Forsetakosningarnar snúast um Katrínu Jakobsdóttur. Og það er ekki Katrínu að kenna eða stuðningsmönnum hennar heldur andstæðingum Katrínar – ekki meðal frambjóðenda heldur úti í þjóðfélaginu. Ég held þetta afhjúpi eitthvað sem maður kannski vissi um sárindin innan raða vinstrimanna sem höfðu fyrir rúmum áratug ofsalega tröllatrú á Katrínu (og hafa sumir enn, þótt vinsældakapítalið hafi talsvert þynnst). Og þótt ég haldi að það sé vissulega orðum aukið hjá bæði Jóni Ólafssyni og Berglindi Rós að það sé fyrst og fremst vegna þess að hún sé kona held ég að sárindin séu meiri þess vegna – kannski bara 10% meiri, en meiri samt. Ég sagði mig vel að merkja sjálfur úr VG fyrir löngu út af einhverjum málamiðlunum sem mér hugnuðust ekki – hef skammast mín fyrir að hafa kosið þessa stjórn sem hefur svo oft brugðist. Og kýs ekki Katrínu núna út af þeim farangri sem er óhjákvæmilegt að hún flytji með sér. Ég er hins vegar ekki nema svona 30% sammála þeim sem tala mest gegn Katrínu og finnst réttast að nota öll orðin í orðabókinni og öll upphrópunarmerkin – kannski varla nema 25%, 15%, 10%, sum þeirra eru hreinlega komin langleiðina með að sannfæra mig um að kjósa hana. Af gremju í þeirra garð. Það er áreiðanlega meðvirkni en það er líka þreyta gagnvart því sem mér finnst ekkert vitlaust að kalla trumpisma og á sér stað í öllum herbúðum þessa dagana – og lýsir sér á svona ippon-taktík, að taka alltaf stærst upp í sig, ræða við annað fólk einsog maður keyrir jarðýtu yfir hús (eða piparúðar mótmælendur) með það eitt fyrir augum að ná einhverju fyrirframgefnu markmiði. Látum vera að kjósa taktískt – en það er þreytandi að horfa á fólk stunda samræður taktískt, því það er í þessari samræðu sem lýðræðið fer fram, miklu frekar en í kjörklefanum, þar sem við hugsum sem samfélag, og ef samræðan er óheiðarleg er lýðræðið „rotnandi hræ“ svo ég vitni í einn gamlan og sínískan karl sem færði sér rotnun þessa hræs í góð nyt. Annars finnst mér þetta líka kalla á samræðu um hvað sé ofsi og hvað ástríða. Sú lína getur augljóslega ekki legið nákvæmlega á sama stað hjá tveimur einstaklingum – og það sem ég upplifi sem ástríðu hjá samherja mínum er líklegt að ég upplifi sem ofsa hjá andstæðing mínum, einsog sést berlega á undirtektum og útleggingum á öllum greinum sem komið hafa út upp á síðkastið og dreift hefur verið á Facebook. Þar er bæði ljóst að greinarhöfundar eru mikið til bara að keppast um hver sé fastastur fyrir og að lesendur meta þær nær einvörðungu út frá þeirri afstöðu sem þar birtist, frekar en því hvort nokkurt vit sé í hugsuninni eða einu sinni stíll á skrifunum. Það sem einum finnst blasa við finnst öðrum frámunalega fáránlegt – og kæmi okkur kannski ekki á óvart ef þar færu andstæðingar sem hefðu eytt lífinu í ólíka lífssýn, en nú fara þar oftar og oftar andstæðingar sem hingað til hafa verið með svipaðar grundvallarskoðanir á tilverunni. Samherjar úr Palestínubaráttunni – sem dæmi. Samherjar úr náttúruvernd. Samherjar úr jafnaðarmennsku. Og svo framvegis. En línan getur ekki bara legið þannig að ef andstæðingur minn byrsti sig æpi ég „einelti“ og saki svo viðkomandi um siðblindu. Samfélag sem getur ekki ræðst við af virðingu endar á því að verða popúlismanum að bráð – þar vinnur bara sá sem hefur hæst. Um það eigum við mýmörg mjög nýleg dæmi og þar erum við á sömu braut og þjóðfélögin í kringum okkur. En samfélag þar sem íbúar þurfa að tipla á tánum hver í kringum annan eru ekki heldur mjög lýðræðisleg – „kurteisi kostar ekkert“, stóð á barmmerkjum þegar ég var unglingur, en hún gerir það bara víst. Kurteisi við vald sem fer yfir mörk kostar helling. Stundum er ástríðan hreinlega nauðsynleg – sem og ókurteisin sem henni fylgir. Ég hef sagt það áður að það þarf meira til að ofbjóða mér í þeim efnum en baráttu um það hvort Halla T eða Katrín J fær að bera forsetabuffið næstu fjögur árin – mér finnst það ekki það ragnarakaspursmál sem mörgum öðrum finnst – og finnst ágætis þumalputtaregla að fara sparlega með hneykslan mína. Og ég ákveð auðvitað ekki upp á mitt einsdæmi hvenær sé komið nóg og þjóðfélagið sé á vonarvöl. Það gerir þjóðfélagið sjálft.