RVK og Antikristur Nothomb

Ég kom til landsins í gær. Með ekkert með mér nema fartölvu, fimm lítra af ólífuolíu og kíló af fetaosti. Og Mrs. Dalloway eftir Virginiu Woolf. Taskan mín – með öllu hinu – varð eftir í Frankfurt, þar sem ég millilenti. Það má fylgja sögunni að ég hafði vanrækt að þrífa mig eða skipta um föt á ferðalaginu frá Skopelos – það var ræs klukkan 6 tvo daga í röð og ég var latur – og lyktaði orðið einsog súr hvalur. Sessunautum mínum sjálfsagt til talsverðrar ánægju. Það má líka fylgja sögunni að ég er ekki að fara heim heldur aftur til Miðjarðarhafsins – til Napolí (það var röð óheppilegra tilviljana sem réð því að ég flaug ekki beint). Ólífuolíunni hef ég komið í geymslu og ný föt fékk ég í H&M í gær en þau munu varla duga mér í viku – eitthvað fleira þarf að koma til. Tannbursta fann ég í 10/11. Taskan er vel að merkja ekki týnd en hún mun ekki ná til mín áður en ég fer – og verður því send beint vestur. Allt er þetta fremur dýrt spaug – og ég veit af reynslunni að ferðatryggingin koverar varla nema tannburstann. En ég neita því ekki að mér finnist líka gaman að vera í nýjum fötum. Og það er einhver furðulegur léttir að vera svona allslaus líka. Frelsistilfinning. Ég lauk við Antéchrista eftir Amelie Nothomb. Bækurnar hennar henta mér mjög vel til að lesa á frönsku – bæði eru þetta almennilegar bókmenntir og þær eru stuttar og málið yfirleitt ekki mjög flókið (þótt hún fari stundum á flug, sem er líka ágætt). Hygiène de l’assassin og Cosmetique de l’ennemi voru líka mestmegnis skrifaðar sem samtal tveggja einstaklinga – og raunar að mörgu leyti áþekkar bækur. Það er meiri „prósi“ í Antéchrista en hún er líka fyrst og fremst um intensíf samskipti tveggja einstaklinga. Blanche er feimin 16 ára unglingsstúlka á fremur venjulegu smáborgaraheimili sem eignast sinn fyrsta vin í Christu, sem er vinsælasta stelpan í skólanum. Christa á fátæka foreldra og býr langt í burtu og fær fyrst að gista hjá Christu alla miðvikudaga, til þess að þurfa ekki að ferðast 2-3 tíma á hverjum morgni, og svo alla skólavikuna. En Christa er líka manipúlatíf og tekur smám saman að gera Blanche lífið leitt – brýtur hana niður, fær foreldra hennar upp á móti henni og svo framvegis. Sá þráður er allur mjög sannfærandi og áþján Blanche verður mjög kvíðavekjandi hjá viðkvæmum lesanda. Lausnin og lokakaflinn er svo vel skrifaður og áhugaverður en líka að einhverju leyti of fullgerður einhvern veginn – tvistið (sem ég ætla ekkert að skemma) grefur að einhverju leyti undan því sem gerði bókina til að byrja með. Plottið kallaði á „eitthvað“ – en kannski hefði ég frekar kosið „eitthvað annað“.