#sad

Í gærkvöldi var Donald Trump skotinn í eyrað. Nokkrir særðust, einn lést og leyniþjónustan skaut árásarmanninn – sem var hvítur repúblikani. Trump var fljótur að sjá að þetta væri stórkostlegt ljósmyndatækifæri – og sennilega er reiðin honum líka eðlilegt viðbragð við mörgu – svo hann reisti sig við og rak hnefann á loft og lét taka af sér eina íkonískustu ljósmynd síðustu ára. Manni sýnist sem fátt geti nú forðað því að hann verði forseti Bandaríkjanna – aftur. Og líklega er stórveldistíð Bandaríkjanna þar með í raun liðin undir lok – þetta er hin vandræðalega hnignun sem sjálfsagt beið alltaf. Hnignunartímabilið verður sársaukafullt fyrir þá sem þar búa og fyrir okkur öll sem þurfum að eiga í einhvers konar sambandi við Bandaríkin, hvort sem það er persónulegt eða einfaldlega í gegnum stjórnmál og menningu. Bandaríkin eru ekki bara miðlæg í vestrænu samfélagi – og víðar – það er stundum beinlínis einsog þau séu eini veruleikinn sem nokkru máli skiptir. Þegar yfir lýkur verða Bandaríkin ekki lengur land þar sem fasisti þarf að bjóða sig fram til að ná völdum, þar sem fasisti þarf að þola ágang réttarríkisins vegna glæpa sinna – heldur klassískara einræði, kannski eftir s-amerískri forskrift, land þar sem traust er fyrir bí og forsetinn gerir bara það sem honum sýnist og beitir ríkinu eftir hentisemi. Heimurinn hrynur áður en hann rís á ný. Þegar ég var unglingur var Dan Quayle varaforseti George Bush eldri. Quayle var þekktur fyrir að taka klaufalega til orða og eitt af því fyrsta sem blasti við manni þegar maður fékk aðgang að internetinu – í mínu tilviki tveimur árum eftir að hann lét af embætti – voru heimasíður sem höfðu safnað saman allri vitleysunni sem hann lét út úr sér. „Framtíðin verður betri á morgun“ – „Það er kominn tími til að mannkyn fari til sólkerfisins“ – „Það er ekki mengunin sem er að eyðileggja umhverfið, það eru óhreinindin í loftinu og vatninu“ o.s.frv Og manni fannst þrettán ára gömlum ótrúlegt að annars eins kjáni gæti orðið varaforseti jafn máttugrar þjóðar, þjóðar sem leggur jafn mikið upp úr ágæti og Bandaríkjamenn gera – og varð hneykslaður einsog bara þrettán ára krakkar geta orðið hneykslaðir. Clinton og Quayle tóku síðan við og voru sannarlega oft kjánalegir líka en ekki eins svakalegir – en svo kom Bush yngri og setti alveg nýjan standard, nýjan botn, með dyggri aðstoð Donalds Rumsfeld, varnarmálaráðherra, sem lét reglulega hafa eftir sér svo undarlega hluti, sem hljómuðu jafnvel mystískir í vitleysunni, að þeim var safnað saman á ansi fína ljóðabók. Stærstu tíðindin við forsetatíð Obama – á eftir húðlitnum – voru að forseti Bandaríkjanna væri mælskur. Að það væri reisn yfir honum. Ekki ætla ég að verja neinn þann mann sem rekið hefur bandarísku stríðsmaskínuna en Obama var engu að síður gæddur þeim eiginleika að fá mann til þess að halda með sér. Manni fannst hann eiga virðingu skilda. Og honum fannst hann greinilega þurfa að sannfæra mann, þurfa að sýna reisn. Stærsta ekki-fréttin við forsetatíð hans var að hún myndi valda enn meiri sundrungu í bandarísku þjóðfélagi – ég veit ekki hvenær það byrjaði að gliðna svona svakalega, kannski strax með Clinton, kannski í einhverri fortíð sem ég þekki ekki, en allavega frá og með Bush yngri og 11. september, tepartíruglinu og þeirri ídentítetsöld sem reið svo í garð með ofuráherslu sinni á allt sem skilur okkur að – trú, þjóðerni, húðlit, kyn, kynhneigð – á öllu hinu pólitíska litrófi, sem kom í stað ákveðinnar (að sönnu barnalegrar) áherslu tíunda áratugarins á að allt þetta ætti ekki að skipta máli, heldur ætti hver maður að dæmast á eigin orðum og gjörðum og engu öðru. Svo kom forsetatíð Trump og svo forsetatíð Biden og nú sitjum við – sem höfum Ameríku fyrir heimsmiðju – uppi með einn forsetaframbjóðanda sem ber öll merki þess að vera farinn að kalka (og þau merki gætu orðið miklu meira áberandi áður en Bandaríkjamenn ganga að kjörborðinu – þegar farið er að halla undan fæti eldist fólk stundum mjög hratt) og annan sem er froðufellandi fasisti. Ég held það sé engin ástæða til þess að hafa um það neitt kurteislegri orð. Froðufellandi fasisti er eiginlega í það passlegasta. Og ég held einsog margir að seinni forsetatíð hans verði miklu verri en sú fyrri – hann er reiðari og vondari en stuðningsmenn hans eru líka skipulagðari. Þeir hafa nýtt árin fjögur, kjörtímabil Bidens, til þess að undirbúa sig fyrir það sem þeir töldu sjálfsagt alltaf óhjákvæmilegt – reikningsskilin. Nýtt kjörtímabil Trump verður bara fjögur ár en afleiðingarnar af því að hluta í sundur réttarríkið og koma handbendum MAGA fyrir í áhrifastöðum endast lengur. Svipaðir straumar – svipaðir klofningar – eiga sér svo stað í Evrópu 2-10 árum síðar, að jafnaði. Við hreyfum okkur eftir svipuðum takti, svipaðri músík og endum í svipuðum stellingum – enda löngu byrjuð að dansa. Ég veit ekki hvernig þetta endar í Bandaríkjunum og er ekkert sérstaklega bjartsýnn á að við getum gert margt til þess að einu sinni koma í veg fyrir að eins fari fyrir Íslendingum – eiginlega þoli ég illa að ég skuli vera svo sínískur að ég telji mig einlæglega fátt geta gert annað en að fylgjast með þessu fara í ruslið, en þannig er það samt. Ég held vel að merkja að vandamálið liggi miklu dýpra en í því hver er við stjórnvölinn – leiðtogar okkar eru spegilmyndir af því hver við erum, hvaða reglur við viðhöfum í allri umræðu, hvernig við fremjum lýðræðið dag frá degi. Og við erum ekki bara þjóðfélag sem tignar eigin forheimskun heldur erum við að miklu leyti hætt að trúa á sameiginleg gildi, og þar með hætt að takast á um þessi sameiginlegu gildi. Ég held að þetta botni í einhvers konar trú á hið eina sanna – hvort sem það er MAGA liðið, Covid-umræðan, PC-málefnin, Katrín Jakobsdóttir eða vinstristefnan – að það sé ein sönn og rétt lína sem einungis einhver útvalin(n) geti skilgreint, einhver því sem næst heilagur og ofsóttur af hinu illa – og þá narratífu vann Trump í gærkvöldi, og ekki í fyrsta og ekki í síðasta skiptið. Kannski er klofningur þá ekki heldur nákvæmasta orðið nema maður meini margklofningur, hægri og vinstri, upp og niður, og átakalínur samfélagsins meira einsog línurnar í mölbrotnum spegli en landsvæði með tveimur skotgröfum. Eitt held ég að sé a.m.k. alveg ljóst. Fasisminn verður ekki sigraður nema með tveimur aðferðum. Annars vegar er hægt að gera tilraun til þess afvopna hann með því að hætta að taka þátt í orðræðunni sem honum er eðlislægust – garginu, skriðdrekasamræðunni, frekjunni – og hefja til einhvers vegs og virðingar hófsemi og réttmæti, gera kröfu hvert á annað um vitsmuni og sanngirni. Að halda klassa, halda stíl, halda prinsipp – fara aldrei niður á þeirra plan, gera sanngirnisviðmið þeirra aldrei lögmæt (reyndar erum við gengin svo langt á þessari braut að við neyðumst til þess að svipta fávitaskapinn lögmæti sínu, gera hann ómögulegan, að einhverju sem kallar skilyrðislaust á afsögn, endalok hins pólitíska ferils). Hins vegar er hægt að grípa til vopna og skjóta fasistana alla í hausinn, hvern á fætur öðrum, þar til enginn er eftir og halda því svo áfram þar til nýir hætta að spretta upp. Mér finnst báðar í sjálfu sér ólíklegar en ég veit hvor mér finnst skynsamlegri.