Um daginn hélt ég því fram að það væri Daloon dagur. Þetta sönglar reglulega í höfðinu á mér. „Það er Daloon dagur í dag“. En ég veit ekki hvað Daloon er. Vörumerki – jú, augljóslega. En fyrir hvað? Rúmföt? Hrísgrjón? Skyndirétti? Sápu? Er þetta eitthvað heimilistæki kannski? Ekki segja mér það, ég vil ekki vita það. *** Ég fylgist oft ekki nógu vel með. Um daginn spurði Nadja mig hvernig sundskýlan mín liti út. Ég gat ekki lýst henni. Ég veit núna að hún er svört og græn en bara vegna þess að ég kíkti. Ég gæti heldur ekki lýst sundfötum barnanna eða sundfötum Nödju. Ég vona að þetta sé vegna þess að ég sé að taka eftir einhverju öðru og hugsa um eitthvað annað því það væri voðaleg tilhugsun ef ég væri bara ekki að hugsa um neitt. Nema það væri það ekki – ég sé einhvers konar gangandi nirguna brahma. *** Haukur Már skrifar um mikilvæg málefni á bloggið sitt í dag. Mál dagsins – brottvísun flóttamanna. Og þess vegna er undarlegt að ég skuli ætla að segja það sem ég ætla að segja um bloggið hans Hauks Más, því auðvitað er það tittlingaskítur í samhenginu, eða ekki, kannski alls ekki, en allavega þá hefur mér alla tíð – alveg frá því við kynntumst fyrir tæplega 20 árum síðan – haft unun af að lesa texta sem Haukur Már skrifar og öfundað hann af … hvað kallar maður það, tækninni? Ritstílnum? Allavega, þegar ég verð stór ætla ég að skrifa einsog Haukur Már. *** Ég las samt ekki bloggið hans um Sjálfstætt fólk nema á algeru hundavaði. Hann sendi mér hlekk í spjalli með spoiler alert (ég hef ekki lesið hana) og ég ætlaði að lesa bloggið en svo bara gerðist það ekki, ég skimaði það, einsog ég bara rynni á rassinn og súrraðist svo í gegn þar til það var búið. Og ég er engu nær. Bókin er um einhvern bónda, ég sá það, en vissi það svo sem fyrir, og gott ef hann er ekki alltaf með leiðindi við fólkið sitt af því hann langar svo að standa á eigin fótum og þurfa ekki að treysta á aðra. Það er skiljanlegt. En þetta vissi ég allt líka fyrir. *** Haukur veit ekki að ég hef ekki lesið færsluna. Ég lét bara einsog ekkert væri, einsog ég væri bara að lesa hana, og svo las ég hana ekki. *** Í sumar hélt ég því fram að ég hefði greint sterk áhrif frá hljómsveitinni Free í gítarleik Angusar Young og gúglað því en ekki fundið neitt – nema að trommarinn hefði einhvern tíma mætt í áheyrnarpróf hjá AC/DC. Nú er ég að lesa nýútkomna ævisögu Angusar og þar kemur ítrekað fram að Angus elskaði Free. Gítarleikarinn Paul Kossof dó hins vegar bara fljótlega eftir að AC/DC byrjuðu. *** Eftir 25 ára feril af því að lesa ekki Sjálfstætt fólk (hún er sennilega ekki fyrir neinn yngri en 14) er ég bara orðinn ónæmur. Allt sem henni viðkemur hrekkur af mér einsog vatn af gæs. *** Í gær fékk þýðandinn minn – og þýðandinn okkar margra – Eric Boury verðlaun frá forseta Íslands (ásamt Vicky Cribb, sem þýðir úr ensku) fyrir ómetanlegt framlag til íslenskrar menningar. Þannig held ég að það sé orðað allavega. Og varla get ég ímyndað mér nokkurn mann sem er betur að því kominn en hann. Ég hitti gjarna lesendur í Frakklandi sem ausa hann lofi – sem bíða eftir næstu þýðingu frá honum. Slíkt er vald hans á tungumálinu. Og það þarf heldur enginn að efast um sem hefur unnið með honum – þar elskast nákvæmnin og ástríðan. Svo er hann líka svo skemmtilegur og góður maður og það er alltaf gaman þegar skemmtilegt og gott fólk fær það sem það á skilið. Ég blandaði mér basílikugimlet hér í Sjökvist í gærkvöldi og skálaði fyrir þessum frábæru tíðindum áður en ég fór í rúmið (og vaknaði svo með missed call frá meistaranum sjálfum). *** Var ekki eitthvað fleira sem ég ætlaði að segja? Ég er að fara í jarðarför á eftir. Hjá gömlum vinnufélaga og bróður vinar míns. Eða vina minna – tvo bræður hans þekki ég og systir hans vinnur á leikskóla Ainoar. Það er stundum sagt að maður sé sérstaklega verndaður frá heiminum þegar maður býr í litlu samfélagi – frekar en í stórborg til dæmis. En þessi nánd er meiri. Þegar fólk deyr á Ísafirði – sérstaklega ungt fólk, auðvitað, sem enginn á von á að deyi í bráð – þá deyr það frá öllum bænum, og í öllum húsum finnur fólk til með nærstöddum. Allt bæjarfélagið flaggar í hálfa stöng. *** Og þá er líklega best að fara í sturtu og raka sig. *** À bientôt.