Síðasta bloggfærsla varð að frétt í morgunblaðinu. Upp úr því fékk ég tölvupóst frá ónefndum rithöfundi sem vildi vita hvort dónalegi Frakkinn héti nokkuð D***d. Þá kom í ljós að téður rithöfundur hafði verið þarna með enn einum rithöfundinum (er aldrei hægt að segja hér sögur af fólki úr öðrum stéttum?) og þau höfðu einmitt rekið sig mjög illa á þennan dónalega Frakka líka. Svo illa að þennan rithöfund grunaði að hugsanlega hefði D***d verið hefna sín á okkur vegna erjanna við þau – enda allir íslenskir rithöfundar meira og minna sami höfundurinn í augum Frakka. Það greip mig ógurleg lesleti í vikunni og ég rétt slefaði í gegnum annað bindið af Napólífjórleik Elönu Ferrante, Saga af nýju ættarnafni . Ég veit ekki hvort mér fór að finnast hún leiðinleg vegna þess að ég missti dampinn eða hvort ég missti dampinn vegna þess að mér fór að finnast hún leiðinleg. Þetta er svolítið einsog að hlusta á mjög langa slúðursögu stundum. „Og gvöð, svo giftist vinkona mín Stefano en hann fór að berja hana og hún, sko hún, hún var ástfangin af Nino en ég var LÍKA ástfangin af Nino en Nino valdi hana auðvitað, hún er svo frábær, og svo gáfuð, það er alveg sama hvað ég læri ég verð aldrei jafn gáfuð og hún, þótt hún læri aldrei, og svo varð hún bara ÓLÉTT og gvöð hún segir að Stefano eigi ekki barnið!“ Þetta er auðvitað ósanngjarnt. Mér fannst fyrri bókin frábær og þessi er eiginlega alveg eins. Ég bara missti þolinmæðina fyrir þessu. Sakna einhvers – kannski einhvers sem ögrar mér. Þegar mér fer að leiðast fer ég líka að lesa mjög mjög hægt og það er bara ekki gott. Og þá fer ég að leita að göllunum og hugsa stanslaust af hverju mér finnist þetta ekki lengur skemmtilegt. Og lesandi sem treystir ekki bókinni getur ekki notið hennar. Ferrantebækurnar eru líka að mörgu leyti líkar Sally Rooney bókunum, sem ég er nýbúinn með. Hvíla mjög á melódramatískum söguþræði og vilja manns til þess að fylgja fólki inn í vandræðaleg og jafnvel ofbeldisfull ástarsambönd. Þetta eru eiginlega söguflækjur frekar en söguþræðir og halda endalaust áfram – sérstaklega hjá Ferrante. Þá eru aðalsögupersónurnar líka allar annað hvort eða bæði mjög gáfaðar eða mjög hæfileikaríkar/andríkar. Alls ekkert venjulegt fólk. Ég horfði á eitt og annað og áreiðanlega fullmikið á sumt. Byrjaði og kláraði aðra árstíð af Mindhunter seríunni. Eða hvernig segir maður aftur síson á íslensku? Talar maður kannski um aðra seríu af Mindhunter sjónvarpsþáttaröðinni? Þetta er ruglandi. Og Mindhunter var ekkert spes. Kláraði líka síðustu tvo þættina af Brooklyn 99 sem var ágætt bara, alveg fínt slútt á góðu léttmeti. Þá horfði ég á fyrsta þáttinn í Bæir byggjast , þáttum Egils Helgasonar, en hann fjallaði um Ísafjörð. Elísabet vinkona mín átti þar stórleik og það var mikið af skemmtilegu myndefni. Svo var líka minnst á Brúna yfir Tangagötuna . Við Aram Nói kósuðum okkur á laugardagskvöldið og horfðum á tvær bíómyndir í röð um hljómsveitir sem geta ekki hætt að rífast. Sú fyrri var Commitments eftir skáldsögu Roddy Doyle en sú síðari heimildamyndin Some Kind of Monster um Metallicu. Commitments er ruddalega fyndin án þess að eldast sérlega illa – og er þó á jarðsprengjusvæði: hvítir krakkar stofna hljómsveit, lýsa sig „the saviors of soul“ og segjast í raun vera blökkumenn Evrópu. En þau eru of sjálfshæðin og gróf og hreinlega utangarðs – og myndin hreinlega of mikið um hvað þau séu miklir rugludallar – til þess að slík gagnrýni stæði undir eigin þunga. Ég hef ekki séð hana síðan 1991 – þegar ég var jafn gamall Aram – og fannst mjög gaman að rifja hana upp og Aram hló mikið (sérstaklega að reiða trommaranum). Some Kind of Monster var dálítil vonbrigði. Konseptið er frábært og margt í myndinni mjög gott. Metallica er að reyna að gera plötu í kjölfar þess að Jason Newstead, bassaleikarinn hættir. Þeir fá til sín kvikmyndagerðarmenn til að taka upp prósessinn og vinnustaðasálfræðing (sem fær 40 þúsund dollara á mánuði) til þess að stilla til friðar. Það byrjar illa og svo stingur James Hetfield bara af í nærri því ár – fer í meðferð og vinnur í sjálfum sér. Þá byrja þeir aftur og á endanum kemur út plata og þeir reka sálfræðinginn. Það er eitthvað fyndið – ef ekki hreinlega fin-de-siecle – við að horfa á þessa menn rekja úr sér garnirnar og greina tilfinningar sínar einsog menn í þreyttu hjónabandi. Því þessi hljómsveit er auðvitað stórveldisöld þungarokksins líkömnuð og við vitum núna nærri 20 árum síðar að þeir náðu sér aldrei á strik í lagasmíðum – þótt þeir séu auðvitað enn stærsta liveband þungarokksbransans. Svo eru þeir svo miklir rassvasaspekingar – tala gjarnan mjög passíf-agressíft þerapíumál sem minnir á spakmælin sem fólk lætur ganga á Facebook. En allt er það gott bíó – galli myndarinnar er bara skortur á góðu tempói og yfirgengileg lengd miðað við efnivið (hún er tveir og hálfur tími). Það er líka bara of langur tími fyrir venjulegt fólk til þess að vera í parameðferð með þessum handónýtu sívælandi afturbatarokkurum. Heyrðu já svo kláraði ég líka að lesa upphátt Harry Potter og Fönixregluna. Þetta er fimmta og lengsta bókin. Harry tengist Voldemort hugrænum böndum sem verður til þess að koma honum í vandræði. Mjög spennandi dót og tempóið fíknivekjandi – dýnamík milli persóna í allar áttir og viðhaldið af feykilegri kúnst. Mig grunar hins vegar að Rowling geti farið illa út úr því sem best má lýsa sem viðvarandi endurmati á verkum hennar í ljósi dvínandi vinsælda vegna bæði hrottalegra staðhæfinga um menn og málefni – aðallega transkonur – og þess að henni hefur ekki tekist að fylgja HP bókunum neitt eftir af viti. HP bækurnar eru bara einsog þær hafa alltaf verið (segi ég, sem er að lesa þær fyrst núna) en þegar maður les þær í leit að einhverju óviðurkvæmilegu þá finnur maður það auðvitað út um allt – það gildir um allar bækur og því meira sem bækurnar eru lengri og fjalla um fleira fólk. Þá kannski einblínir maður minna á að Harry og vinir hans verði fyrir einelti (eða Lúna Lovegood vinkona þeirra) og meira á að þau leggja eiginlega Völu væluskjóðu í einelti. Og höfundur er gjarn á að hafa fávita svolítið vel í holdum. Allt má það til sanns vegar færa – ekki síst þetta með að skoðanir Rowling á transfólki séu henni til ævarandi skammar – en mér finnast nú samt þessi knee-jerk viðbrögð að Harry Potter bækurnar hafi þar með aldrei verið „góðar“ svolítið missa marks – einsog allt fólkið sem stökk fram til að segjast aldrei hafa fílað Megas síðasta haust (og gerði eins við Woody Allen fyrir nokkrum árum – aldrei verið fyndinn, sá maður). Þetta er bara mórölsk fýla og hún er alltaf jafn leiðinleg. Það er jafn mikilvægt að meta hið góða sem fólk gerir því til tekna og það er að fordæma hið illa sem það gerir. Svo horfðum við líka á myndina – Harry Potter fimm. Þetta er stysta myndin eftir lengstu bókinni (ein myndin er styttri – en það er önnur þeirra sem gerðar eru upp úr lokabókinni, sem er skipt upp). Og eftir því einfölduð. Eiginlega er hún bara léleg.