Jón Baldvin og Bryndís skrifa um Óratorrek í DV í dag. „Viðvörun: Það er óráðlegt af heilsufarsástæðum að lesa meira en eitt ljóð í einu. Það getur haft ófyrirséðar aukaverkanir, eins og jafnvægisleysi eða vott af svima – eða vantrú á framtíð mannkynsins.“ Hér. *** Ég er með sinabólgu akkillesar. Achilles tendonitis. Þetta er voðalegt. Ég fann fyrir þessu í gær þegar ég var að hlaupa en var að vona að þetta væri ekki neitt. Fannst eitthvað of vandræðalegt að fara að ganga heim. Sex til átta vikur, segir internetið, áður en ég má fara að hlaupa aftur. Það er ljóta vitleysan. *** Í gær kom upp við matarborðið umræðan um hvort konur væru menn. Á sænsku eru konur klárlega ekki män, en á íslensku er tekist á um þetta. Ég reyndi að láta samræðuna sem mest snúast um blæbrigði tungumálsins og hvernig það væru ekki allir alltaf sammála um hvað orðin þýddu. Annars kom Aram fljótlega með þá spurningu – sem mér fannst furðu glögg, og áríðandi að við henni fáist svar – hvort mannætur borði þá ekki konur, ef konur eru ekki menn. Þá kvað við í patríarkanum, hátt og snjallt: Hvar eru femínistarnir núna? *** Mér finnst annars furðu mikið hangið í þessum fangelsismöguleika þegar rætt er um tálmunarfrumvarpið. Mér sýndist fljótt á litið að sami möguleiki væri fyrir hendi í alls konar öðrum málum – fyrir smáþjófnað, umferðarlagabrot og fleira og fleira. En það var látið með það einsog allir foreldrar sem tálmuðu umgengni annars foreldris ættu þar með yfir höfði sér fangelsisdóm. *** Það er augljóslega ekki til að bæta nein samskipti foreldra eða foreldra við börn að henda öðru þeirra í fangelsi. En þau samskipti voru sennilega handónýt löngu áður en lögreglan kom til kastanna. *** Konum/mæðrum sýnist mér almennt finnast þetta minna alvarlegur glæpur en körlum/feðrum og tala hann niður. Svona einsog karlar tala niður launamun kynjanna. Af því hann bitnar síður á þeim. *** Það geta verið góðar og gildar ástæður fyrir því að brjóta lögin. Neyðarréttur. Maður keyrir yfir hámarkshraða ef maður er með manneskju í bílnum sem er að blæða út, til dæmis. Maður stingur mann sem ætlar að stinga einhvern annan. Og maður tálmar umgengni barns ef maður telur að því standi hætta af umgengninni. *** Svo finnst mér líka skrítið þegar talað er um að foreldrar eigi engan rétt til barnanna sinna (það séu bara börnin sem hafi rétt). Sá réttur er augljóslega ekki öllu yfirsterkari – en hann er til staðar og hann er ekki einskis virði. *** Kannski er merkilegast að fylgjast með öllu fólkinu sem gerir lítið úr þessu. Þetta sé nú ekki svo stórt vandamál, og svona myndi enginn gera nema rík ástæða væri til og la tí da. Sem er sirka sama lógík og að karlar myndu aldrei berja konur nema þær ættu það skilið. *** „Yfirleitt vilja þeir nú ekkert vera með börnunum sínum þegar á hólminn er komið“, er svo sagt. Kannski er þetta merkileg orðræða einmitt því hún kemur frá þeim sem síst skyldi – þeim sem mega jafnan þola álíka rangindi í málflutningi sjálf. Þeim sem ættu að hafa öll tól og tæki til að greina áróðurinn úr eigin brjósti – ættu að geta haft distans. En spúa svo bara úr sér fordómum, staðalmyndum og þunnildisafsökunum fyrir óverjandi afstöðu. *** Á ég þá bara ekkert að hreyfa mig í 6-8 vikur? Hvaða rugl er þetta. Mér er drulluillt. *** Nadja er á ráðstefnu í Reykjavík.