Ég las Om Offisim eftir Malte Persson og hafði mjög gaman af. Þetta er eins konar skrítlubók eða ævisaga. Stuttir kaflar sem segja frá heimspekingnum, nýaldargúrúinu, sjálfshjálparsérfræðingnum, skáldinu, uppfinningamanninum og trúarleiðtoganum Offisim. Bókin er fyrst og fremst mjög skemmtileg en það er líka í henni snertur af því sem mig langar að kalla alvöru heimspeki en ég veit ekki hvort ég má – ég er að hugsa um Lao Tse og Wittgenstein. En það er líka snertur þarna af Coelho eða satíru af Coelho. Offisim er stundum beinlínis „djúpur“, stundum hlægilegur og stundum – einsog Lao og Ludwig – einhvers staðar mitt á milli. Óskiljanlegur einsog Zenmeistararnir; í fullyrðingum sem maður snertir ekki á með hyggjuvitinu heldur lætur einfaldlega þeyta huganum á flug. *** Ég er að verða búinn með Bjargræði Hermanns Stefánssonar. Hermann hefur skrifað mjög mikið af góðum bókum á frekar stuttum tíma og það hefur alls ekki farið nóg fyrir þeim. Frá Algleymi eða svo. Margt hefur verið skrifað um Bjargræði sem lesendur mínir (séu þeir nokkrir) eru kunnugir. Látra-Björg situr á kaffihúsi í Reykjavík og röflar yfir samtímanum við mann sem ætlar að halda framhjá konunni sinni, vegna þess að hann telur að hún hafi haldið framhjá sér, og segir upp og ofan af ævi sinni. *** Röflið er frásagnarmáti sem hentar samtímanum mjög vel –í þeim móð er Látra-Björg miklu meiri samtímamaður en hún vill vera að láta. Hún er í einhverjum skilningi alltaf að taka myndir af matnum sínum – árétta sjálfa sig og sjá sig utan að. Bjargræði er sjálfsmynd Látra-Bjargar, mynd af fortíðinni sem hún var, úr samtímanum sem hún gengur aftur í. Og mynd af matnum hennar. (Hún sem sagt hatar matarmyndir). *** Ég á dálítið erfitt með gullaldarmál í íslenskum bókmenntum. Eða blætið fyrir gullaldarmáli. „Ég hata gullaldarmál“ skrifaði ég í tölvupósti til vinar míns, þar sem ég var annars að mæra bókina. Svona dregur maður úr þegar maður mælir á torgum. En mér finnst það sem sagt ódýr leið til þess að „skapa stíl“ að breiða yfir sig skikkju orða frá Gröndal eða Þórbergi eða úr nítjándu aldar sendibréfum og slíku. Ég skil blætið og er fær um að sleppa takinu og „bara njóta“ – rétt einsog ég get alveg, ef ég vil, látið mig falla ofan í eilífðarhimnahafsogaugnalýsingar Kalmans – en ég þarf að hafa svolítið fyrir því. *** Og ég er ekki frá því að ímugust mín (sennilega talaði ég um ímugust frekar en hatur í áðurnefndum tölvupósti – kannski var ég þar með sjálfur ómeðvitað að teygja mig aftur í tímann, hver segir eiginlega „ímugust“???) sé blandin einhverri öfund. Ekki get ég skrifað svona, einsog Hermann og Offi og Bergsveinn og Sölvi. *** Mér finnst samt mikilvægt að bækur innihaldi einhvern stíl. Að þar sé tekist á við tungumálið. Ef bók er lýst svo að hún sé skrifuð af tilgerðarlitlum stíl ímynda ég mér bara að rithöfundurinn hafi ekki nennt að hafa fyrir því að skrifa hana. Ég vil rembing og læti. Svona yfirleitt, á þessu eru undantekningar. Sumt fólk skrifar tilþrifalítið, en samt þannig að einhver sérstök og sterk rödd skín í gegn – mér detta í hug jafn ólíkir höfundar og Tove Jansson og Charles Bukowski. *** Og Hermann gerir þetta vel og ofgerir því alls ekki. *** Ég hef veitt því eftirtekt að algengasta orðið í orðaforða mínum – fyrir utan og og ég og en og í og úr og að og það allt saman – er sennilega eða eitt af systkinum þess, líklega, kannski, trúlega, vísast o.s.frv. Ég gæti best trúað (þ.e.a.s. „sennilega“) er þetta mitt „mér finnst“ eða mín halaspurning. „Ekki svo?“ „Non?“ Og hugsanlega ætti ég að venja mig af þessu. Læra að tala og skrifa í beinni línu. Úr mínum heila beint í þinn, frekar en að leggja það í þinn dóm hvort mér sé óhætt að fullyrða eitthvað. I am a free man, I have another number. *** Næst ætla ég að lesa La Storia eftir Elsu Morante. Aðra langa skáldævisögulega ítalska bók um seinni heimsstyrjöldina (hin var Kaputt eftir Malaparte, sem ég nefndi hér um daginn). Það var mælt með þeim báðum við mig; tvær vinkonur mínar. Roberta Soparaite á Ísafirði, sem hefur þýtt hluta úr Illsku á litháísku, mælti með Kaputt og lánaði mér sitt eintak. Franska ljóðskáldið Marie Fabre – sem þýðir einmitt talsvert úr ítölsku – mælti með Morante.