Í morgun sá ég því haldið fram – um gamla nóvellu – að í henni væri ekki einu orði ofaukið. Hún væri fullkomin. Og af því ég er með mótþróaárátturöskun – ógreindur, erum við það ekki flest? – langaði mig strax að fara upp í hillu (ég á eintak) og finna í henni að minnsta kosti eitt orð sem væri óþarfi. Ég yrði hissa ef ég fyndi ekki strax á fyrstu síðu setningu sem mætti stytta um eitt orð eða fleiri án þess að breyta merkingu hennar til hins verra. En sennilega meinar þetta enginn bókstaflega. Líklega meinar fólk oftast: í þessari bók er ekki bruðlað með orð. Eða eitthvað í þá áttina. Og er áreiðanlega arfleið frá þeim tíma er við höfðum minni tíma – eða lásum meira af vaðli. Í dag eru langflestir textar sem maður les á bilinu 20-100 orð. Statusar og þannig. Og flest sem er 200-600 orð skimar maður bara. Fréttagreinar. Blogg. (Til upplýsingar er ég kominn í rétt rúmlega 150 orð núna). Það sem er komið yfir 600 orð þarf maður að ákveða að lesa – ætla ég, eða ætla ég ekki, að gefa mér tíma til að lesa þetta? (Til upplýsingar: Það tekur um 2-3 mínútur að lesa 600 orð í hljóði en um 4 mínútur að lesa þau upphátt – segjum 30 sekúndur að skima). Allt yfir 1.000 orðum – sem tekur um 7 mínútur að lesa – telst vera „a long read“. Allt yfir 20 þúsund orðum er orðið efni í stutta bók. 60 þúsund orð er meðallöng bók. 100 þúsund orð er löng bók. Nóvellan sem ég nefndi – eða nefndi réttara sagt ekki – hér áðan er ekki nema 14.466 orð. Og engu þeirra þykir ofaukið. Stundum er sagt um leiðinlegar bækur að þær hafi verið 100 blaðsíðum of langar. En auðvitað er það fyrst og fremst ljóður á leiðinlegum bókum. Eða aðfinnsla fólks sem leiðist einfaldlega að lesa. Sem segir manni að í raun sé það alls ekki lengdin heldur leiðinleikinn sem sé ámælisverður. Og hefði ekki endilega gert þessum 100 blaðsíðum of löngu bókum neitt gott að vera 100 síðum styttri. Eini kosturinn hefði verið að þær hefðu klárast fyrr. Sem eru ekki nein meðmæli með hinum síðunum. Það gætir líka ákveðins misskilning gagnvart orðafjölda. Eða þyngd orða réttara sagt. Flestu fólki finnst ekki þægilegt að lesa fá orð með mikilli merkingu. Þannig texti er stundum kallaður torf og torf getur þjónað ákveðnum tilgangi – það getur ekki allt verið léttmeti. Og maður les þannig texta ekki hraðar. Það tekur bara tiltekinn tíma að melta tiltekna merkingu. Þetta er svolítið spurning um þéttni í texta. Til þess að texti sé leikandi – að ég tali nú ekki um léttleikandi, tindilfættur og valhoppandi – þarf að vera rými í honum. Rétt einsog í tónlist, þar sem þagnirnar milli nótnanna eru líka tónlist. Í ritlist eru þetta ekki bilin milli orða (sem þjóna öðrum tilgangi) heldur merkingarminni orð og setningar, stuttir og langir útúrdúrar sem skapa rými, skapa loft, svo hugsunin fljóti vandræðalítið um. Það eru til verk sem hafa mjög háa þéttni – eru intens, jafnvel í langan tíma, fleiri hundruð síður, þar sem það þjónar hlutverki og er fallegt. En þau eru líka mónótónísk frekar en dýnamísk. Og höfundar sem beita (dómgreindar- og tilgangslaust) sama intensíteti þegar þeir lýsa litlu og stóru eru yfirleitt bara eitthvað að misskilja – þeir eru að leika „rithöfunda“ sem eru að skrifa „bókmenntir“ frekar en að vera rithöfundar og skrifa bókmenntir. Sá sem heldur að allar setningar í skáldsögu eigi að komast í „Perlur málsins“ veit ekki hvað skáldsaga er eða hvernig hún virkar. Ég segi ekki að það að skrifa texta þar sem engu er ofaukið sé sambærilegt við að skrifa tónverk með engum þögnum en það kallar óneitanlega fram svipuð hugrenningartengsl. En ef við gefum okkur að það sé líka verið að meina að þagnirnar séu allar á réttum stöðum – merkingarléttustu orðin og setningarnar – þá situr samt eftir hugmyndin um listaverk sem eitthvað sem er fullkomið á einn máta en alls ekki með neinu fráviki. Sem er fáránleg. Kannski væri Appetite for Destruction bara enn betri með einu aukalagi. Og kannski hefðum við aldrei saknað Rocket Queen ef við vissum ekki að það gæti verið til. Það sem er fullkomið er nefnilega fullkomið í eðli sínu – og stundum er eðli þess að vera 100 síðum of langt (eða of stutt) eða með „ofauknum“ orðum á stangli eða auka útlimum og nærsýnt og stundum er fullkomnið eðli þess fólgið í því að vera á einhvern ótrúlega sérstakan hátt meingallað.