Untitled

Ég er femínisti. En mér hefur oft verið sagt að ég sé það ekki. Og jafnvel beinlínis sagt að ég megi ekki kalla mig femínista ef að mér finnst ekki a) b) eða c). Yfirleitt hefur það snúist um „ákvörðunarrétt konunnar“ yfir eigin líkama. Mér finnst erfitt að samþykkja lög sem takmarka til dæmis rétt kvenna til að ganga með börn fyrir aðra – gegn greiðslu eður ei – meðal annars vegna sögulegrar stöðu konunnar og þess hvernig alls kyns opinbert vald, fyrst og fremst kirkjan, kapítalið og ríkisvaldið hefur og vill hafa umráðarétt yfir eggjastokkum, leggöngum og öllu hinu. Það er mér – sem femínista – mikilvægt að konan sé frjáls. *** Ég er vel að merkja ekki eini femínistinn í heiminum sem finnst þetta. Ekki einu sinni einn af milljón. En ég þekki margar konur sem myndu aldrei tala þannig við kynsystur sína en eiga samt í engum vandræðum með að skuðskýra fyrir mér hvað skoðanir mínar heita. (Ég er sennilega ekki nógu mikill  bandamaður í mér til að horfast ekki í augu við að í hópi kvenna og feminískra kvenna eru líka hrokafull fífl). *** Annars er ég hvorki frjálshyggjumaður né einstaklingshyggjumaður. Þetta er að mörgu leyti undantekning í skoðanamengi mínu, tilkomin af litlu trausti á þeim stofnunum sem mest hafa patróníserað konur í gegnum tíðina, hornsteinum feðraveldisins. *** Og svo er ég oft samt frjálshyggjumaður og einstaklingshyggjumaður. Þegar ég hugsa út í það. Anarkisti. Sósíalisti. Það er stundum erfitt fyrir mig að henda reiður á þessu. *** Það er líka erfitt að gangast við femínistaheitinu þá daga sem heimskuleg skrif í nafni femínismans fara með nethiminskautum. Einsog leikhúsrýni Maríu Lilju um Ljóta andarungann. Eða textar sem eru bara illa dulin mannfyrirlitning. Það er bara þannig. Þá daga verður maður að minna sig á að Sovétríkin eru ekki lýsandi fyrir hina sósíalísku hugsjón, hvað sem Brésneff segir. En maður verður einmitt að vera duglegri að fordæma gúlagið vegna þess að það er reist í manns nafni, yfir því blaktir vor fáni – í fullkomnum órétti. *** Það eru ekki bara fyrirtæki sem grænþvo sig. Regnbogaþvo sig. Bleikþvo sig. Ekki bara fyrirtæki sem vilja virðast umhverfisvæn, sýna konum og hýrum samstöðu og hlýhug – án þess að vilja leggja neitt raunverulegt að mörkum, nema rétt sem dugir þeim í auglýsingaskyni. Þetta gera einstaklingar líka. Á samfélagsmiðlum. Enda erum við öll fyrirtæki í kapítalisma 21. aldarinnar. *** Það er augljóslega próblematískt fyrir alla alvöru sósíalista. *** Ég hata jafnlaunavottun. Hana . Þá er það sagt. Ég hata hana ekki vegna þess að mér finnist ekki að það eigi að borga körlum og konum sömu laun, heldur vegna þess að hún er notuð til þess að breiða yfir þá staðreynd að fólki eru almennt greidd mjög ójöfn og óréttlát laun. Hún er hvítþvottur. Á meðan fyrirtæki borgar skúringakellingunum sínum brotabrot af forstjóralaununum skiptir engu máli hvort forstjórinn (kk) og framkvæmdastjórinn (kvk) eru með nákvæmlega sömu milljónatöluna í mánaðarlaun. Þau eru bæði skítrík. Vandamál þeirra koma mér ekki við. Ég hata vandamál þeirra. *** Kannski er það líka illa dulin mannfyrirlitning. Ég er sennilega ófyrirleitnari sósíalisti en ég er femínisti. En femínismi minn kemst líka svo að segja allur fyrir innan sósíalisma míns. Ég lít ekki á þetta sem tvo aðskilda hluti. Ég er ekki jafnréttissinni heldur jafnaðarmaður. Og þar af leiðandi femínisti. *** Man einhver lengur muninn á jöfnuði og jafnrétti? *** Jafnlaunavottuð fyrirtæki eru varla nema brotabroti minna óréttlát í launagreiðslum sínum en gengur og gerist. *** Ég er líka meiri og meiri efnishyggjumaður með aldrinum. Og var þó alltaf frekar mikill efnishyggjumaður. Frjálslyndir drápu marxismann í samfélaginu með því að gera efnishyggjuna móralskt ranga. Einsog kirkjan gerði á undan. Eat, pray, live on hay / you’ll get pie in the sky / when you die, orti Joe Hill um árið. Frjálslyndir vilja bara að allir séu næs. Og svo fær maður aldrei einu sinni neina köku þegar maður deyr. Maður fær kannski rifinn svínakjötsborgara með innfluttum ESBískum gráðosti, sultuðum rauðlauk úr beðinu úti í garði og heimabrugguðum craftbjór þegar manni er boðið í mat til borgarastéttarinnar annað veifið. Af því hún er svo næs. Og þá skiptir ójöfnuðurinn engu. *** Sósíalísk efnishyggja mín gengur út á að tryggja eigi öllum jafn mikið af efnislegum gæðum að því marki sem þeir kæra sig um. Það er ekki nóg að rétta fátækum ölmusu. Þessar aðgerðir – líkt og umhverfisvernd – eiga á að vera á forræði og að frumkvæði ríkisvaldsins. Til þess er það. *** Já og svo er enginn jöfnuður án jafnréttis. En einsog hefur rækilega sýnt sig er hellings ójöfnuður þrátt fyrir hellings jafnrétti. Launamunur kynjanna er satt að segja hlægilegur við hliðina á launamuni stéttanna. (Og miklu meiri kynjaójöfnuður byggður inn í launamun stéttanna en launamun kynjanna – af því að kvennastörf eru svo lítils metin). *** Ég er líka þeirrar skoðunar að sé leyst úr þessu grundvallaróréttlæti leysist margt annað óréttlæti af sjálfu sér. Hælisleitendur eru ekki bjargarlausir ef þeir eiga jafn mikið tilkall til samfélagsins þar sem þeir búa og hinir. *** Já og meðan ég man eru landamæri ímyndaðar gaddavírsgirðingar kapítals og ríkisvalds og þeim ber að tortíma. *** Capisce?