Untitled

Það fer sennilega ekki framhjá neinum sem lítur hingað inn oftar en einu sinni á ári að mér finnst stundum einsog „rödd landsbyggðarinnar“ – eða kannski fremur sjónarhornið frá Ísafirði, mín sýn á umhverfi mitt, eða rödd umhverfis míns, svo ég ætli mér ekki um of – veki ekkert alltof mikla athygli eða njóti sannmælis þegar það nýtur hennar. Yfirleitt heyrist ekkert í „okkur“ nema þegar við erum byrjuð að garga, ragna og blóta, og þá er svarið úr siðmenningunni yfirleitt það sama: Hvers vegna eruð þið alltaf að garga og ragna og blóta svona mikið? *** Svarið er auðvitað: vegna þess að annars hlustar enginn. Ég hef sagt það áður – hin yfirvegaða kurteisi er forréttindi þeirra sem hafa vald og/eða aðgang að því. *** Og mér hefur fundist að vegna þess að ég er maður sem er með fótinn í tveimur heimum – að minnsta kosti – einhvers konar treflakreðsum í Reykjavík annars vegar og einhvers konar slorstígvélakreðsum hér á Ísafirði hins vegar – þá beri mér hálfgerð skylda til þess að flytja orðið þangað sem það ekki berst af sjálfu sér. (Ég held að Ísfirðingar heyri mun betur í treflakreðsunum en Reykvíkingar heyra í slorstígvélakreðsunum, og upplifi því minni aðköllun, áríðun, brýnun á að flytja hljóð í þá áttina – þótt ég geri það líka, sérstaklega í kringum úthlutun listamannalauna). *** Ég verð þó að gæta mín og fara varlega því í raun hef ég nákvæmlega núll áhuga á að gerast talsmaður eins eða neins – og allra síst stórgróssera eða virkjana (sem slíkra), þótt ég sé efnishyggjusósíalisti og hlynntur atvinnusköpun. Og ekki kæri ég mig um að standa reikningskil á verkum annarra. Það væri fáránlegt. *** En ég fór sem sagt eitthvað í þessu sambandi að velta því fyrir mér í morgun – á meðan Aino var að klæða sig (hún var óvenju lengi að klæða sig í morgun og ég hef fyrir reglu að reyna að reka sem minnst á eftir henni; við iðkum munað tímans fyrir hádegi og vöknum hægt) – ég fór sem sagt að velta því fyrir mér hvaða heimum ég tilheyrði fleirum. Hvar ég hafi plantað öllum fótum mínum. *** Augljósast er auðvitað að nefna Svíþjóð. Ekki bara í gegnum Nödju – hún fylgist lítið með íslenskum fjölmiðlum, er sennilega meira með á nótunum í Frakklandi, Finnlandi og Svíþjóð, auk alþjóðamála, en íslenskum dægurmálum. Ég öfunda hana oft af þessu. *** En ég hef líka innsýn í aðrar kreðsur í Svíþjóð, rithöfundakreðsur sem hún sér ekki endilega jafn vel inn í. Ég hef innsýn í málefni foreldra og að einhverju leyti málefni barna. Ég hef enga innsýn í málefni kokka þótt ég eldi mikið og það sé – ásamt gítarleik – eitt af mínum helstu áhugamálum. Kannski er það það sem skilur áhugamál frá einhverju sem er meira integralt? Maður sér skilin milli sín og áhugamálsins – en allt hitt er summan af því sem maður einfaldlega er, og getur ekkert gert í. Ef maður getur hætt einhverju – sjálfviljugur – þá er innsýn manns í þann heim innsýn gestsins. *** Sem er í sjálfu sér ekki ónýtt – það er líka innsýn. Glöggt er gests auga og það allt saman. En gestsaugað er samt ekki jafn næmt og auga heimamannsins, þess sem á framtíð sína undir heilbrigði lífheimsins. Það kemur hugsanlega auga á aðra hluti – en það missir af hundrað þúsund samhengjum, heila samfélagsvefnaðinum. *** En ætli það þýði að ég sé líka sænskur rithöfundur? Aram Nói var eitthvað að halda því fram í gær við mömmu sína að hún væri alls ekki neitt íslensk. Ég mótmælti þessu, því þótt henni sé mikilvægt að vera sænsk (og finnsk) þá er ekki þar með sagt að hún sé ekkert íslensk. Maður er auðvitað fjári margt. Og maður er fleira fyrir sakir internetsins – maður skilur ekki lengur við heima einsog maður áður gerði, þegar maður flytur, heldur er viðstöðulaus þátttakandi í mörgum heimum.