær hangi saman við sprengjuna í Farsta – sem er líklegt en ekki víst. Enginn meiddist í þessum árásum en margir eru skeknir. Tveir voru handteknir á flótta – fyrir að skjóta á hurðina – 15 ára og 14 ára strákar, einu og tveimur árum eldri en Aram. Þeim 14 ára var sleppt fljótlega en hinn situr enn í varðhaldi. *** Annars kemur bíómynd upp úr White Noise á Netflix í kvöld. Ég er að lesa hana aftur af því tilefni. Sennilega er þetta besta bók allra tíma. Ég dýrka hana. Og hlakka mjög til að sjá myndina.