Ég nefndi einhvern tíma í sumar – sennilega í kringum afmælið mitt – að George Orwell, David Foster Wallace og Albert Camus hefðu allir átt það sameiginlegt að deyja 46 ára. Í gær rakst svo á tvo í viðbót – Charles Baudelaire og Oscar Wilde. Fjörutíuogsex er greinilega tuttuguogsjö rithöfunda. Baudelaire fékk heilablóðfall, lamaðist og dó svo – allt afleiðing ólifnaðar. Oscar Wilde lést úr heilahimnubólgu – fátækur og ofsóttur og til þess að gera nýsloppinn úr fangelsi (þar sem hann sat fyrir kynhneigð sína). Orwell dó úr berklum, Camus í bílslysi og DFW framdi sjálfsmorð – einsog var rætt hér áður . 27 skáld er annars gott ljóð eftir Val Brynjar. Og kynslóð 27 er heiti yfir hóp höfunda á Spáni sem áttu sameiginlegt að koma fram 1927. Það styttist í 2027. Nú þyrfti ég góðan talnafræðing til að rýna í þetta allt saman fyrir mig. En 27 er ekki talan, 46 er talan. Ég er 46, söngleikurinn Grease er 46, Harry Martinson – sem er frægastur fyrir að hafa veitt sjálfum sér Nóbelsverðlaunin – dó fyrir 46 árum. Einu sinni bjó ég í heilan mánuð í Villa Martinson í Jonsered, skammt utan við Gautaborg, sem kennd er við hann, þá var ég 36 ára (17 í rithöfundaárum), og villan stendur við William Gibsons väg (sem er ekki William Gibson höfundur Neuromancer heldur William Gibson iðnjöfur í Jonsered) … nei nú er ég kominn út fyrir efnið. HP Lovecraft dó líka 46 ára. Þá eru þeir sex. Lovecraft skaut sig eftir að hafa fengið þær fréttir að móðir hans, sem var mikið veik, myndi ekki lifa af. Ég hef lítið lesið hann en þó lítinn kviðling sem hafði talsverð áhrif á mig – löngu áður en ég byrjaði að lesa ljóð var ég mjög fasíneraður af textanum á legsteini skrímslisins Eddies utan á Live After Death plötu Iron Maiden (sem er með bestu live plötum). That is not dead / Which can eternal lie / Yet* with strange aeons / Even death may die. Vinur minn átti stóran fána þar sem ég las þetta og ég fór oft með þetta. Og þetta fjallar auðvitað um dauðann og eilífðina. Að vera 46 ára. Þetta „yet“ er „and“ hjá Lovecraft – en við höfum það einsog ég lærði það. Er líf eftir 46? Það er svo stóra spurningin. Ég er allavega með eina bók sem kemur út áður en ég verð 47. Allt sem gerist eftir 1. júlí 2025 er svo bara bónus. Kannski fer ég bara aftur í rækjuna.