Thailand

Við flugum frá Helsinki niður Evrópu, skutum okkur undir Rússland og fórum svo að segja milli stríða austur til Bangkok. Með Úkraínu og Rússland norðan við okkur og Sýrland og Ísrael/Palestínu sunnan við okkur. Flugið var langt og ég svaf sama og ekkert. Í fluginu frá Íslandi til Helsinki lenti ég fyrir aftan einhvern duckfaced áhrifavald sem hafði framfæturna uppi á sætinu fyrir framan sig, hallaði bakinu aftur á mig – ég bókstaflega æpti þegar ég fékk það á hnén – og sat svo og skrollaði myndum af kjólum alla leiðina. Í lengra fluginu hafði ég bókað og borgað fyrir betra sæti sem ég svo fékk ekki. Með þessum afleiðingum að ég kom svefnlaus til Bangkok. Og það fyrsta sem ég gerði þegar við komum heim til mágs míns og fjölskyldu var að skríða inn í herbergi og leggjast fyrir í klukkutíma. Síðan þá hafa orðið nokkrir leiðangrar niður í bæ. Mér finnst mjög gaman að flannera sjálfum og ekki síður að hlaupa um garðana en það er svona misvinsælt hjá öðrum í fjölskyldunni, sem eru auðvitað sumir hverjir, ef ekki hreinlega allir, með styttri lappir en ég. En ég fékk þó Aram með mér í einn fimm tíma leiðangur fyrsta heila daginn okkar. Nú erum við komin til Ayutthaya, sem var hugsanlega – segja sérfræðingar – einu sinni stærsta borg heims. Ég hef bæði séð því haldið fram að hér hafi búið þrjár milljónir og ein milljón. Ekki veit ég hvað ég á að gera með það misræmi annað en yppta öxlum. Nú búa hérna 50 þúsund manns sem flestir lifa af því að sýna musterisrústirnar. Hér er mjög mikið af musterisrústum. Það er auðvitað margt hérna sem rifjar upp veturinn sem við eyddum í Víetnam fyrir sléttum tíu árum síðan – þegar það var hægt að setja Aino á bakið og Aram á bögglaberann – en af einhverjum orsökum hefur Kúba líka margoft komið upp í hugann. Kannski sem kontrast. Ég fór auðvitað til og um Kúbu áður en það voru neinir farsímar og maður vill útskýra fyrir börnunum hvernig maður spurði fólk – sem maður deildi engu tungumáli með – hvenær það kæmi rúta eitthvert og fékk mjög óljós svör en sat svo bara í þrjá tíma og beið í trausti þess að það kæmi rúta. Hvernig maður treysti alls kyns svörtum leigubílum og öðru fólki til að segja manni satt og fara með mann þangað sem maður ætlaði. Og hvernig maður stikaði sér leið um Habana útfrá hnitakerfinu – þar sem strætin eru númeruð. Hvernig maður sat kannski á dyraþrepinu einhvers staðar klukkustundum saman og beið eftir að viðkomandi birtist – sem vissi ekki að væri von á manni, þótt maður þættist vita að maður mætti gista í nokkra daga. Og hvernig maður fór í burtu í mánuð og hafði ekkert samband við neinn heima allan þann tíma (ef frá er talið þriggja mínútna símtal til mömmu og pabba á aðfangadag – sem kostaði einsog tíu rommflöskur). Í dag sáum við talsvert af bleikum fílum. Annars er í sjálfu sér fátt að frétta.