Dagur 54: Móralíseringar

Einhvern tíma var litið til listanna eftir svörum við siðferðislegum álitaefnum. Sögur innihéldu móralskan boðskap – og þá er ég ekki að tala bara um barnabækur, heldur klassíkina. Kanónuna. Moby Dick. Karamazovbræðurna. Hroka og hleypidóma. Alvöru höfundar voru móralistar og flestar alvöru sögur voru sögur sem áttu (meðal annars) að hjálpa fólki að skilja rétt frá röngu og stöðu sína gagnvart því sem var rétt og rangt. Ekki bara til þess að banna fólki – ekki láta þráhyggjur þínar fyrir hvítum hvölum steypa þér og öllum í kringum þig í glötun – heldur líka til þess að leyfa því –  vingastu við tattúveruð hörundsdökk vöðvatröll, það er ekki allt sem sýnist og þau gætu orðið þínir tryggustu vinir . Sögur voru í með leiðarvísar – ekki kannski boðorð, heldur tilraunastofa þar sem skoða mátti afleiðingar mannlegrar breytni og bera hana upp að ljósinu. Þetta hélt áfram að vera satt út 20. öldina, þótt verkefnið yrði að mörgu leyti sífellt meira krefjandi, á köflum mjög ofbeldisfullt, færi á endanum að snúast meira um að kryfja siðferðið og galla siðferðisboðskapsins, afhjúpa hræsnina sem oft fylgdi mestu móralistunum, en að viðhalda því eða stuðla einfaldlega að „betri“ breytni. Að einhverju leyti hefur þetta síðan snúist við. Í stað þess að listirnar reyni að leiðbeina okkur um rétta og ranga breytni í lífinu, (eða kryfja hana), snýst lífið (í listum) nú að talsverðu leyti um að ræða rétta og ranga breytni við framkvæmd listaverka. Í stað þess að benda á glæpina eru listaverkin orðin glæpirnir – eða í það minnsta meintir glæpir. Og eins undarlega og það kannski hljómar er líklega samtímis mjög langt síðan listin sjálf var jafn íhaldssöm – fagurfræðilega, siðferðislega og heimspekilega. Svona heilt yfir – þótt á þessu séu eðlilega undantekningar. Ég var nýbúinn að fletta vikugömlum Mogga þar sem tvær af fjórum síðum fóru í að ræða representasjón – ein síðan var um hvít óskarsverðlaun, hin um konur sem hljómsveitarstjóra – og hafði verið að velta því fyrir mér einfaldlega hversu hátt hlutfall menningarumfjöllunar færi í þessar pælingar þegar ég rak augun í umræðuna um Madömu Butterfly uppsetningu óperunnar. Og hugsaði: nei sko, nýr skandall, spennandi. Ég myndi seint halda því fram að þessar umræður – eða þessi umræða, þetta er mikið til sama umræðan í nýjum búningi – eigi ekki að fara fram eða séu ekki mikilvægar. Sannarlega hefur a.m.k. engin lausn fundist eða samningar náðst – engin fljót verið brúuð, flest okkar standa meira að segja á báðum árbökkum. Ég er – í bili a.m.k. – bara að velta því fyrir mér hversu plássfrek hún sé og hvort hún taki yfir aðra umræðu um menningu (og hver sú umræða þá væri – man það einhver?) Og ég er ekki að hugsa bara um þessi tilteknu mál – heldur ekki síður kúltúrbarnaumræðuna, umræðuna um fatlaða í leikhúsi, aflýsingu og endurkomu dónakalla í hinum ýmsu listgreinum, innflytjendur í bókmenntum, sérstök bókmenntaverðlaun kvenna o.s.frv. o.s.frv. Í sjálfu sér er ekki heldur hægt að halda því fram að þetta sé ekki umræða um „merkingu listarinnar“ – kannski er þetta djúpstæðasta umræðan um merkingu listarinnar sem okkur er boðið upp á í smelldrifnu fjölmiðlunum. Hvað segir listin okkur og hvernig, hver eru mörk hennar? Hins vegar sakna ég þess stundum að umræðan sjálf sé vitrænni, eða hugrakkari, í meira samflútti við veruleikann – því svörin um að listin sé ósnertanleg, allir eigi rétt á að stunda hana, mikilvægi tjáningarfrelsisins verði seint ofmetið og „gæðin“ verði að ganga fyrir eru kannski ekki röng, en þau eru líka banöl og ófullnægjandi nema þeim sé fylgt eftir með einhverri ástríðu, að þeir sem flíka þeim fórni einhverju fyrir listina og að þau hætti að verðlauna meðalmennsku, mótmæli því jafnvel á torgum þegar meðalmennskan er verðlaunuð, henni hampað og fagnað, frekar en að hvískra flissandi í hornum. Og sýni okkur þannig að listin sé heilög, frekar en að halda því bara fram.