Nadja var týnd þegar nýja árið gekk í garð. Hún hafði skotist til baka eftir glasinu sínu – það stóð til að skála í almenningsgarði hér við hliðina, meðan við fylgdumst með flugeldunum – og vissi hreinlega ekki hvar við vorum. Kannski vorum það þá við sem vorum týnd, frekar en hún? Í millitíðinni hafði Aino misst glasið sitt og fengið mitt í fyrirframgreiddan arf. Ég var of penn til að drekka beint úr flöskunni fyrren einhver hafði sagt að ég mætti það. En strax og ég fékk merki sleppti ég algerlega af mér beislinu. Maður er nú ekki partýdýr fyrir ekki neitt. *** Annars gekk þetta allt friðsamlega fyrir sig hér í Skarpnäck. Í Vällingby, í norðvestur-Stokkhólmi, var maður skotinn til bana um kvöldmatarleytið. Þetta hafa verið svolítið ofbeldisfull jól. Það var einn maður drepinn á aðfangadag og annar á gamlársdag – ofan í nokkrar skotárásir og nokkrar sprengjur. Allt eru þetta víst hefndaraðgerðir vegna morðsins á rapparanum Einár í fyrra – en hann var drepinn þegar hann átti að vitna fyrir rétti gegn Vårbynätverket sem hafði rænt honum og niðurlægt nokkru áður. En Vårbynätverket er það gengi sem fór einna verst út úr aðgerðum lögreglunnar 2020 í kjölfar þess að Encrochat var krakkað – einsog ég hef nefnt hérna stundum kostuðu þær aðgerðir talsverðan óstöðugleika á svarta markaðnum með meðfylgjandi ofbeldi. Þetta er allt voða mikið einsog að lesa handritið að The Wire. Nema með aukavídd þessara Grammyverðlaunuðu rappara einsog Einárs og Yasin – þeir fá leiðina úr göturæsinu í glamúrinn til þess að virka styttri, grunar mig. *** Ég hef enn ekki strengt neitt áramótaheit. Ég er alltaf í einhverjum átökum (pönn!) og stend svona við meiripartinn af því sem ég ætla mér en ég er ekki búinn að útlista fyrir mér næstu mánuði að öðru leyti en að mig langar að sinna vinnunni minni og éta minna af óhollum mat og meira af hollum. Svo ætla ég að lesa færri bækur. Ég las 300 bækur í ár – sléttar – og það er meira en manni er hollt. Ætli 100 sé ekki passlegt? Þær mega alveg vera lengri en þær sem ég las í ár – ég las talsvert af nóvellum, en gæti svo sem alltaf lesið fleiri ljóðabækur og lesið þær betur en ég geri. Ég gef bókum ekkert alltaf séns – reyndar er alveg rannsóknarefni hvers vegna ég nenni stundum að grafa og grafa og pæla og pæla og stundum bara alls ekki. Hvað veldur því að maður treystir höfundi til að verðlauna erfiðan lestur? Ég hef lesið bækur í næstum 40 ár og ég veit það bara ekki. Annars er ég að hugsa um að velja bækur ársins á næstu dögum. Sem er þá ekki úr útgáfu ársins heldur bara þessum sem ég las – hvað hafi verið eftirtektarverðast, hvaða höfunda ég ætli að lesa meira, hvað hafi komið mér á óvart o.s.frv. Höfundur bókar ársins á Fjallabaksleiðinni fær engin verðlaun og er hugsanlega ekki einu sinni á lífi og sennilega ekki íslenskur. Þetta er samt mikill heiður, ég fer ekki ofan af því. *** Hvað um það. Gleðilegt ár kæru vinir. Sjáumst hress í stríðinu/stuðinu á nýja árinu.