Dagur 56 af 90: Skásetningar

Er ég ennþá að telja dagana rétt? Ég held það. Ég mætti ekki í vinnuna fyrren á hádegi í dag. Síðustu dagar hafa verið svolítið intensífir. Ofan í vinnu við bókina var hljómsveitaræfing með tveimur nýjum lögum á fimmtudag, á föstudag var frumsýning á Volaða land eftir Hlyn Pálmason og ég fenginn til þess að taka viðtal við aðstandendur á eftir, og í gær opnaði Danni vinur minn, Daníel Björnsson ásamt Önnu Hrund Másdóttur og Jóhannesi Atla Hinrikssyni, sýningu í Gallerí Úthverfu. Ég fór beint úr opnuninni í kvöldverðarboð og svo á Rocky Horror sýningu menntaskólans. Var kominn seint í háttinn. Best er þegar ég kemst upp með að sinna engu nema bókinni. Og í sjálfu sér alveg nógu intensíft, enda farið að draga nær endalokunum – án þess þó að þau séu ljós, sem þýðir í senn að ég dragnast með 100 þúsund orð af uppsöfnuðum vandamálum á bakinu, sem ég þarf að henda reiður á, og að kvíðinn yfir því að allt hrynji og ekkert gangi á endanum upp er í hámarki. Ég er drukkinn á því sem er komið og mér þykir mjög vænt um það – senu fyrir senu, karakter fyrir karakter – og tilhugsunin um að það gæti allt endað á að fara til andskotans kvelur mig. Það væri reyndar ágætis titill á bókina. Farið til andskotans . Fyrst hún má hvorki heita Himnaríki og helvíti , Bjargræði eða Jón – sem væri auðvitað best, en er víst frátekið. Svo hef ég eytt óþarflega miklum tíma í að hugsa um Madömu Butterfly. Sérstaklega fyrir mann sem hefur satt best að segja mjög takmarkaðan áhuga á óperum. En það eru allir að tala um þetta og hvað á ég þá að gera? Ég þyrfti eiginlega að setjast niður með Per vini mínum í Malmö, sem er mikill óperukarl, til að fá innsýn í þetta. En mér finnst ekki síst forvitnilegur þessi hræringur í umræðunni – hvernig hugtök eins óríentalismi, nýlenduhyggja og „yellow-face“ – sem er í grunninn amerískar áhyggjur af vaudeville-rasisma – lenda öll í einum graut, svo að uppsetning fyrrum nýlenduþjóðar á 130 ára gamalli ítalskri óperu sem byggð er á bandarískri smásögu, sem segir frá amerískum lautinanti sem svíkur 15 ára gamla japanska konu í ástum – og sú smásaga er vel að merkja byggð á skáldsögu eftir franskan flotaforingja um svipað efni, sem aftur er talið að sé að miklu leyti sjálfsævisöguleg – verður til þess að vekja áhyggjur af því að Japanir séu orðnir fórnarlömb fordóma í nýlendustefnubransanum. En einsog einhver kannski veit þá eru Japanir fyrst og fremst nýlenduherraþjóð og saga þeirra mjög blóðug. En á móti kemur að Japanir töldust undirmálsfólk sem innflytjendur í Bandaríkjunum – einsog allt litað fólk (líka s-evrópubúar), og urðu svo fyrir gríðarlega aukinni heift og fordómum í seinni heimsstyrjöldinni, sem voru svo endurleiknir í nýrri uppsetningu með léttúðarfyllri undirtónum á níunda áratugnum þegar Japanir voru að gera sig gildandi í bandarískri kaupsýslu, í bíómyndum einsog Gung Ho og öðru álíka efni. Mér finnst blasa við að það sé úr þeirri átt sem áhyggjurnar koma. Og þá má alveg halda því til haga líka að máttugasta „nýlendustefna“ samtímans birtist í því hvernig mannsandinn um gervalla jarðkringluna hefur verið kólóníseraður af amerísku gildismati í gegnum nær fullkomin yfirráð á allri afþreyingu og bróðurparti hins meira krefjandi listaheims að auki. Í þessum debat um óperuna mætast líka þeir sem vilja engu breyta – engum þóknast í nafni listarinnar – og þeir sem eru ævinlega tilbúnir til að bukka sig og beygja fyrir minnstu aðfinnslum. Og allir jafn vissir um að þeir séu hinir einu sönnu verndarar listar og mannúðar. Listin gengur auðvitað að miklu leyti út á þessa jafnvægisgöngu – að þóknast engum og þóknast öllum, helst bæði í einu, tæla og ögra, sefa og sjokkera. Og ágætt að hafa í huga að fyrsta útgafa Madömu Butterfly var flopp, svo Puccini settist niður og lagaði hana – og gerði það meira að segja nokkrum sinnum, eftir því sem ég kemst næst. Til þess einmitt að þóknast áhorfendum síns tíma, sem höfðu einsog við vitum mjög sérstaka sýn á austurlönd, séða úr samtímanum, en mjög eðlilega fyrir sinn tíma. Svo það er allavega ágætis fordæmi fyrir Íslensku óperuna, ef hún skyldi vilja fresta sýningunni og endurskoða hana, móta að löngunum og þrám og áhyggjum sinna gesta. Þetta eru eiginleg of mörg lög af merkingu til þess að það verði rætt af einhverju viti nema í mjög löngu máli. Sem ég er augljóslega ekki að fara að gera, og ekki einu sinni fær um að gera. En þótt ég sé almennt lítið gefinn fyrir það að bera blak af Íslandi finnst mér samt blasa við að af þessum þjóðum sem hlut eiga að máli – Ítalíu, Frakklandi, Bandaríkjunum, Japan og Íslandi – séu nýlenduskuldir Íslands áberandi lægstar. Annars mæli ég með skrifum Ármanns Jakobssonar um Enid Blyton, Roald Dahl og nýlendustefnuna .