Síðustu tíu dagar hafa verið svolítið yfirdrifnir. Fyrst fór ég suður á stífar fiðlaraæfingar – sem enduðu á sýningu fyrir pakkfullu Þjóðleikhúsi síðasta laugardagskvöld. Sýningin tókst held ég að mér sé óhætt að segja afar vel – þrátt fyrir erfiðar aðstæður og fáein skakkaföll í leikaraliðinu. Forföll kostuðu okkur tvo leikara og einn músíkant, og óvænt veikindi kostuðu okkur eina aðalstjörnuna til viðbótar. En með nokkrum hlutverkaskiptingum, tveimur nýjum kórliðum og einum bjargvætti sem var sóttur alla leið til Leipzig, og það eiginlega á allra síðustu stundu, gekk þetta sem betur fer allt upp. En til þess máttum við – 40-50 manna hópur – líka taka okkur margra daga frí frá vinnu, koma okkur sjálf suður, redda okkur gistingu og æfa svo bókstaflega frá morgni til kvölds. Sveit og lúin og marin og illa lyktandi. Og ekki skil ég hvernig tæknifólkinu okkar tókst að láta allt sitt ganga upp – að flytja lýsingu og hljóð úr einu rými í annað með nánast engum fyrirvara eftir margra mánaða sýningahlé. Aðstaðan í Þjóðleikhúsinu er auðvitað ágæt en sýningin var hönnuð inn í allt annað rými og mér finnst jafn óhugsandi að þetta hafi tekist, þótt ég hafi horft á það gerast, og skil ekki hvernig það hefði átt að takast ef við hefðum komið inn í húsið daginn fyrir – einsog var víst upprunalega planið. Þá urðu eymsl á sýningu – Dýri „salto mortale“ Arnarson fór úr hnjálið í síðasta heljarstökkinu sínu í rússasenunni fyrir hlé, en var (eftir að hafa ráðfært sig við hjúkrunarfræðing, sem við áttum í leikhópnum) mættur í flöskudansinn sem gyðingur eftir hlé. Ég varð sjálfur fyrir öllu ómerkilegri meiðslum í brjóstkassa, sem ég tók ekki einu sinni eftir fyrren tveimur dögum seinna – sennilega eftir slagsmálasenu í sama brúðkaupi, og meira af því ég er að breytast í gamalmenni en af því ég sé heljarstökkvandi ofurhugi. Í dag er ég aftur farinn að geta andað djúpt og lyft handleggjunum og fyrir það er ég þakklátur. En þetta var í heildina stórkostlegt. Þá skipti ekki minnstu fyrir okkur í hópnum að nærri því allir – líka þeir sem forfallast höfðu á æfingunum og gátu ekki verið með í sýningunni – voru með okkur lokadaginn, þótt það væru ekki allir á sviðinu. Því þetta var umfram allt annað samvinnuverkefni. *** Á sunnudeginum eftir sýningu flugum við fjölskyldan svo til Svíþjóðar – ekki þó fyrren eftir að ég og Aino höfðum litið við á fjölskyldupönknámskeiði í Iðnó. Sem er í sjálfu sér svolítið skrautlegt konsept – að pönk sé fjölskylduvænn hlutur sem þú lærir á námskeiði er eitthvað sem hefði áreiðanlega farið öfugt ofan í einhverja pönkara á sínum tíma. En námskeiðið var skemmtilegt. Í Stokkhólmi gistum við svo tvær nætur hjá gömlum vinum, spiluðum spil, drukkum Cava og átum snakk. Á mánudeginum litum við í Gröna Lund – sem er skemmtilegur skemmtigarður sem haldið er í gíslingu af appsjúkum og gráðugum kapitalískum bjúrókrötum – og þar sáum við tónleika með hljómsveitinni Dina Ögon. Sem var ágæt. Daginn eftir átum við ís og náðum ferjunni yfir til Finnlands. Aram og Nadja fóru út í sveit en við Aino héngum í Helsinki einn sólarhring til þess að hitta vini okkar, fara í sund og borða vöfflur, og svo komum við í kjölfarið. Nú erum við skammt fyrir utan Ekenäs – gestir á fjórða vinaheimilinu frá því síðasta föstudag. Ég er svo þreyttur að ef ég hef verið vakandi í meira en klukkustund langar mig bara að fara aftur að sofa. Og skiptir þá engu hvað ég hef farið oft að sofa þann sólarhringinn. Lúrarnir þyrftu helst að vera samhangandi yfir daginn og renna saman við nætursvefninn í nokkrar vikur. Þá kemur sér ágætlega að vera í sumarfríi en mig grunar samt að ég þurfi að gera eitt og annað – og einhverjar hugmyndir hafði ég nú líka um að vinna í fríinu líka. Sjáum til hvernig það fer.