Ég kláraði The Skin eftir Curzio Malaparte í rútunni á leiðinni til Skopelos. Það tók mig ekki nema 45 klukkustundir að komast frá Ísafirði til Reykjavíkur til Keflavíkur til Zurich til Aþenu til Volos til Skopelos. Einkabíll, flug, rúta, hótel, flug, flug, leigubíll, hótel, leigubíll, rúta, bátur. Náði bærilegum nætursvefni í Keflavík en var ekki kominn til Aþenu fyrren klukkan 2, sofnaði 3 og svo var ræs klukkan 7 til þess að halda ferðinni áfram. Ég var mjög þreyttur. Fljótlega eftir lendingu í Skopelos (og örstuttan lúr) var haldið á veitingastað og þegar búið var að afgreiða matinn byrjuðu þjónarnir og kokkurinn að draga fram hljóðfæri – bouzuki og nikku – Christina vinkona mín fékk gítar í hendurnar og svo var sungið hástöfum á öllum borðum. Ég hefði sennilega kallað það þjóðlög ef það hefði ekki sérstaklega verið útskýrt fyrir mér að þetta væru ekki þjóðlög heldur dægurtónlist frá þriðja áratugnum – a.m.k. eitt þeirra um og eftir „ mangas “, sem er einhvers konar bóhemhreyfing frá þeim tíma. En þetta var allt einsog uppúr einhverri handbók um gríska stemningu. Ég var hins vegar úrvinda, drakk þrjá bjóra yfir kvöldmatnum og leið einsog þeir hefðu verið tólf – ranglaði heim yfir einræðum um hvað það ískraði mikið í skónum mínum. Þeir byrjuðu á þessu strax og ég lenti í Grikklandi og þetta olli mér miklum heilabrotum sem mér fannst ég þurfa að tjá í löngu máli. Eftir sólarhring höfðu skórnir jafnað sig á umhverfisaðstæðum – var þetta rakinn, hitinn, rykið, loftþrýstingurinn? – og hættu þessu jafn skyndilega og þeir höfðu byrjað. Þá var ég líka úthvíldur. Ég náði góðum nætursvefni í gær og fyrsti panell hátíðarinnar gekk prýðilega. Ég lenti meira að segja í skemmtilegum átökum við mann úti í sal um það hvort listaverk sem ekki lifði í hundrað ár hefði nokkurt gildi – ég er ekki viss um að við höfum alveg skilið hvor annan en það var gaman að rífast og áhorfendum virtist finnast það líka, mikið hlegið og klappað. Maðurinn úti í sal, sem mér skilst að sé ljóðskáld af svæðinu, vildi meina að öll sönn listaverk myndu lifa – það væri í eðli þeirra – og þegar ég mótmælti virtist hann sannfærður um að ég hefði misskilið sig, og héldi sig halda að við ættum að dæma úr leik öll verk sem ekki bæru með sér langlífi; en hann væri að meina að langlífið væri ekki sönnun á gildi listaverksins, heldur einfaldlega í eðli þess. Altso: lifa listaverk í 100 ár vegna þess að þau eru sönn, eða eru þau sönn vegna þess að þau lifa í 100 ár – eitthvað þannig. En það sem ég var í raun og veru að reyna að segja var að listaverk sem nær máli í eitt einasta augnablik er „raunverulegt listaverk“ jafnvel þótt það hafi gleymst tíu mínútum síðar. Ending hefur bara ekkert að segja um „gildi“ listaverka og það er vitleysa að einblína á það. Fyrr um daginn var okkur líka boðið í áhugaverða sögugöngu um þorpið – hér í Skopelos hefur ýmislegt gengið á sem ég treysti mér ekki til þess að hafa eftir með neinni nákvæmni, nema til að segja að við sögu komu jarðskjálftar, sjóræninginn Barrabas, stríð og auðæfi og fátækt og skipasmíði og ólífuolía. Tvennt man ég nokkurn veginn nákvæmlega. Það eru 360 kirkjur í bænum. Fyrir 5 þúsund íbúa. Og svo var hluti bíómyndarinnar Mamma mia! tekin upp hérna. *** The Skin ( La Pelle ) eftir Curzio Malaparte byrjar um það leyti sem Kaputt lýkur – það eru greinilega 7 ár síðan ég las hana – í Napolí árið 1943. Þetta eru rabelasískar skáldævisögur manns sem var fyrst fasisti – marseraði með Mussolini í valdatökunni – lenti síðar í ónáðinni og gerðist enn síðar kommúnisti. Hann átti í álíka sambandi við kirkjuna – byrjaði sem harður trúleysingi en varð svo kaþólikki. Hraðlyginn, með explósíft og hamslaust ímyndunarafl og kjarkaðan siðferðislegan hugsunarhátt – sem er stundum mjög vafasamur og stundum skarpur einsog skurðhnífur. Þegar maður les Malaparte getur maður ekki látið vera að hugsa að kannski hafi hann alltaf verið allt í senn, maður hinna fullkomnu mótsagna, maður er alltaf rétt búinn að afskrifa hann sem rasista eða kvenhatara þegar það birtist nýr kafli og hann birtist sem jafn einlægt andrasískur og feminískur – hann er tilfinningaríkur og grófur, jafn fullur af mýkt og hann er fullur af hörku, jafn fullur af sannleika og bulli, húmor og alvöru, en umfram allt annað alveg ótrúlegur rithöfundur, með alla kynngina á sínu valdi. La Pelle byrjar sem sagt árið 1943 þegar bandamenn frelsa Napolí. Malaparte hefur (fyrir löngu) snúið baki við fasismanum og gerist aðstoðarmaður bandamanna í Napolí. Eymdin er botnlaus og þótt erfitt sé að draga skýra línu milli sannleika og skáldskapar truflar það ekki – það jafnvel hjálpar að einhverju leyti að Malaparte leyfir sér að fara augljóslega langt yfir strikið, því þannig verður augljósara að verið er að lýsa fyrir manni tilfinningu, upplifun, frekar en einföldum staðreyndum, og allir fyrirvarar um sannferðugleika hætta að skipta máli. Ástandið undir Þjóðverjum hafði verið bágt. En með bandamönnum fylgir ný vídd af eymd sem má hugsanlega lýsa með tvennum hætti. Í fyrsta lagi eru þeir, sérstaklega bandaríkjamenn, einfaldlega fjáðari en þjóðverjarnir sem hernámu borgina þar á undan og geta þar með keypt sér ýmislegt og þeim fylgir líka sú kapitalíska lógík að allt eigi að geta verið til sölu; sem aftur vekur með soltnum Napolíbúum „löngun“ til þess að selja allt sem beðið er um, hvort sem það eru konur eða börn. Neyðin rekur þá til þess að niðurlægja sig. Hér færir Malaparte mikið í stílinn – en sannleikurinn er samt ekki langt undan – þetta eru stórkostlegar ýkjur en margt af því brjálæðislegasta er samt satt (og má meðal annars lesa um hryllinginn sem viðgekkst, meira og minna óáreittur, í bókinni Naples ’44 eftir breska hermanninn og rithöfundinn Norman Lewis, sem er „jarðbundnari“ frásögn). Í öðru lagi birtast bandamenn í Napolí sem eins konar „frelsandi innrásarher“ – sem er mótsögn sem hefur talað til Malaparte. Þeir ráða lögum og lofum og fjármagna hálfgerða óöld og virðast að mörgu leyti líta á Napolí sem siðspilltan heim þar sem allt leyfist – og að fyrst allt sé til sölu sé alltílagi að kaupa það (Malaparte fer t.d. með þeim að skoða meyjarhaft unglingsstúlku – þar standa menn í röðum og borga sig inn og fá jafnvel að þreifa á því). Og bandamenn eru vel að merkja frelsarar þrátt fyrir að hafa í raun ekkert frelsað – Napolíbúar voru ekki hrifnir af þýska hernáminu og gerðu uppreisn strax og spurðist til bandamanna á leiðinni, svo þegar herinn náði til borgarinnar voru engir Þjóðverjar á staðnum lengur. Blóðinu sem var úthellt fyrir frelsið var blóð heimamanna – karla, kvenna og meira að segja barna. En auðvitað hefðu Napolíbúar ekki getað haldið borginni nema vegna þess að bandamanna var vænst, koma þeirra blés heimamönnum þrótti í brjóst og þeir fagna mjög innreiðinni þegar hún gerist – og þar birtist önnur mótsögn, þeir eiga engan ítalskan „nasistafána“ til þess að kasta niður svo það verður þeirra eigin fáni, venjulegi ítalski fáninn, sem endar fyrir fótum amerísku frelsarana. Titillinn The Skin / La Pelle / Húðin vísar vel að merkja til nokkurra ólíkra staða í bókinni en meðal annars til manns sem gengur um með mannshúð á fánastöng og hugleiðinga Malapartes um að húðin sé hin eini eiginlegi fáni, allt annað sé hégómi. Malaparte er líka sjálfur (a.m.k. í orði kveðnu) afar hrifinn af bandaríkjamönnum og sérstaklega Jack Hamilton, sem hann starfar fyrir sem eins konar aðstoðarmaður og túlkur – þeir eru einfaldlega góðir vinir. En hann er líka umkringdur eymd sem hann sér að sprettur úr dýnamíkinni milli hersetumanna og niðurlægðra heimamanna sem verða á endanum kristlíkir í þjáningu sinni. Og ég hef séð að margir túlka það sem boðskap bókarinnar – að hinn sigraði sé æðri eða frjálsari – en ég held að það séu mistök að túlka boðskap upp úr bók af þessu tagi og þann kristilega lokasprett má hæglega sjá sem gegnumíronískan, eða jafnvel sem bæði einlægan og íronískan (eftir því hvort maður telur sig vera í trúaða heilahvelinu á Malaparte eða því trúlausa). Í einni eftirminnilegustu senu bókarinnar (þær eru margar) er haldin veisla fyrir bandarískan erindreka, frú Flat. Gestgjafinn, bandarískur herforingi, er þekktur fyrir að kosta miklu til og vill gjarnan hafa sjávarfæði á boðstólum – enda borgin þekkt fyrir það. Það er hins vegar búið að banna allar veiðar við ströndina af hættu við að sjómenn sinni skilaboðaflutningum eða annarri undirróðurstarfssemi fyrir hin fasísku öfl. En herforinginn hefur auðvitað ráð undir rifi hverju og síðustu missserin hefur hann smám saman verið að tæma sædýrasafn borgarinnar. Þetta mun ekki alveg úr lausu lofti gripið hjá Malaparte þótt gripdeildirnar á sædýrasafninu hafi ekki verið jafn umfangsmiklar og hann lýsir. En nú er nokkuð liðið á hernámið og þegar herforinginn spyr eftir fæðu fær hann þau svör að það sé ekkert eftir nema nokkrir kórallar og einn „sírenufiskur“ – kórallinn sé því miður óætur en megi kannski nota sem skraut. Herforinginn hefur aldrei heyrt minnst á sírenufisk en ákveður, eftir meðmæli sædýrasafnsstjórans, að láta slag standa og panta svona fisk. Þegar væntanleg veisluföng eru kynnt við upphaf matarboðsins kannast Malaparte ekki heldur við þennan fisk en verður vandræðalegur og lætur einsog hann viti vel hvað þetta er – lókal delíkatess – fiskur sem hafi verið nefndur eftir hinum frægu sírenum Hómers. Svo er fiskurinn borinn á borð og í ljós kemur að hann allt yfirbragð lítillar stúlku. Hann lítur út einsog léttsoðið líkið af ungru stúlku, hreinlega, en með hreifa eða stýfða handleggi, og á kórallabeði með majonnesi. Erindrekinn harðneitar að borða réttinn og upphefst þá mikið rifrildi um hvort þetta sé lík af stúlku eða raunverulegur sírenufiskur. Á endanum smakkar enginn og raunar fylgir prestur nokkur fiskinum/stúlkunni út með það fyrir augum að veita honum/henni greftrun við hæfi. Kaflanum lýkur svo á hugleiðingu Malapartes um að ef frúin sé fær um að gráta fyrir fisk sé ekki ómögulegt að hún geti á endanum líka fundið til með ítölsku þjóðinni. La Pelle er einsog Burroughs mætir Heller mætir Celine. Ofsalegur stílkraftur Celine mætir stríðsparódíu Josephs Heller mætir martraðarkenndu ímyndunarafli William S. Burroughs. Fimm stjörnu tryllingur. En ekki fyrir viðkvæma!