Óreiða beint úr hlaupinu

Þessa mynd tók ég í ljósaskiptunum um daginn, þegar ég var úti að hlaupa. Á henni er enginn filter, birtan var bara svona. Það er stundum sagt að við lifum á tímum mikillar upplýsingaóreiðu en kannski erum við bara meðvitaðri um þá litlu upplýsingaóreiðu sem við við lifum við vegna þess að allar upplýsingar eru meira og minna einn smell í burtu – kannski hefur hin eiginlega upplýsingaóreiða aldrei verið minni, upplýsingarnar sem í umferð eru aldrei verið áreiðanlegri. Ég hélt því fram á dögunum að H.P. Lovecraft hefði skotið sig í hausinn eftir að hafa komist að því að mamma hans var dauðvona. Mér hefur verið bent á að þetta sé alls ekki satt. Að vísu er þetta ekki alls kostar ósatt heldur – það var bara ekki HP heldur vinur hans sem gerði þetta. Þannig hefur flökkusagan orðið til. Ég hefði betur slegið því upp um leið og ég sló upp aldri hans þegar hann dó (46 ára, úr krabbameini – en ég hef dánarorsökina að vísu bara eftir sömu heimild og hitt, að hann hafi ekki skotið sig í hausinn í kjölfar þeirra tíðinda að móðir hans hafi greinst með ólæknandi sjúkdóm og myndi brátt deyja, þ.e.a.s. frá glöggum lesanda, ég hef engu slegið upp enn). En það er óverjandi að halda þessu fram við þessar aðstæður. Ég dreg allt til baka. Lýsi orð mín dauð og ómerk. *** Við erum komin til baka til Bangkok frá Ayutthaya. Síðasta deginum eyddum við á laugarbakkanum svo nú er ég sólbrenndur – ég sem sólbrenn aldrei. Ég er að berjast í gegnum Gravity’s Rainbow eftir Thomas Pynchon og kannski er það bara þess vegna sem ég er sólbrenndur. Mér finnst það ekkert ólíklegra en hitt að ég hafi sólbrunnið vegna þess að ég var of lengi að spóka mig á sundlaugarbakkanum. En á endanum kláraðist rafhlaðan í kindlinum og þá kom í ljós að snúran hafði orðið eftir í höfuðborginni og þá neyddist ég til að fara að gera eitthvað annað. Annars væri ég miklu verr leikinn á öxlunum. Við borðuðum mikið í Ayutthaya og gerðum næstum alltaf sömu mistök: að álykta að skammtarnir væru minni en þeir svo reyndust og panta of mikinn mat. Og gera heiðarlega tilraun til þess að klára hann á þeim forsendum að noti maður ekki kjaftinn á sér fyrir ruslafötu sé maður að stuðla að matarsóun, með tilheyrandi loftslagsáhrifum og auknu hungri í heiminum. Svona erum við meðvituð og samviskusöm. Í gærkvöldi reyndum við líka að fara á „roof top bar“ en þar mætti okkur vaskur barþjónn sem sagði grafalvarlegur (eða nei, skælbrosandi) að hér væri ekkert í boði nema bjór. Fyrir aftan hann stóð fremur fáklædd ung kona með brjóstin langleiðina upp úr þröngu haldi – ég dreg af því mínar ályktanir. Í öllu falli fórum við ekki upp á þak að fá okkur bjór heldur á götukaffihús þar sem börnin gerðu þau mistök að kaupa sér „taro“ smúðing – í skiljanlegri og virðingarverðri tilraunagleði – en fannst svo báðum hann afar vondur. Ég fékk mér bjór – hefði í raun getað gert það á „roof top bar“ líka – en Nadja glataði vatnsmelónukokteilnum sínum ofan í yngra barnið, sem bar sig afar illa. Svo fórum við á veitingastað og pöntuðum okkur áreiðanlega þrjátíu ólíka rétti sem voru samt flestir djúpsteiktur kjúklingur (þótt tvö okkar fjögurra borði ekki einu sinni kjúkling) og ég hafði varla neina matarlyst aftur fyrren í kvöld. Eftir fimm daga erum við Nadja skráð í Bangkok Midnight Marathon. Við ætlum ekki að hlaupa maraþon samt, enda er það ekki í boði, og ekki heldur hálfmaraþon, þótt það sé reyndar í boði, heldur 10 kílómetra. Bangkok Midnight Marathon hefst ekki heldur á miðnætti heldur klukkan fjögur að nóttu – eiginlega stenst ekkert í heitinu nema „Bangkok“ (ætla ég rétt að vona). Ég hef aldrei áður tekið þátt í neinu svona skipulögðu hlaupi – eiginlega varla nokkurn tíma hlaupið öðruvísi en einn. Þetta verður áreiðanlega mjög gaman. Mér skilst maður fái frían bol. Úr hlaupinu förum við svo beint upp í flugvél með öllu sænska slektinu hérna og fljúgum til Koh Phayam þar sem til stendur að jóla jólin í ár.