Með veislu í farangrinum

Grikkland og Napolí voru sjálfum sér lík og einstök. Á köflum meira að segja einsog hálfgerðar klisjur. Á tímum þar sem manni finnst allir staðir meira og minna vera að breytast í sama staðinn – sams konar stað þar sem fólk borðar sama matinn (les = allt alltaf í boði og annað skandall), hlustar á sömu tónlistina (les = einhverja gervigreindarspilunarlistasamsuðu), hefur sama þjónustuyfirbragðið (les=ameríska starbucks staðalbrosið), fer í sömu verslunarkeðjurnar og svo framvegis – er maður þakklátur fyrir klisjurnar sem skilja staðina í sundur og gefa þeim karakter. Þakkátur fyrir Grikki sem afgreiða mann með afslöppuðu fálæti, kveikja svo í sígarettum á sínum eigin „reyklausu“ veitingastöðum, fá sér í glas og grípa bouzouki af veggnum til þess að leika sér með vinum sínum og samstarfsmönnum; eða Napolíbúa sem smjaðra fyrir Frökkunum á næsta borði en sýna manni sjálfum gríðarlegt, eiginlega alveg stjórnlaust yfirlæti, af því þeir halda að maður sé Þjóðverji (fussa yfir vínpöntuninni og snúa matarpöntuninni á haus). Í matvöruverslun varð mér á að biðja um „bag“ til að setja matinn í og afgreiðslumaðurinn – karl á fertugsaldri – æpti á mig. „Busta! Busta!“ – ég baðst velvirðingar og sagði „busta, prego“. Þá hló hann að mér og spurði hvaðan við værum (á ensku – en við svöruðum bara á napólsku: Islanda). Dagarnir í Grikklandi einkenndust mikið af því að þurfa að fara snemma á fætur og sofa þess vegna lítið og dagarnir í Napolí einkenndust af því að fara mjög seint að sofa og sofa ekki fram eftir degi – meðaltalssvefninn síðustu tvær vikurnar er varla nema 4-5 tímar á nóttu. Ég er í samræmi við það enn frekar þreyttur. *** Ég las Mrs. Dalloway á leiðinni til Napolí og A Moveable Feast á leiðinni til baka (sem var viðeigandi af því ég var bókstaflega með veislu í farangrinum – ríflega 2 kg af ítölskum og grískum ostum, tæplega1 kg af kjöti, rauðvín, freyðivín, tsipouru, hunang, súkkulaði, ólífur, kryddblöndur, 5 lítra af ólífuolíu, ítalskt vesúvíusarkaffi og úrval af bókum á ensku og frönsku). Báðar tengjast þessar bækur James Joyce –  Mrs. Dalloway er augljóslega skrifuð undir miklum áhrifum af Ulysses og felur það ekkert. Sérstaklega á fyrstu síðunum, þar sem birtast fjölmörg kunnugleg element – samlokumenn, söguhetja skoðar í búðarglugga, reynir að velja bók fyrir rúmliggjandi konu, og margt, margt fleira – en líka auðvitað í nýju teiki á vitundarflæðinu úr Ulysses og þessari tilraun til þess að lýsa augnablikinu frá mörgum hliðum, skima yfir trámatískan hversdagsleikann í heilli borg og rýna inn í heilabúin sem sjúga borgina í sig. Og allt gerist á einum degi – meira að segja júnídegi. Það er augljóst að Woolf hefur viljað vera stýrðari og einbeittari í sinni sýn – hún er ekki maximalisti einsog Joyce, hún er fínlegri en það er líka margt sem glatast við fínlegri aðferð. Ég þekki auðvitað bara eina vitund, mína eigin, og hún er talsvert líkari því sem sögupersónur Joyce upplifa – en á móti kemur að Mrs. Dalloway er miklu auðlesnari og aðferðin skiljanlegri. Og ekki að þetta sé keppni, en hún er langt frá því að ná Ulysses (og fyrir mína parta er Orlando líka meistaraverk Woolf). Ég hafði gleymt miklu úr A Moveable Feast á þeim tæplega 30 árum sem eru liðin frá því ég las hana síðast. Ég mundi ekki einu sinni atriðið þar sem F. Scott Fitzgerald játar fyrir Hemingway að hann hafi áhyggjur af limstærð sinni – Zelda sé ekki ánægð – og fær Hemingway til að líta á liminn fyrir sig. Sem Hemingway segir bara mjög fínan. Joyce kemur minna fyrir en ég var að vona. Hann er nefndur á stöku stað en that’s about it. Og ekki stakur stafur um liminn á honum. Hemingway nefnir að Gertrude Stein vilji ekki heyra á hann minnst – og verði manni á að nefna hann tvisvar sé manni ekki boðið aftur á 27 Rue de Fleurus. Stein og Joyce eru augljóslega róttækustu módernistarnir í París – a.m.k. af þeim sem skrifuðu á ensku – og henni virðist hafa stafað ógn af honum. Ég hef enn ekkert séð um afstöðu hans til hennar. Það er líka áhugaverð sena um vinslit þeirra Stein og Hemingways. Í meira lagi dulúðug. Hemingway birtist á heimili Stein, þjónustustúlkan tekur á móti honum, hleypir honum inn og gefur honum að drekka. Á meðan hann bíður heyrir hann óvart samræður – einhver talar við Gertrude Stein á slíkan máta að hann hefur aldrei heyrt annað eins. Við fáum ekki að vita hvað er sagt. En Stein svarar auðmjúk og þjáð: „Please don’t. Please don’t, pussy.“ Og Hemingway áttar sig á því að hann hefur orðið vitni að einhverju sem hann mátti alls ekki verða vitni að og lætur sig hverfa. Og útskýrir svo ekkert meira. Þessi samskipti hafa á sér einhvern furðulega kynferðislegan blæ. Ég sá að einhver hafði túlkað þetta sem einhvers konar sambandsslit – að Stein væri að biðja elskhuga að fara ekki – en minn fyrsti lestur var að Hemingway hefði orðið vitni að ástarleikjum Stein og Toklas, einhverjum BDSM eða hlutverkaleik. En það kemur auðvitað ekkert fram um það. Ef helsti styrkur Joyce er að hlaða á mann öllum veruleikanum og leyfa manni að reyna að troða í honum marvaðann, þá er styrkur Hemingways einmitt þessar eyður sem hann skilur eftir – sem kalla á jafn kreatífa úrvinnslu og ofgnótt Joyce. Við getum einfaldlega ekki lesið senur þeirra án þess að beita okkur, getum ekki verið passíf, verðum að spyrja okkur spurninga, fylla í eyður og búa til tengingar. Kannski eru kraftmestu bókmenntirnar alltaf gæddar þessu eðli – að fá okkur til að hugsa, einsog góð tónlist fær okkur til að dansa. *** Af listaferli mínum er það helst að frétta að Náttúrulögmálin hefur tvisvar nýlega verið tekin upp í „Lesanda vikunnar“ á RÚV. Margrét Helga Erlendsdóttir, fréttakona á Stöð 2 og bókmenntafræðingur, var mjög ánægð með hana – og lýsti raunar almennri ánægju bara með allt sem ég hef skrifað (!!!). „Það skín í gegn svo mikil frásagnarást – textinn er svo lipur og hann segir svo skemmtilega frá. Mér finnst hann vera í essinu sínu þarna.“ Margrét talað líka um Moments of Being , sjálfsævisögu Virginiu Woolf – sem ég á ólesna og ætla að sinna fljótlega. Svo kom Heiðar Ingi Svansson , formaður Félags íslenskra bókaútgefenda, tveimur vikum síðar og var ekki síður kátur – sagðist hafa sogast inn í hana (og nefndi líka sérstaklega Illsku sem eftirlætisbók). Og sagði um Náttúrulögmálin eftir áhugaverðar útleggingar: „Fyrst og fremst er þetta bara frábær bók.“ Þá hafa lögin fjögur sem Gosi flutti í Stúdíó RÚV birst á Spotify og eitt myndband á Facebook . Þar leik ég á bassa. Tónlistin hans Andra Péturs er ótrúlega lunkin og skemmtileg – og hljómsveitin (auk mín, Valgeir Skorri Vernharðsson á trommum, Friðrik Margrétar- Guðmundsson á svuntuþeysurum, Marta Sif Ólafsdóttir syngur – einsog Andri Pétur, sem leikur líka á gítar) er æði og mér var mikill sómi sýndur að fá að spila með þeim (einsog raunar með Baldri Páli sem spilar venjulega á slagverk með okkur Andra). Og loks vann Fiðlarinn á þakinu til verðlauna á þingi BÍL sem athyglisverðasta áhugaleiksýning ársins – sem þýðir að hún fer vonandi á fjalir Þjóðleikhússins í sumar (en til þess þarf væntanlega að ná öllum hópnum saman – sem ég átta mig ekki á hvort er gerlegt, en það kemur áreiðanlega fljótt í ljós).