Untitled

Ef ég væri dýr væri ég páfugl. Ég geri eiginlega ekki neitt nema til að sýna mig. Kannski þýðir það að ég sé ómerkilegur. *** Í dag fór ég í sund og synti einn kílómetra fram og til baka í 16 metra langri laug. Það var fínt. En undir það síðasta varð lyktin öðru megin í sundhöllinni óbærileg. Einhver – sennilega kona – hefur farið í heita pottinn útmakaður í einhverjum dýrum kremum eða næringum eða ilmvötnum og skilið allt saman eftir í pottinum þegar hann fór. *** Þegar ég hafði lokið mér af við sundið – grænn af viðbjóði í framan – beið ég í góðar 20 mínútur áður en ég treysti mér til að fara í pottinn. Þá hafði lyktin hjaðnað en það var svona hvít slikja í pottinum. Pom (baðvörðurinn) bauðst til þess að tæma pottinn og fylla hann upp á nýtt en ég nennti ekki að bíða og lét mig hafa þetta. *** Við Aino gerðum gnocchi saman í kvöldmat. Með grænkálspestói. *** Ég fór eitthvað að velta þessu fyrir mér í gær með manninn og boltann. Mér sýnist algengt nú til dags að það sé farið í bæði – sumir fara í manninn og aðrir fara í boltann. Og eðlilega, segi ég, það er a.m.k. engin ástæða til þess að horfa framhjá því  hver ræðir – hvaða hagsmunir liggja þar að baki, hvaða rödd þetta er, hvaða sjónarhorn og hvaða almennu samfélagsviðhorf má greina þar í gegn. Þetta er bara vitleysisklisja, að það eigi ekki að fara í manninn – meira að segja í fótbolta er oft ástæða til þess að fara í manninn. *** Nema hvað. Þegar á svo að fara að svara er pakkað í vörn fyrir manninn – oft (ekki alltaf) í staðinn fyrir að verja málstaðinn. Af því það er auðveldara.  Hvað hefur þú á móti Hönnu Birnu / Lækna Tómasi / Móður Teresu / Genghis Khan o.s.frv.?  Allt sem hán er kemur því ekkert við hvað hán segir – það er algerlega ótengt .  Hán er vel gefið, nýtur velgengni í starfi, er myndarlegt og lyktar einsog vorið.  *** Ég hef verið latur við að lesa ljóð upp á síðkastið. Hef verið svo eirðarlaus.