Dagur 51: Koffín og kolvetni

Þetta hefur alveg áreiðanlega verið stefnulausasti dagurinn hingað til. Ég er eiginlega bara búinn að vera að væflast og það sem ég skrifaði er sennilega að hluta til nothæft en það er líka einmitt augljóslega stefnulaust – á leiðinni ekkert, breytir litlu, rétt hnýtir smá hnút og lognast svo út af í átakalausri vinsemd. Kannski er þetta afleiðing af gærdeginum. Morguninn var pródúktífur og eftir hádegi hitti ég Sigþrúði – fráfarandi ritstjóra minn – og Jón Yngva, hennar ektamaka, og fór með þau í ferð um sögusvið bókarinnar. Við byrjuðum hér á skrifstofunni þar sem heill veggur er undirlagður af gömlum ljósmyndum, stóru bæjarkorti, úrklippum úr dagblöðum og allra handa glósum af myndræna taginu. Svo gengum við í gegnum bæinn og ég fór í gegnum hina ýmsu þræði bókarinnar. Ef frá er talið upphaf handritsins sem Nadja las síðasta … vor? Getur verið að það sé svo langt síðan? Allavega, ef frá er talið það og einstaka kryptísk athugasemd, hefur enginn fengið að vita neitt um þessa blessuðu bók. En nú sem sagt rakti ég bara allt sem ég mundi – eins langt og það náði, því ekki veit ég enn hvar þetta endar eða hvernig þræðirnir verða hnýttir saman, því þótt þetta sé ekki þannig séð „plottuð bók“ þá verður hún nú samt að koma heim og saman – og það var áreiðanlega meira slítandi en ég gerði mér grein fyrir í gær. Ástæða þess að ég fór út í þessar útleggingar er ekki síst sú að nú þarf Sigþrúður að finna nýjan ritstjóra fyrir mig – og þessa bók, réttara sagt, og þá getur skipt máli að eðli hennar liggi að einhverju leyti fyrir. Ég er heldur ekki í frábæru ásigkomulagi. Sef illa, ét mikið og óhollt og leyfi þráhyggjunum svolítið að stýra ganginum á mér. Það er ástand sem mér finnst að mörgu leyti gefandi – einhvers staðar hangir það saman að maður sinni sjálfum sér og vellíðan sinni illa þegar maður lifir að miklu leyti í öðrum heimi, þegar mest áríðandi vandamálin í lífi manns eru þau sem tilheyra skáldskapnum og allt annað mætir afgangi – í ofanálag finnst mér stundum einsog sköpunargáfan gangi fyrir koffíni og ódýrum kolvetnum – en það er líka slítandi því manni hrakar og á endanum klárast þrekið og þá getur maður sennilega valið um að missa vitið eða taka sig taki. Og þegar maður tekur sjálfan sig taki er hætt við að maður missi takið á hinu. Trappar niður koffínið og dettur úr gír. Ég er að vísu ekki í neitt sérlega góðum gír í dag. Þrátt fyrir koffín og kolvetni og allt hitt. Ég er svolítið lost og blúsaður – hef afvegaleiðst um internetið og potast áfram í handritinu frekar en að skálma. Ég hef lítið lesið allra síðustu daga, annað en mína eigin bók, kannski er rótin þar – ég leiðist oft út í heilalaust gláp þegar Nadja er í burtu. Verkefni morgundagsins er að finna skriðþungann minn aftur.