Einhvern tíma fyrir langa löngu var ég að hlusta á bókmenntaþátt á BBC þar sem höfundur – sem ég man ekkert hver er lengur, kona í fagurbókmenntum fyrir fullorðna – fór að tala um „óverðskulduð tár“ og hvernig þau væru stærsta synd hvers rithöfundar. Með því var hún að segja að maður ætti fyrst að setja upp sögusviðið og leyfa lesandanum að kynnast sögupersónunum áður en maður færi að láta ósköpin dynja á þeim – því auðvitað er það það sem fagurbókmenntir fyrir fullorðna eru, rithöfundar að láta ósköp dynja á saklausu fólki. Hún vildi meina að ósköpin þyrftu að gerast „náttúrulega“ – á sínu eigin tempói – og freistingin til þess að troða þeim inn væri frekja af hálfu rithöfundarins. Hann væri í raun að æpa á lesandann að nú yrði hann að tengjast sögupersónunum og gráta – án þess að nenna að vinna fyrir því. Því auðvitað slær harmur okkur, jafnvel þótt við höfum ekki náð að kynnast sögupersónum. En að sama skapi getum við einmitt fyrst við í skáldsögu þegar okkur finnst höfundurinn vera orðinn fullmelódramatískur, við getum hreinlega misst samúðina og lent í Birtingssýslu, þar sem harmurinn verður kjánalegur og einhvers konar myndlíking fyrir eitthvað annað. Við grátum ekki beinlínis yfir teikningum Hugleiks, þótt þær séu gjarnan um grátverðar upplifanir. Ég er í ekki endilega sammála þessari konu þótt mér þyki kenningin allrar athygli verð og rétt að maður sé meðvitaður um þetta þegar maður situr við skriftir – þörfina til þess að kalla á djúpar tilfinningar í brjósti lesandans. Hún er sennilega ein af ástæðunum fyrir því að maður skrifar yfir höfuð, en hún er líka frekur húsbóndi. Það getur alveg verið ástæða til þess að leyfa lesanda að kynnast sögupersónu fyrst og fremst í gegnum einhvern harm – bókin fer þá væntanlega í að skoða harminn, skræla utan af honum, rýna í hann, hann sogar að sér athyglina. En ég held að maður mæti líka slíkri bók alltaf svolítið sigghlaðinn, svolítið varkár. Merkilegt nokk kemur þetta viðtal síðan alltaf upp í hugann þegar ég velti fyrir mér muninum á skáldsögu- og ævisögu- og skáldævisöguforminu. Hvernig harmur virki í sannsögu. Maður getur nefnilega ekki álasað sögupersónu fyrir að verða fyrir harmi of snemma í ævisögunni sinni, til dæmis, eða gagnrýnt trúverðugleika sögunnar (án þess að segja höfundinn beinlínis vera að ljúga – sem er samt annað) – alveg sama þótt ævisagan eða skáldævisagan sé búin einsog skáldsaga og jafnvel byggð þannig að hún hafi stærri/aðra merkingu en hver önnur játning, sé metafóra um tilveruna eða heimspekileg kenning. Maður réttir ekki manni sem úthellir úr hjarta sínu gula spjaldið fyrir það hvernig hann leggur upp söguna, að minnsta kosti ekki ef sagan inniheldur nokkra ástæðu til þess að tárast. Ein algeng – feminísk – gagnrýni er síðan að rithöfundar séu full gjarnir á að henda inn nauðgun þegar þá rekur í vörðurnar og vantar púður til að halda sögunni uppi. Gagnrýni af slíku tagi er augljóslega bullandi rangstæð þegar sagan er sannsaga. En hvað er þá skáldævisaga og hvaða hlutverki þjónar hún á tímum sem einkennast öðru fremur af opinberum játningum og reynslusögum? Heyrir hún til bókmenntunum eða facebook-statusunum? Er hún fyrir eilífðina eða augnablikið? Er hún dokument eða listaverk? Var Hallgrímur Helgason, þegar hann skrifaði Sjóveikur í Munchen á sínum tíma, að úthella úr hjarta sínu – að díla við harm sinn í samstöðu hópsins, með hasstagginu, taka þátt í þeirri samfélagsbyltingu sem var forveri #metoo – eða var hann að skrifa listaverk, sem mátti mæla og meta sem slíkt? Því þetta eru tveir ólíkir hlutir og kalla á ólík viðbrögð og þótt það megi blanda þeim þá er ekki endilega sjálfsagt hver prótókoll viðbragðanna er eða á að vera. Hvað sem líður mismuni skáldverka og ævisagna – og þess svæðis þar sem þau mætast, og gneistað getur úr – er ævisaga ekki það sama og einlægt forsíðuviðtal eða reynslusaga á samfélagsmiðlum. Meira að segja jarðbundnasta ævisaga er ekki hafin yfir gagnrýni á sama hátt og hin hreina reynslusaga – enda inniheldur ævisagan jafnan margt fleira en harmsöguna, hún á sér sitt eigið samhengi, og verður hluti af bæði höfundarverki og bókmenntasögu. Það er margt fleira í Sjóveikur í Munchen en hin fræga nauðgun – og allt hitt er líka Hallgrímur að beina kastljósinu að sjálfum sér og sinni sköpunarsögu, einsog fleiri rithöfundar gerðu þessi misseri (og var sennilega í það skiptið bergmál af vinsældum Knausgaards) og hafa gert í gegnum aldirnar. Hallgrímur kallaði Sjóveikan í Munchen skáldævisögu í viðtali – og þótt hann segði hana sanna, sagði hann líka að „flest“ í henni væri satt frekar en „allt“, hún væri „ýkt“ og ekkert í henni „hreinn skáldskapur“ nema uppköstin – og þá ætti í sjálfu sér sannleikurinn og trúverðugleikinn líka að vera undir í mati og mælingum. Þess utan má halda því til haga að hann stillir sér upp sem sögupersónu í bókinni og kallar sig ekki Hallgrím heldur Ungan Mann. Í viðtalinu talar hann merkilegt nokk líka um að hann hafi áhyggjur af því að markaður fyrir endurminningar miðaldra karla sé svolítið mettur þessi jólin, sem bergmálar síðan í gagnrýni Eiríks Guðmundssonar, sem verður komið að síðar (þótt Eiríkur hafi minni áhyggjur af kyni ævisagnaritara og meiri bara af því að ævin sé að taka við af skáldskapnum af því hún sé smellvænni). En að tröllinu í herberginu. Guðbergur Bergsson skrifaði hrottalegan pistil um þessa bók á sínum tíma og hlaut vægast sagt bágt fyrir. Í þessum pistli, sem ég skal láta vera að vitna í, veltir Guðbergur því meðal annars upp hvort Hallgrímur hafi logið upp á sig nauðgun til þess að fæða eigin athyglissýki. Það er í sjálfu sér merkilegt að Guðbergur – sem annars vílar nú varla neitt fyrir sér – virðist meira að segja vita það sjálfur að hann er að fara út fyrir allan þjófabálk og orðar það einhvern veginn þannig að nú sé hann að „leika kvikindi“. Sem er svona heiðin íslenskun á því að spila málsvara myrkrahöfðingjans (advocatus diaboli, devil’s advocate – en hefð er fyrir því að þegar kaþólska kirkjan leggur mat á hvort taka eigi mann í dýrlingatölu fái einhver það hlutverk að mæla gegn því í nafni andskotans). Þegar Guðbergur Bergsson telur sig hugsanlega vera að ganga of langt, þá er mjög langt gengið. Látum það vera. Guðbergur vill og hefur alltaf viljað hafa alla upp á móti sér – ef hann á sér einhverjar málsbætur í huga mér þá felast þær í sálgreiningu sem er ósanngjörn gagnvart bæði Hallgrími og Guðbergi sjálfum: að hann hafi sjálfur sem samkynhneigður maður mátt þola það stærstan hluta ævi sinnar að vera saklaus grunaður alls staðar sem hann fór um að vera predator-ódó sem nauðgar/tælir/spillir ungum saklausum (gagnkynhneigðum og hreinlífum) drengjum. Og bregðist við sögum af þannig hommum með ósjálfráðum kvikindisskap. Hins vegar var meira varið í pistil nafna míns Guðmundssonar sem tók upp orð Guðbergs – gekkst fyllilega við því að þau væru ósanngjarn hrottaskapur – en vildi engu að síður fá rými til þess að skoða hvort nokkurt korn af sannleika væri í því að finna að bókmenntirnar væru (einsog allt annað) að verða klikkbeitunni að bráð. Eiríkur er ekki vitleysingur eða kvikindi – þótt hann bergmáli síðan orð Guðbergs um kvikindið í eigin nafni – og ég samþykki ekki þá túlkun að þótt hann leyfi sér umbúðalausa umfjöllun um skáldævisögu Hallgríms og merkingu hennar í samhengi annarra sams konar bóka og samtímans sem hún birtist í þá sé hann að þolendasmána Hallgrím, einsog Hallgrímur vill meina, og þaðan af síður að Hermann Stefánsson sé að gaslýsa Hallgrím þegar hann rifjar upp að pistill Eiríks var alls ekki einsog Hallgrímur lýsti honum, sem því að Eiríkur hefði lesið allan pistil Guðbergs og smjattað á orðunum – það er einfaldlega ósatt, hann las tvö stutt dæmi úr pistli Guðbergs og setti þau í samhengi við fleiri bækur sem voru að koma út þessi jól, ákveðinn játningatendens í bókmenntum þess tíma og fagurfræði kvikindisins Guðbergs í gegnum tíðina – pistilinn má lesa hér – að benda á það er einfaldlega ekki gaslýsing. Guðbergur þolendasmánaði Hallgrím. Um það er engum blöðum og að fletta og hann mátti og má þola alls kyns svívirðingar fyrir (og á þær skilið og er sennilega alveg sama – ég veit ekki hvað maður gerir í því). En það er allrækilega undir beltis stað að kenna Eiríki Guðmundssyni um glæpi Guðbergs – kannski bara af því hann liggur betur við höggi, hann tekur það sennilega nærri sér og á minna undir sér en Guðbergur – það er ekki „secondary victimization“ einsog Hallgrímur kallar það að skrifa af óþægilega mikilli dirfsku um bókmenntir samtímans, sem eru lagðar fram til dóms og umfjöllunar, alveg jafnt þótt Hallgrími svíði undan. Það er þvert á móti mikilvæg en hverfandi list, sem er skyld hinni sem Hallgrímur er að reyna að gera hátt undir höfði, að tala upphátt. Það var ekki Eiríkur sem gerði ævi Hallgríms að umfjöllunarefni heldur Hallgrímur sjálfur – hann verður að geta tekið því að bækur hans og eðli þeirra séu settar í samhengi. Þær spurningar sem Eiríkur velti upp eru ekki óeðlilegar eða kvikindisskapur. Og sú krafa að Eiríki verði vikið úr starfi – sem ég hef ekki séð frá Hallgrími, og vona að hann myndi setja sig upp á móti sjálfur, en frá öðru málsmetandi fólki – er beinlínis gróf atlaga að málfrelsi Eiríks og öllum til skammar sem hafa hana eftir.