Dagur 43 af 90: Stosbúðarlífið

Nú á að fjarlægja rasísk ummæli úr James Bond bókunum. Ég hef ekki slegið því upp hverjar þessar breytingar eru. En þetta sannar svo sem það sem maður sá fyrir sér með þetta Roald Dahl mál um daginn – þetta snýst ekki um listina, afskræmingu á listinni, eða „uppfærslu“ listarinnar, heldur um að stórfyrirtæki vilja vernda tiltekið vörumerki frá ásökunum sem gætu reynst kostnaðarsamar. Eins konar forvarnir gegn slaufunarmenningu. Og ég held það sé alveg sama hvaða dillur komast í tísku stórfyrirtækin sem fara með réttinn á þessum sögum munu alltaf vilja laga þær að smekk kaupenda á hverjum tíma. Og telja sig í rétti með það – enda er þetta ekki list, þetta er fjárfesting, og þeim finnst þetta jafn sjálfsagt og að mála veggina á fasteignum sínum. Þetta sýnir manni líka að fordómar – eða annar úreltur hugsunarháttur – eru ekki alltaf eins. Ruglið í Ian Fleming bókunum er annars eðlis en ruglið í Roald Dahl bókunum. Í einhverjum skilningi eru þetta samt alltaf falsanir. Og þær ræna mann tækifærinu til að flissa að þessu. Ég hef lesið nokkrar Ian Fleming bækur og þær eru mjög skemmtilegar einmitt þannig – man eftir því að hafa lesið upphátt kafla fyrir Hildi Lilliendahl fyrir löngu síðan, þar sem Bond er að velta vöngum yfir því hvers vegna franskar konur séu með fallegri nafla en aðrar konur, og kemst að þeirri niðurstöðu eftir talsvert grufl að í þessu sem öðru vandi frakkarnir sig, og franskir fæðingarlæknar hljóti að leggja sig mjög fram þegar þeir klippa á naflastrenginn, ólíkt kollegum þeirra í öðrum löndum sem enga virðingu bera fyrir fegurðinni. Þessu fylgdi hláturkast sem ég hefði ekki viljað vera án. En svo verður kannski einn daginn alveg jafn hlægilegt að sjá fyrir sér James Bond á ströndinni að velta því fyrir sér hvers vegna þessar bikiníklæddu frönsku konur séu svona vel menntaðar og máli farnar, röggsamar og duglegar. *** Ég horfði á Martin Amis í viðtali hjá Clive James á dögunum – mjög mikil gáfumannarúnksería frá Clive sem heitir „In the library“ og er þrátt fyrir mikla tilgerð svolítið frískandi í samanburði við þá sjónvarpsþáttagerð sem manni er alla jafna boðið upp á. Þar fara þeir félagar á talsvert flug í að gera lítið úr Louis-Ferdinand Celine, sem var sannarlega hræðilegur gyðingahatari – ef ekki bara einlægur nasisti – en þeir sem sagt smurðu ofan á að þeir hefðu nú eiginlega aldrei komist í gegnum Ferðin til enda næturinnar . Sem mér fannst svolítið fyndið. Ekki af því hún sé ekki dálítið torf heldur bara að þessar týpur, af öllum týpum, skildu detta í „mér fannst nú Woody Allen aldrei neitt fyndinn“ gírinn. Ferðin til enda næturinnar er annars einhvers konar meistaraverk, minnir mig – reyndar ábyggilega 20 ár síðan ég las hana, það sem lifir í minninu er fullkomlega explósífur texti, logandi og brennandi og brjálaður. En hver veit – kannski hefur hún ekki elst betur en Þú lifir aðeins tvisvar eftir Ian Fleming. *** Ég leit í barna–moggann í hádeginu og gerði þá uppgötvun að verðlaunagripir Íslensku bókmenntaverðlaunanna og Bókmenntaverðlauna Andabæjar eru eins. Ég veit ekki alveg hvað ég vil að þið gerið með þessar upplýsingar – en uppnám væri kannski vel þegið. Mér finnst að DV eigi að skrifa um þetta. Hugsanlega er þetta efni í innslag í Lestinni. *** Allt gengur vel. Í bókinni sem sagt. Ég þarf að segja eitthvað um það líka. Suma daga er ég mjög ringlaður reyndar – ég vakna enn á nóttunni í rugli, síðast fór ég að leita að mjög mikilvægri ritgerð sem hét „Frá vosbúð til stosbúðar“ (stosbúð er stytting á stofubúð og á við tilveruna í stofum í íslenska þéttbýlinu í upphafi 20. aldarinnar). Þar var lykillinn að öllu. Og svo komst ég auðvitað að því, vaknaður, kominn fram úr og byrjaður að gúgla, að þessi ritgerð er ekki til og „stosbúð“ er ekkert orð heldur órar. Og ég er enn lyklalaus. Aðra daga hef ég verið svolítið bugaður. Lufsulegur. Uppgefinn. Tætingslegur. Suma daga á ég erfitt með að treysta framvindunni og vil fara að skipta mér af hlutum sem ég á ekki að skipta mér af. En jafn marga daga hef ég líka verið kátur og glaður.