Bassanótur og bókaglósur

Þessa dagana fer mikill hluti míns frítíma í að sinna sífellt fyrirferðarmeiri ferli mínum sem skallapoppari. Þessi ferill er reyndar margþættur – ég hef auðvitað verið að spila á gítar í mörg ár og jafnvel leyft mér að syngja örlítið. En síðasta vor var mér boðið að leika á bassa í indíbandinu Gosa og þáði það og nú hefur það undið upp á sig og við erum búnir að læra heilt ballprógram, ofan í indípoppið. Við höfum leikið þrisvar opinberlega. Í fyrsta skipti var það off-venue á Aldrei fór ég suður síðustu páska. Svo í innflutningspartíi hjá vinum okkar Hauki og Vaidu. Þá bættum við nokkrum slögurum við. Á síðustu helgi lékum við svo á balli á Skrímslasetrinu á Bíldudal – tókum fyrst Gosaprógramið og svo sirka 15 laga ballprógram. Á næstu helgi er svo árshátíð Ísafjarðarbæjar og við erum trommuleikaralausir – trommarinn okkar, Baldur Páll, er í Reykjavík á annarri árshátíð, en Jón Mar vinur okkar hleypur í skarðið. Þá þurfum við að spila í sirka þrjá tíma – í möppunni eru um sextíu lög, sum þeirra að vísu mjög einföld en önnur krefjandi. Og við reiknum ekki með því að spila nein Gosalög enda ballgestir sennilega bara í stuði fyrir Stevie Wonder og bítlana. Fyrir mann sem er enn að læra á bassa er þetta eldskírn og áskorun. Það hefur auðvitað verið nokkur bassaleikaraskortur í íslenskum bókmenntum frá því Bragi hætti í Sykurmolunum. Eða lagði þá niður. Eða hvernig það gerðist. Frá því Bragi hætti að spila opinberlega. Á þarnæstu helgi eru svo tvö gigg fyrir sunnan – en bæði með Gosaprógraminu (sem við kunnum orðið ágætlega). Á föstudegi leikum við í Mengi og á laugardegi á Bjórhátíð í Hveragerði. Kvöldin fara í þetta bassastúss og dagarnir fara enn sem fyrr í bókmenntirnar. Á mánudaginn birtist fyrsta eintakið af barnahryllingsjólabókinni minni, Frankensleiki , í póstkassanum. Ég skrifaði hana fyrir börnin mín á aðventunni í hittifyrra. Okkur fannst hún fyndin en svo verður bara að koma í ljós hvað öðrum finnst. Hún kemur allavega í búðir eftir mánuð. Ég er búinn að skila ritlaunaumsókn – það er leiðinlegasta bókmenntagreinin – og skipuleggja upplestur með sveitungum mínum, Helen Cova, Gretu Lietuvninkaite og Satu Rämö, auk Birtu Ósmann Þórhallsdóttur sem kemur til okkar af suðurfjörðunum. Svo hef ég mest verið að lesa mig í gegnum það sem ég er búinn að vera að skrifa síðustu mánuði, bæði ljóð og prósa, og skrifa hjá mér glósur í rólegheitunum. Nú þegar aukaverkunum og bassastússinu er að ljúka tek ég svo ærlega törn í eiginlegum skrifum. Sennilega hef ég lesið bók á dag frá því ég krafsaði mig í gegnum Sögu af nýju ættarnafni um daginn. Meðal annars tvær nýútkomnar bækur sem voru báðar fyrirtak –  Breytt ástand eftir Berglindi Ósk (sem kemur held ég formlega út á morgun) og Auðlesin eftir Adolf Smára. Annars ber hæst Ótti markmannsins við vítaspyrnu eftir Peter Handke, Ett öga rött eftir Jonas Hassan Khemiri, Undrun og skjálfti eftir Amelie Nothomb, Daloon-dagar eftir Bergþóru Snæbjörnsdóttur og Ferðataskan eftir Sergej Dovlatov. Lágpunkturinn var Diktet minner om verden eftir Jan Erik Vold – í henni er að vísu eitt gott ljóð, sem í sjálfu sér getur alveg verið nóg, en uppistaðan er rímuð pólitísk ljóð af svipaðri tegund og Hallgrímur Helgason og Þórdís Elva hafa fengist við. Ég er með svo mikið ofnæmi fyrir þessari bókmenntagrein að ég get ekki einu sinni lagt mat á það hvort þetta sé vel eða illa gert. Vold er samt dálítið kúl týpa – norskt bítskáld. Sem minnir mig á, mér var sagt um daginn að það væri loksins búið að slaufa Allen Ginsberg – líklega hefur farið lítið fyrir því fyrst ég varð eiginlega ekki var við það nema af afspurn. Ginsberg var auðvitað voðalegur dónakall og meðlimur í NAMBLA en hafði líka orð á sér fyrir gætni og mýkt – helgaði líf sitt friði og ástum, eftir óstýrilátan þrítugsaldur. Það hafa mér vitanlega aldrei komið upp neinar hrottasögur af honum en hann sagðist sjálfur elska unga drengi – einsog hann sem ungur drengur elskaði eldri menn. Með því meinti hann sennilega eldri unglinga, sem var sannarlega ekki jafn umdeilt á sjöunda og áttunda áratugnum og það er núna (þá var samkynhneigðin umdeildari en aldursmunurinn). Einhvern veginn hef ég lengi beðið þess að annað hvort kæmi eitthvað ljótara upp úr dúrnum um hann eða að samtíminn tæki hann bara haustaki, einsog samtíminn gerir stundum þegar honum leiðist.