Untitled

Nú er sólin komin og hitinn að skríða í 20 gráður í Kylämä. Það verður ekki finnskara. Við búum inni í miðjum skógi – meira að segja síðasti kílómetri vegarins hingað var grasi vaxinn og trén teygðu sig yfir bílinn. Þetta var einsog að keyra upp í sjálft skaut móður náttúru. Í móðurlífinu er einn bústaður og „sánahús“. Öldruð frænka Nödju og maður hennar búa í bústaðnum, Kirsti og Reine, en við búum í sánahúsinu. *** Sánahúsið er einsog heimavistarherbergi samvaxið sánabaði. Og samt er þar allt til alls. *** Ég tók að mér þýðinguna. *** Yfir morgunmatnum diskúteruðum við gæði ólíkra rúgbrauða og súrdeigshrökkbrauða. Finnar eru mjög elskir að rúgbrauðum og helst eiga þau að vera súr, gömul, seig og hörð. Íslendingum dugði ekki að brjóta niður sykrurnar í rúginum með seyðingunni heldur hafa þeir síðustu 100 árin eða svo blandað það til helminga með sýrópi. *** Leikurinn „ertu rúgbrauð eða fransbrauð“ meikar fullkomið sens í Finnlandi. Á Íslandi gætirðu allt eins spurt börnin hvort þau séu rjómaterta eða fransbrauð. Íslenska rúgbrauðið er sælgæti. *** Rúgbrauð með plokkfiski er einsog ananas á pizzur. Bananar í karríréttinn. Sulta með steikinni. BBQ-sósa á kjúllann. Tómatsósa á pylsuna. *** Hér er svolítið um moskítóflugur. Óvenju lítið, segir fólk, en ansi mikið fyrir mann sem þær eru elskar að. Nadja segir að ég hafi smitað Aram af moskítófóbíu en ég reyni að benda henni á að það sé ekki fóbía þegar maður er allur bólginn, rjóður og klæjandi. *** Ég er að hugsa um að synda yfir stöðuvatnið hérna. Saaresjärvi heitir það. Eyjavatn. Eða eyjuvatn. Það er bara ein eyja í því, það best ég get séð. ***