Að lesa og kjósa og vera ungur

Ungir Svíar kjósa hægri öflin. Þetta hefur svolítið verið til umræðu í Svíþjóð. Það er hallærislegt að vera sósíaldemókrati – að vera sossi er samheiti fyrir að vera nískur, sagði eitt ungmennið. Við viljum ódýrt bensín, sagði annað. Stór hluti Svía býr fremur afskekkt og það fólk treystir á bíla sína á annan máta en unga fólkið í borgunum. Og margt af þessu unga fólki kýs sem sagt ekki bara Moderatarna – Sjálfstæðisflokk þeirra Svía – heldur ekki síður Svíþjóðardemókratana, þá húsvönu nasista. Þeir eru sem sagt einna vinsælastir hjá þeim kjósendum sem eru að kjósa í fyrsta sinn. Útskýringin, segja sum ungmenni, er meðal annars einhvers konar uppreisn gegn fullorðinsheiminum – eða dómhörðu kynslóðinni sem er nú rétt að hætta að teljast til ungmenna. Þá kom fram í fréttum að þetta væri alls ekki bara sænskt trend heldur gilti sama um Marine Le Pen í Frakklandi og Meloni á Ítalíu, báðar njóti talsverðra vinsælda meðal ungs fólks. Sú síðarnefnda notar japanskar anime-teikningar til þess að kynna sig – það er hennar myndmál, myndmál æsku og mýktar, eins ólíkt hinu harða maskúlín myndmáli Mussolinis og maður kemst. Stöndum vörð um hina hefðbundnu fjölskyldu, segir Meloni-Chan (en svo heitir anime-avatar Giorgiu Meloni). Annað sem ég las í sænskum fréttum í vikunni var að 11% Svía læsu enga bók á ári. Jafn margir töldust bókaormar og lásu fleiri en 30 bækur á ári. 27% Svía lásu eina til þrjár bækur á ári og 18% lásu fjórar til sex– restin las svo eitthvað á milli sex og þrjátíu bækur. Mér fannst þetta forvitnilegt. Með kynjamuninum komu karlar enn verr út – 16% karla lásu enga bók en 6% kvenna. Allir voru meira og minna sammála um að þeir vildu gjarnan lesa meira. Við lok síðasta árs fannst mér einsog ég væri eitthvað að missa fótanna í lestri. Og las þó rúmlega bók á viku – minnir að ég hafi verið með um 70 titla í lestrardagbók heimilisins. Mikið af því var ekki skáldskapur – ég lá í blússögu og alls konar þannig grúski. Ég ákvað að taka mig taki, hætta helvítis símahangsinu og vera alltaf með bók á mér. Ég ákvað líka að lesa meiri skáldskap, meira á íslensku og hætta t.d. að forðast þýðingar úr ensku, nota bókasafnið og bókabúðina og ráðast í allar þessar ólesnu bækur sem ég hef sankað að mér í gegnum tíðina. Á fyrri hluta ársins las ég að meðaltali 25 bækur á mánuði og ákvað því á afmælinu mínu – sem er akkúrat á miðju árinu – að halda þessum ánægjulega dampi og klára 300 titla fyrir áramót. Það hefur enn sem komið er ekki kostað mig neina sérstaka fyrirhöfn aðra en þá að þegar ég hef ekkert annað að gera tek ég upp bók frekar en síma. Þegar ég las þessa sænsku frétt um lesturinn saknaði ég þess að fá ekki gamlar tölur til samanburðar. Hefðu þeir sem lásu 30 bækur á ári talist bókaormar fyrir 40 árum síðan? Er það mikið? Mér finnst einsog ég sjái oft að fólk setji sér markmið að lesa 100 bækur á einu ári. En svo er „bók“ auðvitað mjög undarlegur mælikvarði. Stysta bókin sem ég hef lesið í ár var kannski 30-40 afar gisnar síður. Og sú lengsta rétt um þúsund þéttar síður. Og ekkert sem segir að stutta bókin geti ekki haft meira afgerandi áhrif á mann en sú langa – lifað með manni lengur og jafnvel kostað mann meiri lestrartíma, ef maður þarf að sökkva sér í hvert einasta orð. Allavega. Í könnun frá MMR hér um árið kom í ljós að á meðan kjósendur ysta vinstrisins (eða VG – sem tradisjónelt er ysta vinstrið, þótt það séu kannski ekki allir sammála um hvar sá flokkur stendur síðustu árin) lesi mest þá lesi kjósendur popúlistaflokka (í þessu tilfelli Flokks fólksins) minnst. Heil 37% kjósenda Flokks fólksins, 2019, sögðust aldrei lesa sér til ánægju – sambærileg tala hjá kjósendum VG var 6%. Mér finnst eðlilegt að draga af þessu þá ályktun að annað hvort verði maður fáviti af því að lesa ekki eða það séu bara fávitar sem ekki lesa. En það er auðvitað svolítið pólaríserandi afstaða.