Siðrof, alla daga siðrof

Mig rámar í að hafa verið kominn með svipað óþol fyrir forsetakosningunum síðast. En á sama tíma er einsog mig minni að mér hafi nú bara líkað ágætlega við flesta frambjóðendurna – ef ekki bara alla. Ég kaus Andra Snæ og hafði fulla trú á að hann yrði ágætur forseti en varð ekki fyrir neinum vonbrigðum þegar Guðni vann. Og um daginn var ég í pönkgöngu með Sigurjóni Kjartanssyni um Ísafjörð og stóð fyrir aftan Guðna og hugsaði hvað það væri mikil synd að hann væri að hætta og hvað hann hefði verið heilnæmur. Í einhverri könnun svaraði ég því meira að segja til að hann væri eftirlætis forsetinn minn – meira eftirlæti en Vigdís, sem voru kannski ýkjur í augnabliksæði, en samt. Og Elísabet Jökuls er minn eftirlætis forsetaframbjóðandi allra tíma. Það er einsog minningin sé tvískipt – þetta hafi annars vegar verið glatað og hins vegar skemmtilegt. Ætli því hafi ekki verið eins farið líka síðast að það hafi fyrst og fremst verið kosningaskjálftinn í æstustu fylgjendum frambjóðenda sem hafi valdið mér óþoli? Frekar en sem sagt frambjóðendurnir sjálfir eða persónulegar herferðir þeirra. Skrímsladeildirnar eru víða og þær eru kannski misslæmar – þeim gengur misgott til – en þær eiga það allar sameiginlegt að halla máli einsog þær frekast ráða við og gera jafnvel minnsta tittlingaskít að tilefni til þess að grípa í öll upphrópunarmerkin í bókinni. Það eru alveg frambjóðendur í boði í ár sem ég myndi helst ekki vilja að ynnu. En ég get samt ekki hugsað mér að kjósa taktískt – að kjósa gegn einhverjum. Ég orðaði það þannig í samtali um daginn að ef ég gæti ekki kosið með hjartanu í forsetakosningum þá gæti ég það sjálfsagt aldrei, en ég held það hafi verið svokallað cop-out – í raun og veru finnst mér bara afskræming á lýðræðinu að kjósa taktískt, sama í hvers lags kosningum það er. Það er mórölsk afstaða hjá mér frekar en eitthvað annað. Kannski Kantísk – einhver tilfinning fyrir því að það sé „sleip brekka“ ef allir byrja að reyna að sjá út hvað hinir ætli að kjósa og fari svo að kjósa einhvern fimmta, sjötta, sjöunda valkost af því hann virðist eiga séns. Að við förum að dæma pólitíska valkosti út frá sennilegum vinsældum hjá öðrum frekar en eigin hugsjónum. Ég segi ekki að ég myndi aldrei kjósa taktískt. En það þarf allavega meira til en það sem er í boði. Ef það verður einhvern tíma bara svona Macron-Le Pen í boði skal ég fara og kjósa frjálshyggjupésann. Akkúrat núna finnst mér líklegast að Halla Tómasdóttir vinni þetta. Ekki kannski mest mannkosta sinna vegna heldur vegna þess að hún skorar hæst af andstæðingum Katrínar Jakobsdóttur – sem hafa nánast lýst því yfir að það verði siðrof ef hún verði forseti. Hún er á flugi. Og síðast kom hún betur út í kosningununum en skoðanakönnunum. Og margir ætla greinilega að hlamma sér á hvern þann sem gæti unnið Katrínu. Að vísu spáði ég því fyrir nokkrum vikum að Halla væri með of mikinn taparastimpil á sér eftir síðustu kosningar til að fara yfir 10%, svo ég veit ekki hvað það er að marka mig í svona spám. Og kannski ýtir það undir þessa tilfinningu hjá mér að hún sé núna óstöðvandi. (Ég ætla að kjósa Jón Gnarr, er ég svona 95% viss um, ef þið skylduð vera að velta því fyrir ykkur).