Jæja. Ég ætla að byrja daginn á því að vakna. Krakkarnir eru farnir í skólann og ég sit einn í ljóslausri stofunni heima á Tangagötu – það birtir smám saman en annars er tölvan helsti ljósgjafinn. Nadja fór til Svíþjóðar í fyrradag til þess að taka þátt í Vasagöngunni sem er á sunnudag. Ég er búinn með fyrsta kaffibolla dagsins en ég er enn í náttbuxunum – hafandi trassað að setja buxur í þvott um hríð eru allar góðu buxurnar mínar núna í þvottakörfunni. Allar verandi þessi tvö pör sem mér þykja þolanleg. Ég á sennilega þrjú pör í viðbót – einar eru of þröngar, einar með gati og einar eru gallabuxur sem ég nota eiginlega bara þegar ég er að vinna við eitthvað karlmannlegra en að delera upp úr mér sögum og ljóðum. Ég kaupi mér sjaldan föt – og ef frá eru taldar lopapeysurnar sem mamma prjónar á mig fæ ég þau eiginlega aldrei gefins. Og aldrei – einsog sumir – eitthvað afgangs úr skápunum hjá öðrum. Af því ég er tveir metrar og passa ekki í neitt – ekki einu sinni það sem kemur beint úr búðinni. Ég er grannur að upplagi og misvaxinn, með hlutfallslega ívið lengri búk og styttri fætur en nokkrum manni er hollt, sem þýðir að ég á eiginlega enga boli sem ná yfir naflann á mér sem eru ekki líka einsog sirkustjald utan á mér. *** Í gær var ritstjórinn minn hjá Forlaginu hækkaður í tign. Sigþrúður Gunnarsdóttir er nú orðin framkvæmdastjóri. Sem þýðir að ég er munaðarlaus. Hjá Nýhil voru vinir mínir bara ritstjórarnir mínir – og ritstjórn bara jafn mikil og maður kallaði eftir og einhver hafði tíma til að sinna. Fyrsti ritstjórinn minn hjá stærra forlagi var Kristján B. Jónasson – sem ritstýrði Hugsjónadruslunni , Michael Moore þýðingunum (sú seinni kom aldrei út) og las yfir Ginsbergþýðingarnar og Eitur fyrir byrjendur . Þegar Forlagið lenti í hakkavél markaðarins varð ég munaðarlaus. Það var þá 2006. Á tímabili var ég næstum farinn inn á Uppheima en svo þegar Silja Aðalsteins byrjaði á Forlaginu fór ég inn með henni, 2008. Hún ritstýrði mér til 2013 – Hnefi eða vitstola orð var síðasta bókin okkar saman – og þá tók dóttir hennar, Sigþrúður við. Það eru þá fimm ár hjá Silju og áratugur hjá Sigþrúði. Ég get ekki verið annað en afar þakklátur fyrir þennan tíma – það er lykilatriði að eiga góðan ritstjóra og ekki síður að eiga góðan málsvara innan forlagsins, þegar maður kemur með asnalegar hugmyndir einsog að skrifa matreiðslubók um plokkfisk eða barnabók um samansaumaðan jólasvein sem prumpar glimmeri. Eða óþægilegar bækur einsog Hans Blæ. Þá þarf maður að eiga hauk í horni og það þykist ég hafa átt. Að því sögðu held ég að Sigþrúður verði líka frábær framkvæmdastjóri – ég treysti henni hundrað prósent til þess að standa með bókmenntunum í stórsjó markaðsfrekjunnar. Nú sem fyrr. En ég er sem sagt munaðarlaus. Ég veit ekki einu sinni hvort það standi til að ráða fleiri ritstjóra. Ég vona í það minnsta að það verði ekki færri ritstjórar per bók – Íslendingar eiga margfalt heimsmet í ritstjóraafköstum, og það bara dugar. Og ef það á að fækka höfundum vona ég að allir hinir verði reknir fyrst. Djók! Svo er spurning hvað verður um Tímaritið. Ég reikna með því að Sigþrúður segi sig frá því líka, án þess að ég viti neitt um það. Þá gæti verið að Elín Edda taki það bara yfir sjálf – eða það verði eitthvað meira stokkað upp. Það er ekki víst að Halldór Guðmundsson – Don Corleone íslenskrar menningar, kallaði ég hann um daginn – og félagar séu búin að leggja þennan kapal, þetta er kannski kapall í vinnslu. *** Ég er meira en hálfnaður með átakið í bókinni og hún er næstum orðin jafn löng og ég hélt hún yrði. Altso – þegar ég ætlaði að klára „fyrsta handrit“ 15. apríl reiknaði ég með því að hún yrði um það bil 90 þúsund orð. Nú stendur handritið í 88 þúsund orðum og ég á ábyggilega 30 þúsund orð eftir áður en þetta kemur allt heim og saman. Það getur augljóslega náðst á næstu 43 dögum – en umfangið gæti gert eftirleikinn tímafrekari. Það verður heldur ekki fyrren síðasta orðið birtist sem ég veit hversu vel þetta hangir saman – hvað ég þarf mikið að endurskrifa. Og ég veit ekki heldur fyrren síðasta orðið birtist hvað orðin verða mörg. Kannski er þetta 250 þúsund orða bók og þá verður bara að hafa það. Ástæðan fyrir því að ég tala lítið um söguþráðinn eða sögusviðið eða stemninguna er kannski bara leyndarhyggja. Ég veit ekki alveg ennþá hvað mér er óhætt að segja án þess að skemma söguna. Augljóslega verður á endanum að segja eitthvað en í þetta sinn langar mig líka að fólk komi að henni svolítið kalt. Ekki kannski ískalt en kalt samt. Ég vil ekki klaga of miklu. Mér finnst líka enn sem komið er að hlutlausa lýsingin á henni kalli fram hugmyndir um annars konar bók en hún er. Að minnsta kosti líður mér þannig núna. Það er reyndar ekki einsog þetta blogg sé lesið af þúsundum – nema kannski þegar ég er í ádeilugírnum og fæ gjallarhorni fjölmiðlanna þröngvað upp á mig. Ég held ég hafi nefnt hérna að bókin gerist sumarið 1925, hún er ekki realísk – hugsanlega er hún meira að segja andrealísk, í sömu merkingu og Gösta Berlings Saga er andrealísk, uppgjör við jarðbundnari frásagnir, og raunar líka rómantískari frásagnir (eða ákveðna tegund af rómantík) – það er mjög mikið af prestum í henni og ég get bætt við án þess að skemma neitt að fjallið sem ég hef verið að mynda frá því síðasta haust, fjallið sem fylgir nær öllum færslum hérna, spilar stórt hlutverk. Já og svo er ég sennilega búinn að ákveða titilinn – en um hann þegi ég í bili.