Orðsendingar úr kynhlutlausu bergmálsklefunum

Kannski er ekkert skrítnara við bergmálshellana en að þar skuli svona mikið vera þráttað. Ég veit ekki betur en við séum öll meira og minna sammála um það eitt að lífssýn okkar sé að þrengjast og bilin sem skilja okkur að – kynslóðir, búseta, fjárhagur/stétt, sjálfsmynd – að breikka vegna þess að við eigum minna samneyti hvert við annað, sérstaklega fólk sem er okkur ósammála; en á sama tíma eru allir sífellt gargandi hver á annan. Sem þýðir væntanlega að í bergmálshellunum sé gestkvæmt – þar sé statt og stöðugt fólk úr öðrum bergmálshellum með aðrar skoðanir að viðra þær með þjósti? Eða hvað? *** Það er margt undarlegt í umræðunni um kynhlutlaust mál og kannski er sumt af því einkennandi fyrir það hvernig skautun virkar. Ég hef séð fólk tína til alls konar hluti gegn kynhlutlausu máli sem eru miklu eldri en það – t.d. að maður skipti hratt úr málfræðilegu kyni í raunkyn í miðri setningu, einsog þegar maður segir „Fólkið á kajanum var blautt og hrakið enda höfðu þau ferðast lengi“ eða „Mikið mæddi á ráðherranum þessa helgi enda var frumvarpið sem hún lagði fram í hættu“. Þetta hef ég alltaf gert og verið kennt að sé í stakasta lagi – og mér finnst sjálfum umtalsvert klaufalegra að vera sífellt að tala um að „það“ hafi gert hitt og þetta í aukasetningu eftir aukasetningu. Þá finnst mér áhugavert að enginn, mér vitanlega, hafi nefnt að í nánasta ættingja íslenskunnar – færeyskunni – er að minnsta kosti vísir að kynhlutlausu máli og ævinlega talað um „öll“ frekar en „alla“ nema þegar sérstaklega er vísað til karla. Ég man að mér fannst þetta skrítið þegar ég bjó í Þórshöfn – Öll fara á ball á helginni. En líka svolítið töff. Í finnsku, sem er vissulega ekki mjög skyld íslensku þótt hún sé norðurlandamál, er síðan bara eitt orð fyrir hann og hún – hän – og gengur upp alveg án þess að allt fari á hliðina eða allir verði ruglaðir. Annað áhugavert í norrænu kynhlutleysi er sú tilhneiging í Svíþjóð til þess að nóta hán (eða réttara sagt „hen“) sem kynhlutlaust orð á meðan á Íslandi það er eiginlega bara notað um kvár. Það er að segja, í fréttum í Svíþjóð er hán stundum notað ef ekki er vitað hvers kyns viðkomandi er. „Vegfarandi sást veifa nasistafána í kröfugöngu. Hán hvarf skömmu síðar.“ En þá ber auðvitað að geta þess að nafnorð í sænsku – einsog vegfarandi – eru ekki kynjuð á sama hátt og á íslensku. Vegfarandi væri annars „den“. Svo finnst mér líka sumir málfræðingarnir furðu ferkantaðir í skilningi sínum á tungumálinu. Tungumálið er ekki fullkomlega rökrétt og margt mun aldrei skiljast nema af samhengi sínu og setningar verða aldrei 100% skýrar – margt af því sem við skiljum ágætlega er í raun óskiljanlegt – þetta vita allir sem hafa lesið Wittgenstein. Það er fullkomið rugl að taka dæmi um einhvern misskilning sem gæti komið upp ef fólk hagar máli sínu svona eða hinsegin við þessar eða hinar aðstæðurnar og segja að orðnar breytingar séu ómögulegar þess vegna. Tungumálið úir og grúir í alls konar rökleysum og rugli og er satt best að segja ekki verra fyrir það. En svo ég tali gegn málstað kynhlutleysunnar líka – og ekki bara til að gæta jafnræðis – þá hef ég talsverðar efasemdir um að tungumál breyti hugsun á þann máta sem sumir talsmenn þess virðast meina (og ég held að þar séu málvísindamenn mér upp til hópa sammála í seinni tíð). Að það sé til dæmis hægt að nota það til þess að útrýma fordómum. Auðvitað þurfum við að eiga orð til þess að lýsa veruleikanum sem blasir við okkur en handstýring á orðavali verður oft ekki til annars en að breyta kurteisisstaðli og búa til orðhengilsþrætur sem ekkert leiða og ekkert segja. Þeir sem aðhyllast þá kenningu að tungumálið móti hugsun vitna gjarnan til málvísindamannsins Victors Klemperer sem hélt frægar dagbækur á tímum þriðja ríkisins þar sem hann dokumenteraði ýmsar breytingar sem urðu á málinu á þeim tíma – og halda því fram að þar sjái maður svart á hvítu hvernig tungumálið móti sýn fólks á umhverfi sitt. En þeir sem lesið hafa bækurnar vita að þar er því alls ekki haldið fram að tungumálið hafi breytt veruleikanum, og raunar frekar lagt upp með að því hafi verið öfugt farið og tungumálið aðlagast breyttum tíma, endurspeglað það sem fólk vildi hugsa. Það er að segja, tungumálið breytti ekki veruleikanum heldur breyttist með honum og var síðan notað til þess að viðhalda honum, til þess að festa orðinn veruleika í sessi. Klemperer varar við þessum tilhneigingum til tískuorða og handstýringar sem hann upplifir sem kúgunartaktík sem gangi út á að þrengja að tjáningu og beina umræðunni í farveg meginstraumsins. En þá er hann auðvitað að tala um meginstraum nasismans. Sem er kannski svolítið annað dæmi, þótt Klemperer hafi líka verið að tala á almennum nótum. Annars er líka of lítið gert úr því hvað það hvernig við tölum er bæði sjálfsmyndarskapandi – þ.e.a.s. segir okkur hver við erum – og hópmyndarskapandi – þ.e.a.s. segir öðrum hvaða hóp við tilheyrum. Og hvernig málsnið skapar líka gjár – og hefur alltaf gert. Ég tók eftir því á VG þingi sem ég var beðinn um að tala á í fyrra eða hittifyrra að kynhlutlausa málið sagði manni með nánast fullkominni nákvæmni hvort að sá sem hafði orðið væri borgar-vinstrigrænn eða landsbyggðar-vinstrigrænn. Sú sem hafði orðið, meina ég. Hán sem hafði orðið. Línurnar voru hlægilega skýrar. Vesturlandabúar hafa heldur aldrei verið jafn uppteknir af þessum sjálfsmyndum sínum – sem sýnir sig á allri umræðu, hvort sem hún er hægri eða vinstri, þjóðernissinnuð eða prógressíf kynjapólitík. Og vel að merkja gefur kynhlutlaust mál líka þeim sem vilja markera sig utan hópsins færi á að gera það – með því að leggja ofuráherslu á „allir“ og „menn“ – og kynhlutlaust mál sem einhvers konar siðferðislegt skylduboð skapar síðan óverðskuldaða paranoju gagnvart þeim sem finnst „konur bara vera menn“ og hafa rétt á að vera ekki tortryggðir fyrir sína máltilfinningu, jafnt þótt þau séu gamaldags (að ég tali nú ekki um þegar þau eru einfaldlega gömul ofan í kaupið). *** Skemmtilegast í þessu öllu saman er samt alltaf að það skuli vera þeir femínistarnir og þær karlremburnar.