Það er enginn skóli hjá börnunum þessa vikuna. Man ekki alveg hvað veldur í þetta skiptið – ekki Covid, held ég. En þau eru samt með heimanám með sér enda hefur verið svo lítill skóli í vetur að án þess gengi þetta líklega ekki upp. Svo eru bæði að æfa sig fyrir tónleika í tónlistarskólanum. Aino þarf að læra fjögur lög af því það eru svo fáir bassaleikarar í tónlistarskólanum. Það er undarlegt til þess að hugsa að Aino hefur langstærstan hluta sinnar skólagöngu verið í Covid-gír – með lokunum og alltaf heima við minnsta nefrennsli. Þá hefur hún líka tvisvar gengið í fyrsta bekk – í Svíþjóð byrjar maður í skóla sjö ára. Við erum að reyna að gera átak í lestri svo hún verði ekki langt á eftir bekkjarfélögum sínum á Ísafirði í haust. Við lifum að mörgu leyti frekar einangruðu lífi hérna, finnst mér. Það er ekkert eitt sem veldur þótt Covid hafi auðvitað átt stóran þátt í því. Og það er langt að fara og við þekkjum hvað sem öllu líður miklu færra fólk í Västerås en á Ísafirði. En ofan á það bætist að krakkarnir eru í Waldorf-skóla langt í burtu og þekkja engin börn í hverfinu okkar. Ég held að bekkjarfélagar þeirra eigi ekki heldur margir heima nálægt skólanum, þetta er skóli sem fólk sækir í af öðrum ástæðum. Og raunar er sífellt algengara í Svíþjóð að krakkar gangi ekki í næsta skóla heldur einhvern skóla sem hentar lífssýn foreldranna. Það var grein um þetta í Dagens Nyheter á dögunum, skrifuð af vini mínum Philip Teir – finnlandssænskum blaðamanni og rithöfundi – þar sem hann bar saman sænska og finnska kerfið. Í Finnlandi er mikið lagt upp úr því að maður fari í hverfisskólann en hægt að fiffa með það – t.d. með því að hafa börnin í tónlistarnámi sem þá tengist tilteknum skólum og talsvert um að efstu stéttirnar geri það, til þess að koma börnunum í fínni skóla. Svo eru hverfi einfaldlega misjöfn – í ríkum hverfum eru betri skólar. Skólarnir eiga allir að hafa sömu fjárráð og aðstöðu en þegar til kastanna kemur er einfaldlega dýrara að sinna vissum nemendum – t.d. þeim sem eiga ekki foreldra sem geta setið yfir þeim og fylgst með náminu. Í skólum meðvituðu efri-millistéttarinnar geta kennarar einbeitt sér að fjölbreyttari verkefnum, einfaldlega vegna þess að minna álag er af hverjum og einum nemanda. Finnska kerfið er byggt á sænsku módeli, merkilegt nokk, sem gengur út á að reyna að skapa eins mikinn jöfnuð í skólunum og hægt er – að það skipti ekki máli í hvaða skóla þú farir, þú eigir að fá sömu grunnmenntun. Svíar hafa fyrir löngu gefið þetta kerfi upp á bátinn og það var hafður um það harður áróður árum saman – kallað austur-evrópskt og gott ef ekki bara fasískt, frelsislaust og þar fram eftir götunum. Nú hefur það svolítið verið endurskoðað – og fullorðið fólk kannast ekki við þessa mynd af grunnskólunum sem það gekk í sjálft, þótt þeir hafi ekki verið fullkomnir. Svíar held ég að hafi lent í einhverri sjálfsmyndarkreppu á níunda og tíunda áratugnum og ekki viljað vera hallærislegir sossar lengur – og voru mjög ginkeyptir fyrir alls kyns afregluvæðingu og einkavæðingu (eitt sem breyttist er reyndar að hætt var að tala um „einkaskóla“ og farið að tala um „frískóla“ í staðinn – eða frjálsan skóla – sem hljómar ólíkt betur). Í Finnlandi var kreppa þegar þessi þróun átti sér stað – í byrjun tíunda áratugarins þegar Sovétríkin féllu fór það mjög illan með finnskan efnahag. Sérfræðingar í dag segja að á krepputímum sé fólk mjög lítið gefið fyrir kenningar nýfrjálshyggjunnar og því hafi finnar haldið fast við sína jafnaðarskóla á sama tíma og Svíar markaðsvæddu allt sem ekki var neglt niður. Ég kannast ekki við að Íslendingar setjist mikið yfir það hvar börnin þeirra fari í grunnskóla – átta mig raunar ekki á því hvernig því er farið. Á Ísafirði er bara grunnskóli. Reyndar er eitthvað um það að fólkið í nágrannabæjunum sendi börnin sín í skóla á Ísafirði frekar en á staðnum. En það eru aðrir þættir sem ráða því, held ég, en þetta neyslumynstur hins meðvitaða foreldris sem fer út að sjoppa besta skólann fyrir börnin sín. Það ber meira á því að fólk sæki í tiltekna leikskóla með börnin sín. Hjallastefnan ehf. er sennilega stærst. Og einhverja grunnskóla er Hjallastefnan líka með. Ég yrði ekki hissa þótt hlutfall einkaskóla færi vaxandi og viðbúið að opnist góð glufa verði sprenging – markaðurinn leitar þangað sem hann kemst. En það væri gaman að sjá úttekt um þetta einhvern daginn.