Sannleikurinn um eðlufólk

Hvenær gerðist það eiginlega að Íslendingar fóru að verða svona hallir undir samsæriskenningar amerískra jaðarrepúblikana, malandi um World Economic Forum og Davos og Soros, og hvað er langt í að umræðan um eðlufólkið nái upp á yfirborðið líka? Hvers vegna var verið að spyrja forsetaframbjóðendur út í fóstureyðingar í sjónvarpinu mínu í gær? Byrjaði þetta í hruninu – þegar reiðin rann saman við vonbrigðin yfir að takast ekki að breyta neinu? Og þurfti að finna sér nýjan farveg? Fékk þessi reiði kannski vítamínsprautu í covid-rifrildinu um hvort stjórnvöld væru að reyna að myrða okkur með bóluefninu eða með því að senda okkur öll hóstandi út að smita hvert annað í tilraunaskyni fyrir lyfjafyrirtækin? Í fordæmaleysinu þegar veruleikinn virtist leysast upp í augnablik? Eða hófst þetta kannski strax ellefta september? Ég man eftir róttæklingum frá fyrstu árum aldarinnar – vinum mínum – sem settu upp tjald við Tjörnina í Reykjavík til þess að sýna heimildarmyndir. Ég sat meira að segja yfir þessum myndum einn dag – passaði tjaldið. Sumt af þessu voru bara myndbönd af skrítnum körlum að röfla um eitthvað einsog burðarþol tvíburaturnanna og bræðslumark stáls í 3-4 klukkutíma á meðan maður stóð út í gætt og reykti. Efni sem hefði sennilega orðið hlaðvarp eða YouTubemyndband í dag. Annað var vandaðra. Mig minnir að þarna hafi líka verið sýnd mynd um Robert Faurisson – franskan bókmenntafræðing sem hélt því fram að helförin hefði aldrei átt sér stað og var dæmdur fyrir það – en kannski sá ég hana annars staðar. Í þeirri mynd tók allavega Noam Chomsky til máls og varði málfrelsi Faurrisons. Það fannst manni, sem róttækum vinstrimanni á þeim tíma, vera fullkomlega réttlát afstaða – kannski sú eina réttláta. Út frá prinsippinu sem Chomsky orðaði fyrir mann að ef maður styddi ekki málfrelsi þeirra sem segðu hluti sem manni þættu óviðurkvæmilegir styddi maður í raun ekki málfrelsi heldur bara viðhald sinnar eigin heimsmyndar – og í framhaldinu stöðnun og intelektúal dauða. Kenningar Faurrisons væru auk þess augljós vitleysa og það væri hægðarleikur að mæta þeim sem slíkum – þar stæði ekki steinn yfir steini. Það var kannski ekki almennt álitið að með málfrelsi hlytu bestu hugmyndirnar að vinna – því auðvitað var öllum ljóst að auðvaldið gæti hagrætt myndinni sér í hag – en það þótti ljóst að án málfrelsis gætu þær ekki annað en tapað. Prinsippin væru þannig að í vissum atriðum stæðu hinir göfugu – wokesterar fyrsta áratugs þessarar aldar – einfaldlega með óvinum sínum. Af því það væri rétt. Ég átta mig ekki á því hvenær afstaða róttækra vinstrimanna í þessu efni breyttist – hvenær sú afstaða sem í dag mótar alla umræðu og löggjöf um hatursorðræðu varð til (og augljóslega hafði hugmyndafræði Chomskys aldrei yfirhöndina – þá hefði Faurrison aldrei verið rekinn eða dæmdur – sem gerðist fyrst 1979 og aftur 2006). Sjálfsagt gerðist það bara smám saman og var viðbragð við auknum sýnileika hatursorðræðu. Eftir því sem réttindi minnihlutahópa urðu sjálfsagðari því reiðari urðu þeir sem þoldu ekki þróunina, og því einangraðri og orðljótari; og á sama tíma veitti internetið okkur sífellt betri innsýn í gardínulausa tilveru þeirra. Það var ekki lengur bara verið að uppnefna fólk á einhverri lokaðri kaffistofu heldur á almannafæri – á bloggum og kommentakerfum og svo samfélagsmiðlum – og þetta var ekki einn og einn eingraður vitleysingur heldur gátu allra verstu vitleysingarnir beinlínis rottað sig saman og magnast hver af öðrum. Og, sem skipti kannski meira máli, þegar þeir voru komnir nokkrir saman gátum við hin farið að ímynda okkur að þetta væru risastórar hersingar. Þrjátíu manns á sama kommentakerfinu virkar nefnilega einsog breið þjóðarsamstaða, þótt að baki geti bara verið þéttur vinahópur – sem nær ekki 0,1 PRÓMILLI af þjóðinni. Aldrei hafa jafn fáir getað virst jafn margir og þar með jafn hættulegir. En það breytir svo sem engu um upplifun minnihlutahópanna af óhróðrinum. Eða hinu að margir þeirra sem kvarta í dag yfir skorti á málfrelsi eru bara að kvarta undan gagnrýninni umræðu. Við erum öll svo ægilega viðkvæm. Aftur að tjaldinu. Á þessum tíma stafaði manni af einhverjum orsökum nógu lítil ógn af vitleysingum til þess að það mætti sýna svona og velta efninu einfaldlega fyrir sér – var eitthvað til í þessu? Hvað var þetta með burðarþol stáls? Maður gat óhræddur kynnt sér afstöðu þeirra sem afneituðu helförinni án þess að hafa áhyggjur af því að maður sjálfur – og varla nokkur annar – færi að falla fyrir rökunum. Þetta var bara forvitnilegt – ekki síst bara frá mannfræðilegu sjónarhorni, að þetta væri til. Kannski vegna þess að það var ekki svo auðvelt að sökkva sér ofan í kanínuholur kenninganna – efnið var einfaldlega ekki jafn ínáanlegt. Í dag smellir maður á einn hlekk og svo annan og stígur svo ekki upp frá tölvunni fyrren tveimur mánuðum síðar og þá með algerlega nýja heimsmynd. Og þar með er nám alltíeinu orðið hættulegt. Sem og allar kenningar sem standa utan þess sem almennt eru viðurkenndar. Af því gagnaflóðið er orðið svo mikið – og að einhverju leyti fjölbreytt og mótsagnakennt – að maður getur í raun ratað hvaða leið sem er í gegnum það, treyst sínum eigin sérfræðingum og fundið það sem styður það sem maður vill halda um heiminn, eða til vara látið aðra spekúlanta leiða sig í gegnum völundarhúsið og mála upp fyrir sig einhverja spennandi mynd, sem maður hefur sjálfur hvorki meiri né minni forsendur til þess að dæma úr leik en þá sem menntamálaráðuneytið vill helst hafa á námsskrá og viðskiptaráð vill hafa í fréttunum. Og þá stendur valið skyndilega milli þess að trúa á eðlufólk eða treysta hinu opinbera og/eða markaðinum fyrir heimsmynd sinni. Ef það versta við upplýsingaóreiðuna er allar röngu upplýsingarnar og fólkið sem trúir á þær, þá er það næstversta alveg áreiðanlega vantraust allra upplýsinga nema hinna opinberu útskýringa – og þar með vangetan til þess að efast um eða endurskoða heimsmyndina, einu sinni hýpóþetískt (án þess að breytast í eðlufólk).