Víða í Svíþjóð er lenska að skipta út orðinu „hvar“ fyrir orðið „hvert“ – „var“ fyrir „vart“. „Hvert eru skærin?“ „Hvert eru skórnir mínir?“ o.s.fr v. Sérstaklega er þetta áberandi í sumum mállýskum og hjá sumum þjóðfélagshópum, t.d. börnum. Einhvern tíma var þetta álítið lýti en hefur nú verið tekið í sátt, a.m.k. í talmáli, kannski svipað og „mér langar“. Mér hefur stundum verið sagt að nýbúar á Íslandi eigi til að furða sig á sumum málvillum Íslendinga og hér er svipað um mig farið – ég get ekki sætt mig við þetta „vart“, þetta misbýður mér og ég skil ekki að svíar láti þetta yfir sig ganga. Og já, ég veit að ég var að skrifa pistil um daginn um að málvöndunarsinnar væru hálfóþolandi. En það voru íslenskir málvöndunarsinnar og ég er nógu mótsagnakenndur – og nógu sáttur við eigin mótsagnir – til þess að finnast líka svolítið rómantískt að fara í stríð við málvillur. Við komum til Svíþjóðar rétt fyrir mánaðamót. Krakkarnir hafa verið í Reymýri allan tímann en við Nadja skutumst til Málmeyjar í tvo daga. Fyrir tilviljun gáfum við hvort öðru áþekkar jólagjafir síðustu jól – hún gaf mér ferð til Málmeyjar með gistingu á lúxushóteli í tvær nætur og ég gaf henni ferð með næturlest til Skellefteå og gistingu á öðru eins lúxushóteli. Fólki finnst almennt að ferð til Málmeyjar hljómi stórfenglega en það er mjög hvumsa að nokkur skuli láta sér detta í hug að bjóða ástkonu sinni til Skellefteå. Þetta er 35 þúsund manna smáborg í norður Svíþjóð sem er helst þekkt fyrir löngu niðurlagðar gullnámur. Ég er auðvitað talsverður norðursinni og hef fulla trú á að þetta sé skemmtileg borg en verð þó að viðurkenna að ég valdi hana fyrst og fremst vegna þess að ég var að leita að stað sem hvorugt okkar hefði komið á og þangað sem hægt væri að ferðast með næturlest – en Nadja hefur mikla ást á slíkum ferðamáta, en ekki ég (sökum lengdar minnar og stuttra rúma í lestum). Svo er þarna þetta hótel, Wood Hotel, ein stærsta trébygging heims. Og allavega nokkrir góðir veitingastaðir. Ég hef svo sem nefnt það hér einhvern tíma áður að Svíþjóð getur verið svolítið erfið viðfangs. Planið var alltaf að taka næturlest fram og til baka og gera þetta þannig að þriggja nátta ferð. Og á heimasíðu sænsku járnbrautanna birtust margar næturlestir skráðar sem kæmu í sölu síðar – einhvern tíma í byrjun júní birtist loks næturlestin til Skellefteå en bakaleiðin lét standa á sér. Að síðustu áttaði ég mig á því að allar þessar ferðir færu ekkert í sölu og þó ég skoðaði bara morgundaginn á pöntunarsíðunni birtust líka margar ferðir sem „kæmu í sölu síðar“ – en yrði augljóslega aldrei neitt af. Lausnin var að taka lest á öðrum degi til Sundsvall – sem er næstum jafn spennandi borg og Skellefteå – gista þar eina nótt og halda svo áleiðis til Hrábæjar í Vesturási (það var reyndar alls ekki auðvelt að bóka þá leið heldur – SJ lét mig panta það eftir alls konar krókaleiðum, en það hafðist þó). Þessa ferð förum við í vikunni. Ég dokúmenteraði vel og vandlega á Facebook átök mín við sænska bjúrókrasíu, ríkis og einkarekna, þegar við bjuggum í Vesturási 2020-21, og hversu erfitt það er að gera nokkurn skapaðan hlut ef maður er ekki með sænska kennitölu, sænskan bankareikning, Swish og sænskt símanúmer. Margar breytingar hafa átt sér stað síðustu ár og eru þær fæstar til hins betra. Verst allra er nýtekið ástfóstur svía við smáforrit. Þannig ætluðum við að fara á „ókeypis“ tónleika í Gröna Lund í Stokkhólmi en eyddum næstum klukkustund í að hlaða niður öppum og skrá okkur í klúbba og fara inn á „mínar síður“ til að finna réttan QR-kóða sem veita myndi okkur aðgang að tívolíinu – og þurftum vel að merkja á endanum samt að borga tæplega 30 þúsund fyrir fjóra, þreytt og pirruð en sú yngsta var þó allavega glöð að geta þá skotist í hið fræga draugahús, enda þá með armband sem átti að duga í öll tæki. Þegar inn var komið kom í ljós að armbandið gilti í öll tæki nema fræga draugahúsið og þar þurftum við að punga út 1500 kalli í viðbjóð. Viðbót, meina ég. Nokkrum dögum síðar fórum við svo á veitingastað – stór hópur, sennilega 12-14 manns – settumst niður og biðum eftir afgreiðslukonu sem kom og spurði okkur hvort við hefðum komið áður og hvort við þekktum hugtakið „app-veitingastaður“. Upphófst nú nokkuð moj við að reyna að hlaða niður öppum í ólíka síma – einhver stakk upp á að eitt okkar myndi ná í appið og sjá um að panta fyrir alla, en þá hefði viðkomandi, auk þess að bera ábyrgð á pöntunum (sem afgreiðslufólk gerir venjulega), líka þurft að standa í uppgjöri við hina ólíku hópa um reikninginn. Að mojinu loknu ákváðum við fara frekar á indverskan veitingastað í næstu götu. Á leiðinni út tilkynnti mín heittelskaða afgreiðslufólkinu að þetta fyrirkomulag „suger“ – ég held maður hljóti að þýða það með sögninni „sökkaði“ – og það mætti gjarnan koma því áleiðis til þeirra sem rækju staðinn og þætti sniðugt að pína fólk svona. Börnunum þótti þetta fádæma ókurteisi og gott ef ekki ólíðandi orðbragð og snupruðu móður sína (í einhverjum tilvikum frænku) viðstöðulaust alla leiðina yfir á indverska staðinn. Annars fer nú ágætlega um okkur. Veðrið mætti vera betra. Svolítið mikið rok og rigning þótt hitastigið sé hærra en heima. Við Aram eigum tvær vikur eftir af ferðinni en Nadja og Aino verða í mánuð til.