Sennilega er Hvalárvirkjun ekki merkileg byggðaaðgerð, þótt ég hafi annars lítið vit á því. Það er hins vegar áhugavert að skoða umræðu eða orðræðu þeirra sem setja sig upp á móti henni. Efri millistéttin í Reykjavík talar um landið einsog sitt prívat gallerí; talar um heimkynni annars fólks einsog höggmyndasafn sem það eigi að eiga ókeypis aðgang að á meðan enn skín sól á jörðu. Það spyr: Hvers virði erum 15 megawött (eða hvað það er) gagnvart eilífð fegurðarinnar? *** Þetta er alls ekki spurningin. Spurningin er: Hvers virði eru heimkynni fólks. Hvers virði er mannabyggðin. Hvers virði er lífið í Árneshreppi. Mannlífið og menningin. *** Efri millistéttinni í Reykjavík þykir vænna um Hornstrandir. Þykir vænt um draugahús og forna, horfna byggð. Þar nær hún tengslum við ræturnar. Hún nær engum tengslum við fólkið í Árneshreppi sem berst fyrir tilveru sinni. Ekki fyrren það er flutt á mölina og börnin þeirra eru farin að skrifa sagnfræðilegar doktorsritgerðir um hnignun mannlífs í jaðarbyggðum – milli þess sem þau „hlaða batteríin“ í yfirgefnu húsi foreldra sinna vestur í rassgati. *** Vesturlandarbúar fórna alltaf hagsmunum þess veikasta fyrst. Þess sem á minnst undir sér. Þannig virkar kapítalisminn. Flugvallarmálið er annað eins mál – og aftur er ég alls ekki viss um að flugvöllurinn þurfi að vera í Vatnsmýri, það er önnur saga, en hann má fara, á jafnvel að fara, þrátt fyrir að kannski komi ekkert í staðinn fyrir hann og það finnist engin lausn á samgöngumálum. Hagsmunir þeirra landsmanna sem berjast fyrir tilverurétti sínum mega sín einskis gagnvart vaxtarverkjum þeirra sem mega sín mest. Þá skiptir ekki einu sinni máli að stór meirihluti höfuðborgarbúa kæri sig alls ekki um að flugvöllurinn verði fyrirvaralaust látinn flakka. Hagsmunir hins sterka tala sínu máli. *** Í Reykjavík og víðar heitir þetta jafnaðarmennska. Sennilega hefur orðið jöfnuður alveg gersamlega misst merkingu sína. Íslenskir sósíaldemókratar eru amerískir demókratar. Það eru sænskir sósíaldemókratar núorðið líka. Og franskir. Kanadískir. Og svo framvegis.