Ég veit ekki hvort ég legg í að minnast fleiri skálda hérna. Nýbúinn að minnast Bernadette Mayer og Enzensbergers. Sleppti Michael Rothenberg. Og svo er Tom Philips, sem ég ætlaði að minnast, eiginlega ekki minnst sem skálds heldur myndlistarmanns. Sem hann auðvitað var. En ég fékk hann samt á heilann sem skáld einhvern tíma á nýhilárunum. En þá fannst mér líka flest vera ljóð. Tom Philips sem sagt tók skáldsögu frá árinu 1892, The Human Document eftir W.H. Mallock, og málaði yfir hverja síðu en skildi alltaf einhvern texta eftir sem myndaði ljóð á síðunni. Hann byrjaði á þessu árið 1970 og fyrstu síðurnar eru frekar grófar – gaf hana svo út 1980 en byrjaði strax aftur að mála yfir það sem hann var búinn að mála. Þegar ég kynntist þessu, upp úr aldamótum, var það á netinu, svo náði ég í app sem var gert upp úr 2010, en þegar hin endanlega útgáfa kom á bókarformi – 2016 – fór það einfaldlega framhjá mér. En fallegra bókverk þekki ég ekki – þótt ég hafi aldrei séð bókina nema á tölvuskjá. Hann dó í fyrradag. En það er hægt að skoða allt Humument á netinu . Og ólíkar útgáfur af hverri síðu líka. Og ef ég fæ ekki bókina í jólagjöf (hint! hint!) hlýt ég að kaupa hana eftir áramót.