Óreglulegar forsetningar

Ég get ekki ákveðið hvern ég vil kjósa. Ég er búinn að horfa á kappræðurnar á RÚV og lesa fullt af viðtölum en mér finnst bara ekki neitt af þessu sannfærandi. Það er enginn sem kallar á mig með einlægni sinni og lífsþrótti – þetta virkar allt eitthvað æft og leikið. Ekki síst handahreyfingar Höllu Hrundar og talandi Steinunnar Ólínu (af hverju hljómar hún einsog ítalskur fréttaþulur frá því fyrir seinna stríð). Jú – Jón er einlægur en hann virkar líka bara þreyttur. Enda vinnur hann víst 12 tíma vinnudag áður en hann byrjar á forsetaframboðinu. Viktor er einlægur en stífur og forsetaembættið er bara ekki jafn ferkantað og hann leggur upp með. Katrín er hæfust í þessum faglega skilningi en með mestan farangur. Halla Hrund og Baldur eru jöfn í að vera næsthæfust í sama skilningi en þau ná mér bara ekki – kannski bara vegna þess að ég trúi eiginlega ekki á því að þetta snúist um faglegt hæfi heldur einhvers konar töts (og líklega er það þess vegna sem ég er hallastur undir listamanninn Gnarr, ef hann fengi bara einhvern svefn!). Mér finnst þau öll þrjú – faglega fólkið – líka bara vera of dipló. Of kurteis. Of þjóðleg. Of miklar lopapeysur. Kindaknúsarar. Sennilega er það sameiningartáknsveikin. Ég sakna Elísabetar Jökulsdóttur. Það ætti eiginlega alltaf að hafa hana með í öllum kappræðum. Hún sér til þess að hlutirnir verði ekki of ruglaðir. Hún jarðtengir geimverurnar og dregur það mannlegasta fram í öðrum. Í Heimildinni fá frambjóðendur nokkrar „léttar spurningar“ þar sem þau eru meðal annars spurð hvað þau séu að lesa (eða hafi lesið síðast) – ég dæmi fólk (hart!) af slíkum upplýsingum – og þar kemur fram að af tólf frambjóðendum er einungis tveir eru með íslenskt skáldverk á náttborðinu. Alls voru fjórtán bækur nefndar: Halla T: The Anxious Generation – Jonathan Haidt Eiríkur Ingi: Perlur málsins (og segist eiga mest bara fræðibækur) Baldur: Land næturinnar eftir Vilborgu Davíðsdóttur Arnar Þór: Law in the time of crisis – Jonathan Sumption Ásdís Rán: Conversations with God – Neale Donald Walsch Katrín: Doppelgangur – Naomi Klein + The Secret Heart – Suleika Dawson (höfundur ekki nefndur, bara umfjöllunarefni, John Le Carré) – Dulstirni / Meðan glerið sefur – Gyrðir Elíasson Viktor: Síðasta setning Fermats – Simon Singh Halla Hrund: Lifað með öldinni , ævisaga Jóhannesar Nordal (no relation!) Steinunn Ólína: Bókin um veginn – Lao Tse Helga: 1984 – George Orwell Jón Gnarr: Kristján Eldjárn: Ævisaga – Gylfi Gröndal Ástþór Magnússon: Virkjum Bessastaði – Ástþór Magnússon (en segist lesa mikið um alþjóðamál í „bókum, tímaritum og myndböndum“) Er ekki hægt að lesa eitthvað í þetta? Það er náttúrulega mjög fyndið að Ástþór lesi bara gamla bók eftir sjálfan sig. Og líka fyndið að vera að lesa ævisögu annars forseta. Perlur málsins. Les fólk svona vegna þess að það sé best að lesa bókmenntir úr samhengi eða vegna þess að það sé þægilegt að geta baulað tilvitnunum og virst betur lesinn en maður er? Fordómapungurinn í mér segir að 1984 og Bókin um veginn séu ægilegar klisjur. Og Conversations with God er svona 20 ára gömul en gleymd klisja. Gyrðir er hot og kemur okkur í menningarliðinu til. Vilborg er alþýðleg, vinsæl og þjóðleg – sem tákn nær hún áreiðanlega víðar en Gyrðir. Haidt er rosa mikið í deiglunni – er ábyggilega efstur á öllum metsölulistum vestanhafs, svona dellubókin í ár. Klein gæti verið næst þar á eftir. Arnar Þór og Viktor eru að nördast í sínu – kannski eru það áhugaverðustu bækurnar að velja, stærðfræðin og lögfræðin, það segir eitthvað um viðkomandi, lýsir persónuleika. Krimmaspesjalistinn er reyndar líka að nördast með bók um krimmahöfund á borðinu – en ekki krimma, vel að merkja. Skáldverk: Þrjú. Ein ný ljóðabók, ein ný íslensk skáldsaga og ein gömul erlend. Ævisögur: Þrjár. Tvær um dauða íslenska karla; ein um dauðan erlendan ástmann. Ritgerðir: Átta. Eitt uppsláttarrit, þrjú pólitísk áköll, eitt stærðfræðirit, tvö trúarleg áköll með sjálfshjálparkeim, eitt lögfræðirit. Bækur sem ég hef lesið: Þrjár. Þið megið giska. Hlutfall skáldverka og bóka almenns eðlis er þrjár á móti ellefu. Það er hræðilegt! Sá sem lifir ekki í skáldskap, und so weiter, einsog kveðið var. Höfundar: Fjórir bretar, þrír bandaríkjamenn, einn kanadamaður, einn kínverji og fimm íslendingar. Þrjár konur, tíu karlar, eitt safnrit (ábyggilega mest karlar). Það er merkilegt að það er enginn meginlandsevrópumaður í hópnum (nú gæti maður líka viljað telja upp a.m.k. afríku og s-ameríku líka og væri nokkuð til í því en hin klassíska kanóna er samt mjög meginlands, en hér er meginlandið bara horfið). Og enginn skandinavi. Meginlandið gæti talist tilgerðarlegt og norðurlöndin lúðaleg. Allir útlendingarnir nema einn enskumælandi. Og sú bók er líka sú einstök hvað varðar tímaskeið. Þetta er allt seinni hluti 20. aldar eða nýrra nema Bókin um veginn sem var rituð á sjöttu öld fyrir krist – og svo ekkert fyrren 1949. Ég er ekki viss um að þetta segi manni neitt um frambjóðendurna sem slíka – en kannski eitthvað um hvaða týpur það eru sem bjóða sig fram. Og tímana sem við lifum. Maður hlýtur að hafa svolítið mikilmennskublæti. Og leiðbeiningarblæti. Það hlýtur að fylgja viljanum til valds – viljinn til að standa á stalli og benda öðrum hvert þeir eigi að fara (það er bókstaflega starfslýsingin, þegar ég hugsa út í það, með einhverjum fyrirvara um það hversu mikið maður eigi að hlusta á pöpulinn eða ekki). Þetta hjálpar mér reyndar ekki mikið. Það er engin bók þarna sem ég tengi sérstaklega við. Ef ég væri enn með Starafugl myndi ég nota tækifærið og senda út ítarlegri spurningalista til að fá skýrari mynd af lestrarvenjum þessa fólks. Fá þau til að velja eitt íslenskt og eitt erlent nútímaskáldverk, eina klassík, eitt íslenskt ljóð og eitt erlent, eina íslendingasögu, eitt trúarrit, eitt sagnfræðirit – hvað er skrítnasta bók sem þú hefur lesið, hvað er erfiðasta bók sem þú hefur lesið, hvað er síðasta bók sem þú gafst, hvað er eftirminnilegasta bók sem þér hefur verið gefin, hvað er besta bók sem þú hefur lesið fyrir barn (ef þú átt barn og hefur ekki lesið fyrir það á auðvitað fyrr að kjöldraga þig en kjósa), hvað er síðasta bók sem þú gafst upp á, áttu margar bækur, áttu kindil, ertu með hljóðbókaáskrift, sækirðu bókasöfn, hefurðu skrifað bók, hefurðu skrifað ljóð, hefur einhver skrifað um þig ljóð, skipta bókmenntir máli, skiptir skáldskapur máli? Svo mætti líka spyrja um leikbókmenntir og leikhús, myndlist, tónlist og kvikmyndalist – en ekki um sjónvarp, það er alveg nóg spurt um sjónvarp og það er bara ekki svona merkilegt.